Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 79
TMM 2008 · 3 79
L j ó ð o g f l ó ð
hrafnana sem flykkjast til borgarinnar, borgarfólki „á leið í sumarhús“
til mikillar furðu: „Áttu þeir ekki / að vera svo vitrir?“ Í „Útisetu“ skap-
ast samskonar átök og samræða milli fortíðar, nútíðar, lands og borgar
en þar situr ljóðmælandi „við mislæg gatnamót“ á nýjársnótt, og „vænti
fregna“. En af þeim er ekki mikið, því „Allt var árekstralaust / og fór
fram hjá mér / gekk eins og í sögu / sem ég heyrði ekki / enda komst ég
ekki að neinu.“ Þrátt fyrir kíminn tón er undiraldan þung í báðum
þessum ljóðum, ólíkt leikandi léttum stefjum í barnaljóðabókinni
Gælur, fælur og þvælur sem skáldið sendi einnig frá sér, myndskreytta
af Sigrúnu Eldjárn.
Samstarf þeirra systkina, Þórarins og Sigrúnar Eldjárn, hefur leitt til
fjölda vinsælla og fallegra bóka þar sem fléttast saman orð og myndir.
Margar þeirra eru orðnar nútímaklassík og orðaleikir Þórarins hluti af
tungumálinu. Framlag þeirra systkina til myndlýsinga og orðaleikja er
sjálfsagt ómetanlegt, Þórarinn sýnir fram á hversu lifandi og margrætt
leikfang tungumálið getur verið og myndlýsingar Sigrúnar lifa sjálf-
stæðu lífi, auk þess að þáttast saman við texta og orð. Í bókinni leggur
Þórarinn upp í ferðalag um íslenska bragfræði, því ljóðin fá nærri öll
hvert sinn rímnahátt. Viðfangsefnið er allt frá hversdagslegum fyrir-
bærum eins og fiskiflugunni og bóklestri til kynjahluta eins og „Ólík-
indatólsins“ og „Skúffanna í Jóhönnu“. Þórarinn er eitt þekktasta
nútímaskáld Íslendinga sem yrkir undir hefðbundnum bragarháttum
og nokkur ljóðanna í Fjöllin verða að duga eru af því tagi.
Þessar tvær ólíku bækur Þórarins eiga þó ýmislegt sameiginlegt,
kannski helst samspil íhygli og fyndni. Þórarinn og Steinunn tilheyra
enda því sem kallað var á sínum tíma fyndna kynslóðin, en þar komu
fram skáld sem vildu leyfa nýju skáldskaparmáli að streyma fram. Það
er einnig eftirtektarvert að skoða hvernig Steinunn og Þórarinn skapa
heildarmynd í bókum sínum, hvorug bókanna getur talist heildstæð
ljóðsaga, þó er yfir báðum einhverskonar heildstæð sýn sem skapar
skemmtilegar tengingar og samspil milli ljóðanna.
iii
Sigurbjörg Þrastardóttir hefur leikið sér með álíka samspil í ljóðabókum
sínum, hvað greinilegast í Hnattflugi (2000). Blysfarir er svo beinlínis
ljóðsaga sem lýsir ástarsambandi og fíkn. Stúlkan sem segir frá er ást-
fangin af manni sem er háður eiturlyfjum. Eiturlyfin myndhverfir Sigur-
björg í hvítan dreka sem vísar til litar efnisins og margvíslegra áhrifa
þess, en þar spila saman heillun – ævintýri – og ógnartilfinning þess að