Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 76
76 TMM 2008 · 3
Ú l f h i l d u r D a g s d ó t t i r
náttúruna, á algerlega nýjan, óvæntan og ánægjulegan hátt. Þessi nátt-
úra er fyndin og lúmsk, hún er í senn heimilisleg og dálítið óhugnanleg,
en aldrei yfirþyrmandi né hástemmd.
iii
Myndin er uppspretta ljóðsins í ljóðabók Árna Ibsen, Á stöku stað með
einnota myndavél. Ljóðin eru stutt og ákaflega myndræn og rekja sig í
stafrófsröð eftir hinum ýmsu stöðum sem höfundur minnist sem
mynda. Þannig er bókin líka einskonar ferðasaga, því lesandanum er
kippt inn í (mjög óreiðukennt) ferðalag um minningar og allan heiminn
og heiminn sem minningu. Dæmi um næstum áþreifanlega stemningu
er í ljóði frá Faró, þar sem „eitthvert stórt skorkvikindi / flýgur á vegg í
hitanum / í Faro og rotast / ég held mig í forsælunni“. Einföld mynd sem
teflir saman manni og skordýri og andstæðum hita og kulda sem hafa
snúist við: hitinn og birtan er svið óreiðunnar meðan öryggið býr í
skugganum. Og þannig teiknast myndirnar upp, finnski smábærinn
Tampere heldur að hann sé sovésk borg á veturna, í Malmö eru göturn-
ar auðar „og veðrið víðs fjarri / fólkið farið út / og jafnvel suður“, og
Moskva er óðum að varpa af sér kommúnismanum tilbúin til „að láta
kapítalismann hlunnfara sig líka“. Í Barcelona er síestan besti tíminn,
þar vakir bara ljóðmælandi „með bók og vínglas / og þessi kakkalakki /
sem skondrar yfir gólfið þarna / dauðans matur“.
Hér er hugmyndin um mynd og ljóð tekin alla leið og tengd hinu
persónulega á áhrifamikinn hátt, en bókin er samin af deyjandi manni
og á baksíðu stendur: „Flest ljóðin eru ort árið 2006 þegar ég vissi að ég
myndi ekki ferðast framar.“
Ljóðið á daginn
Margar eftirtektarverðustu ljóðabóka frá árinu hafa yfir sér einskonar
heildarmynd, hvort sem um er að ræða ljóðsögu, eins og birtist í Blysför-
um Sigurbjargar Þrastardóttur, eða tematískan þráð, eins og í söng
steinasafnarans eftir Sjón. Segja má að í þessum bókum hafi ljóðið
bólgnað og tútnað út, eins og segir í „Ljóðaflóði“. Að mörgu leyti eru
þessi ljóð einnig „lífsreynd ljóð“ og þarmeð afar öguð og fáguð, en þau
geta einnig verið bæði „léttstíg og leikandi“, jafnvel „bullsveitt ljóð sem
blóðlangar eitthvert annað, hljóðandi og sjóðandi“.
Eitt af því sem einkennir ímynd ljóðsins í „Ljóðaflóði“ Aðalsteins
Ásbergs er hversu borgarlegt það er. Það grefur um sig í húsi, háalofti og