Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 40
40 TMM 2008 · 3
R a g n h e i ð u r G e s t s d ó t t i r
Einhver slær í glasið og stendur upp. Ræða. Og sjálfsagt bara sú
fyrsta af mörgum. Hvað skyldi hún geta komist upp með að fara
snemma?
– Kæru bekkjarfélagar …
Hann er að minnsta kosti ekki orðinn neitt fullur. Og hann
hefur undirbúið sig, er með eitthvað skrifað. Þá verður þetta von-
andi ekki allt of hræðilega langt.
En ræðumaðurinn heldur sig ekki við blaðið, hann skýtur inn
hverri gamansögunni á fætur annarri, sögum af prakkarastrikum,
af skrýtnum kennurum, af gleðskap og vináttu. Hver er þetta
eiginlega? Svo kemur hún honum fyrir sig. Þetta er Maggi. Breið-
leitt andlit, stutt nef, gleiður munnsvipur. Hann hefur í rauninni
ekkert breyst nema hvað freknurnar eru horfnar undir samfelldan
roða á kinnum og nefi.
Hann skiptir snögglega um tón, verður alvarlegur. Skarð hefur
verið höggvið í hópinn. Hér eru ekki lengur allir gömlu, glöðu
félagarnir. Og við rísum úr sætum og minnumst þeirra sem horfn-
ir eru. Gamla bekkjarkennarans, Sigurjóns. Guðrúnar, sem lést
langt fyrir aldur fram á síðasta ári. Og við minnumst líka Harald-
ar. Halla, sem lést aðeins tvítugur, en hefði orðið fertugur í des-
ember síðastliðnum.
Hún finnur fyrir snöggum svima um leið og hún sest aftur og
klígja kemur upp í hálsinn. Halli. það er langt síðan hún hefur
hugsað um Halla. Grannt, alvarlegt andlit undir ljósum, illa
klipptum hárlubba. Stirðlegar hreyfingar. Allt of stuttar buxur
sem náðu ekki að skýla brothættum ökklunum og grannir úlnlið-
ir undan teygðum peysuermum. Halli á flótta undan hlæjandi
strákaskaranum. Flótti sem alltaf endaði með því að einhver brá
fyrir hann fæti. Endaði með hrufluðum hnjám, rifnum peysum,
blóðugu nefi. Og köldum, miskunnarlausum hlátri.
Ræðan heldur áfram. Nú er komið að henni. Það mátti svosem
búast við því.
– Við erum svo heppin að hafa gamlan félaga meðal okkar í
kvöld sem við höfum fylgst með úr fjarlægð meðan hún lagði
heiminn að fótum sér …
Hún þarf að beita öllum kröftum til að draga fram sviðsbrosið,
ekki stóra sigurbrosið, heldur litla brosið, þakklátt en auðmjúkt.