Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 43
TMM 2008 · 3 43
Jón Karl Helgason
Grasaferðalok
Titill þessarar greinar er þrískipt nafnorð, samsett úr nöfnum tveggja
verka skáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sögunni „Grasaferð“ og ljóðinu
„Ferðalok“. Orðið er hliðstætt staðarheitinu sem Valgeir Guðjónsson
gerði ódauðlegt með eftirfarandi hendingu í dægurlagatexta sínum
„Reykingar“: „Ég er á skósíðum frakka. Það er fallegt á Stokkseyrar-
bakka.“1 En hvað á þessi titill að þýða? Grasaferðalok? Er verið að boða
samruna tveggja ólíkra bókmenntatexta? Það væri vissulega í takti við
tímann, nú þegar sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum er steypt
svo ört saman að enginn man stundinni lengur hver er hvað og hvað er
hvurs. Um þetta má taka ótalmörg dæmi; hér nægir að minna á að hinar
litríku málningasystur Harpa frá Reykjavík og Sjöfn frá Akureyri gengu
í eina sæng undir nafinu Harpa Sjöfn árið 2001. Þremur árum síðar
hurfu þær reyndar inn í danska fyrirtækið Flügger A/S og hefur fátt
spurst til þeirra síðan.
Samruni annarra systra var á döfinni í skemmtilegri tímaritsgrein
sem Guðmundur Andri Thorsson birti fyrst árið 1990 og hefur nú
nýlega verið endurbirt í ritgerðasafninu Undir Hraundranga: Úrval rit-
gerða um Jónas Hallgrímsson. Höfundur gerir þar þá játningu að frá því
að hann las „Ferðalok“ í fyrsta sinn hafi hann ósjálfrátt tengt ljóðið við
„Grasaferð“. Líkt og drjúgur hluti íslenskra lesenda fyrr og síðar telur
Guðmundur Andri víst að kveikja ljóðsins hafi verið kynni Jónasar af
Þóru Gunnarsdóttur sumarið 1828. Honum þykir þó endursköpun
skáldsins á þessu efni
þessleg að útkoman verði ekki síður ljóð um Hildi Bjarnadóttur, „systurina“ úr
Grasaferð, en um Þóru Gunnarsdóttur. […] Það kann að vera vegna þess að á
báðum stöðum er lýst jurtasýsli stráks og stelpu á fjalli og á báðum stöðum er
mælandinn sá sami, á báðum stöðum er sambandið innilegt og fallegt og fullt
af gagnkvæmum trúnaði.2