Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 64
64 TMM 2008 · 3
Úlfhildur Dagsdóttir
Ljóð og flóð
Ljóðabækur ársins 2007
Ljóðaflóð
Í einu prósaljóðanna í Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson
birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar, iðandi líf
úr engu. Ljóðið heitir „Ljóðaflóð“ og þar er því lýst hvernig ljóðin hlað-
ast upp í „rökkvuðum kjallarakompum“ þangað til þau brjótast fram:
„Þungbúin hafa ljóðin hlaðist upp, tímanum ekki tekist að vinna á þeim.
Í myrkrinu byrja þau að bólgna, tútna út, draga í sig kjark, hallast að
næsta ljóði, fallast í faðma, kallast á við hvert annað.“ Þau „blóðlangar
eitthvert annað“ og loks brjótast byltingarljóðin fram, „láta allt flakka,
fara glaðbeitt um götur og stræti“. „Ljóð stíga eggjandi dans, standa
vörð, strunsa hratt, leggja undir sig myndarleg torg og gróna garða,
hlaupa yfir brýr og bryggjur“. Sum ljóðin finnast uppi á hanabjálka og
eru „svolítið rykfallin og reikul í spori“, önnur eru „skelegg og skor-
inorð, hlakkandi til þess eins að finna sér nýjan félagsskap.“ Ljóðinu er
lýst sem þrýstingi, það er eitthvað sem býr um sig í umhverfi okkar,
rásar um innviði þess þar til því tekst að losna úr viðjum og skapa óreiðu
allt um kring.
Þessi sýn á ljóðið sem lifandi, margbreytilegt, öflugt og rykfallið er
einkar viðeigandi fyrir hina margumtöluðu ,stöðu‘ ljóðsins í dag, jafnvel
fyrir umræðuna sjálfa. Margir hafa stöðugar áhyggjur af ljóðinu, eins og
það sé gömul einmana frænka, sem búi við hátt áhættustig, jafnvel á
jarðskjálftasvæði. Þessar áhyggjur birtast stundum í líki einkennilegra
flokkadrátta þegar ung skáld taka sig til og fordæma ákaft ákveðna teg-
und ljóða sem ummerki alls þess sem er ,að‘ ljóðinu.1 En eins og Aðal-
steinn sýnir framá í „Ljóðaflóði“ þá er ljóðið í ágætismálum, fjöldi
útgefinna ljóðabóka, umræða um ljóð, vinsældir nokkurra bóka og
hógvær en stöðug útlán á bókasöfnum gefa engan veginn til kynna ein-
hverja kreppu.2 Ljóðið er einfaldlega ekki ,meginstraums‘ fyrirbæri í
dag, svona almennt séð, en það þýðir ekki að það sé í útrýmingarhættu.