Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 46
46 TMM 2008 · 3
J ó n K a r l H e l g a s o n
Þýddu ljóðin tvö minna okkur á að Hildur og frændi hennar hafa
bæði þurft að sjá á eftir sínum nánustu ástvinum. Í upphafi frásagnar
kemur fram að hann hafi misst foreldra sína fjögurra ára gamall og þá
verið í sendur í vist til móðursystur sinnar, móður Hildar, og manns
hennar. Prestsfrúin hafi þó fljótlega fallið frá þannig að í raun er hin
móðurlausa Hildur nánasti eftirlifandi ættingi drengsins þegar sagan
hefst, og sá sem honum þykir vænst um. Öll samskipti þeirra á fjallinu
bera vott um ótta hans við að missa hana. „Svo vænt þykir honum um
hana og svo sárt er að horfast í augu við þá staðreynd að hann verði að
fara frá henni, að því er jafnað við lífshættu í sögulok,“ skrifar Svava
Jakobsdóttir í grein sinni um söguna.11 Það að frændinn hafi sest niður
og hafið ritun sögunnar bendir til þess að aðskilnaðurinn við Hildi sé
orðinn að veruleika, að með sögunni sé hann „hennar að minnast og
harma“.
Það er nú vonandi orðið ljósara hver Grasaferðalokin eru í tilviki
sögumannsins en öðru máli gegnir um Hildi Bjarnadóttur. Hvenær og
hvernig missir frændinn sína heitt elskuðu systur? Hvað verður um
hana í kjölfar grjóthrunsins í fjallinu? Hér er um tvær ólíkar spurningar
að ræða og í raun aðeins hægt að svara þeirri fyrri með hliðsjón af sögu
Jónasar. Í lokasetningum „Grasaferðar“ kemur fram að þegar strák-
urinn sér dularfulla manninn á klettasnösinni fyrir ofan þau Hildi
grípur hann í handlegg hennar og reynir að sannfæra hana um að þetta
geti ekki verið útilegumaður:
„fjallið hérna liggur milli sveita og er ekki, svo ég viti, áfast við jöklana eða
Ódáðahraun. Viltu’ ekki koma, systir góð! við skulum flýta okkur á stað!“
Í þessu bili fór maðurinn aftur í hvarf eins og hann hefði gengið til fjalls.
„Þér er, held ég, óhætt að sleppa,“ sagði systir mín og hermdi eftir mér, „úti-
legumaðurinn þinn er farinn.“ (s. 298)
Þetta eru eiginleg lokaorð sögunnar. Óneitanlega eru þau kaldhæðnis-
leg, eftirhermuröddin sem Hildur notar opinberar endanlega þá „lúmsku
stríðni“ sem Helga Kress hefur greint í ýmsum tilsvörum hennar fram
að þessu.12 Frá sálrænu sjónarmiði er stúlkan að hrinda drengnum frá
sér með þessum orðum. Þau eru í anda kveðjunnar sem ráðskonan Guð-
ríður sendir á eftir drengnum á grasafjallið í upphafi sögunnar: „Ætli
þér veiti af að bera þig sjálfan? […] það situr á þér, pattanum, að þykjast
vilja láta eins og fullorðnir menn!“ (s. 284). Jafnframt endurspegla þau
lokahendingarnar í þeim tveimur ljóðum innan sögunnar sem teljast
frumsamin og hefjast á orðunum „Sáuð þið hana systur mína“ og