Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 88
88 TMM 2008 · 3
A n d r i Fa n n a r O t t ó s s o n o g S t e i n a r Ö r n A t l a s o n
fulltrúar hins algilda lögmáls, þ.e. bannsins við sifjaspelli.13 Þar með
sjáum við að sjúkdómseinkennin eru staðgenglar geldingarinnar og þar
af leiðandi myndhverfing fyrir hlutverk föðurins. En mikilvægt er að
hafa í huga að þegar Lacan talar um hlutverk föðurins og geldinguna þá
á hann ekki endilega við hinn raunverulega föður af holdi og blóði held-
ur táknræna virkni föðurins eða myndhverfingu föðurhlutverksins. Og
því snýst geldingin ekki um brottnám/aflimun raunverulegs líffæris
heldur táknræna vídd mannlegrar tilvistar: inngöngu okkar í heim
tungumálsins. Þetta er í grófum dráttum kenning Lacans um „sintóm-
ið“14 – og þess má geta að Joyce hélt því einmitt fram að föðurhlutverkið
væri skáldskapur.15
Og nú spyrjum við: er þetta ekki einmitt það sem Daníel er að fást
við? Faðir Daníels er misheppnaður og hefur brugðist hlutverki sínu
sem fulltrúi lögmálsins, eins og fyrr sagði, sem sést kannski best á því
að hann reynir stöðugt að höfða til samvisku Daníels með spurningum
á borð við: „Sjáðu hana mömmu þína, hvernig heldur þú að henni líði …
hvernig á hún að geta einbeitt sér að keramikinu í þessu ástandi?“ Er
hann ekki þar með að benda Daníel á að hann megi ekki brjóta lögmál
móður sinnar, að hann megi ekki eyðileggja þrá hennar? Þetta gæti haft
alvarlegar afleiðingar fyrir Daníel og jafnvel leitt til geðrofs, eða eru
sjúkdómseinkenni Daníels ef til vill það sem viðheldur geðheilsu hans?
Það er ekki bara Daníel sem á í vandræðum með föðurinn, því Georg og
Ólafur virðast einnig vera í undarlegu sambandi við feður sína; Georg
ólst alfarið upp hjá móður sinni að því er virðist og hvergi er minnst á
föður hans né foreldra Ólafs, en það vekur athygli þegar Kiddi Casio
sækir Ólaf á bensínstöðina og segir við hann: „Segðu bless við pabba
þinn“, og á þar við Georg. Það er engu líkara en að Georg sé staðgengill
föður Ólafs; þó að Georg kvelji Ólaf og kúgi og sé mjög illa við hann þá
virðist Ólafur ekki geta án hans verið og þorir ekki að neita neinu sem
hann segir eða biður um, jafnvel þó að það þýði að hann þurfi hugs-
anlega að ferðast einn með honum til Svíþjóðar. Og hvað með Georg?
Hann virðist algjörlega undirokaður af móður sinni, hlýðir henni í einu
og öllu og reynir að uppfylla þrá hennar með því að selja sem mest af
speltbrauðinu sem hún bakar. Og það dylst engum að hann á sjálfur í
stökustu vandræðum með að sinna föðurhlutverkinu. Með þetta í huga
má sjá að Georg er afar brothættur persónuleiki, en líklegt er að hið
ímyndaða og táknræna hlutverk sem hann gegnir sem vaktstjóri með
fimm háskólapróf og vitsmunalega yfirburði yfir Hannes Hólmstein sé
ákveðinn fastapunktur eða límið sem viðheldur geðheilsu hans, og haldi
þar með undirliggjandi óleystum kvillum í sálarlífi hans (e.t.v. geðrofi) í