Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 41
TMM 2008 · 3 41
E n d u r f u n d i r
Hneigir höfuðið örlítið. Þakka ykkur innilega fyrir. Bara að þau
fari nú ekki að biðja hana að syngja.
En Maggi snýr sér aftur að skemmtilegum endurminningum.
Skrýtið, hún man ekki eftir neinu af þeim atvikum sem hann talar
um. Það er ekki eins og þau hafi verið í sama skólanum, hvað þá í
sama bekknum, í níu löng ár.
Hverjar eru hennar minningar? Það er langt síðan hún hefur
rifjað þær upp. Hún man lítið eftir atvikum, fremur tilfinningum,
skynjunum. Hljóð, lykt. Rödd kennarans þylur upp texta stafsetn-
ingaræfingar, þreytuleg rödd og eintóna. Lykt af blautum ull-
arvettlingum sem liggja til þerris á miððstöðvarofninum. Bragðið
af nestisbrauðinu upp úr smjörpappírsumbúðunum, hálfvolgri
mjólkinni. Á meðan les kennarinn framhaldssöguna, sama til-
breytingarlitla röddin. Það er kyrrð og friður inni í skólastofunni,
skrjáf í blöðum, sarg í blýöntum, flugnasuð.
Í leikfimisalnum dynja sprengingarnar á hljóðhimnunni. Hvellt
blístrið í flautunni, bergmál, dynjandi fótatak, hróp og köll. Og
hávaðinn úti á leikvellinum er líka hættulegur, ógnandi. Pústrar
og hrindingar, hæðnishlátur. Hún er stór og sterk, hún getur barið
frá sér. En hún vill vera í friði. Svo hún fer í skjól við girðinguna,
horfir á. Horfir á Halla hlaupa. Heyrir hláturinn.
Nú hljómar hlátur úr þessum sömu munnum, hlátur yfir sak-
lausum bernskubrekum. Við vorum nú dálitlir prakkarar. En
bestu skinn, auðvitað. Enda hefur ræst bærilega úr okkur, ekki
satt? Það er klappað fyrir ræðunni.
– Heyrðu!
Það er Óli. Hann er orðinn talsvert drukkinn.
– Ég er núna loksins að fatta almennilega hver þú ert. Varstu
ekki dáldið feit? Þegar þú varst stelpa? Og með eldrautt hár?
– Jú, svarar hún og sendir honum leiftrandi bros. – Ég var feit.
Og ég var með eldrautt hár. Meira að segja freknur líka. Og ég söng
aldrei.
Nei, söngurinn kom seinna. Gyllti fuglinn í brjósti hennar sem
braust út úr þrönga búrinu sínu. Reyndi fyrst varlega að opna hler-
ann, rjálaði við lásinn og þokaði sér svo ofurhægt út í birtuna og
frelsið. Svo fann hann allt í einu að hann gat breitt úr vængjunum,
fuglinn hennar, fann að hann gat flogið og að allar leiðir voru