Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Side 89
TMM 2008 · 3 89
N æ t u r va k t i n : Í s l e n s k s á l g r e i n i n g ?
skefjum. Við sjáum hvað gerist þegar honum berast þær fréttir að það
eigi að loka næturvaktinni, hann fer yfir um og er við það að missa vitið.
Það sem hugsanlega heldur honum gangandi er dósasöfnunin og ferðin
til Svíþjóðar, en þegar þangað er komið heldur hann reyndar áfram að
haga sér undarlega.
Ólafur og tungumálið
Við verðum öll fyrir áhrifum af tungumálinu hvort sem okkur líkar
betur eða verr. Tungumálið og félagslegar formgerðir mynda svokallað
táknrænt lögmál sem við neyðumst til að beygja okkur undir. Við erum,
svo vitnað sé til titilsins á einu þekktasta verki Freuds, undir oki sið-
menningar. Sjálfsmynd okkar, tilfinningar, þrár og langanir, sem og
tengsl okkar við aðra, mótast af fyrrnefndu lögmáli og stjórnast af því.
Það er hið táknræna lögmál félags- og málvísindalegra formgerða sem
ákvarðar hvaða eiginleikar okkar birtast og hverjir ekki, og í því felst
einmitt firring mannsins. Við þessari firringu, eða táknrænu geldingu,
bregðumst við á ólíkan hátt. Sumir taka upp sérstakan talanda eða
aðhyllast hreintungustefnu og samsama sig ákveðnum forréttindahóp, á
meðan aðrir sletta og blóta og gera uppreisn gegn hefðbundnu orðfæri
með alls kyns útúrsnúningum og frösum eins og Ólafur Ragnar: sæll, já
fínt, þetta eru engin geimvísindi, guggur, grilla í þér, kjellinn o.s.frv.
Afstaða Ólafs til þessarar táknrænu firringar kemur skýrt fram í
ógleymanlegu atriði þar sem hann tekur á móti plakötum sem hann lét
gera fyrir hljómsveitina Sólina, en á öllum plakötunum stendur Sólinn.
Þegar Daníel bendir Ólafi á þessa villu, að þarna standi skrifað Sólinn
með tveimur n-um, þá spyr Ólafur hvort það breyti einhverju, hvort það
sé nokkur að spá í hvort það séu eitt eða tvö n. Daníel reynir að gera
honum grein fyrir því að það skipti höfuðmáli vegna þess að Sólinn hafi
allt aðra merkingu en Sólin, en Ólafur er tregur til að fallast á það,
hringir jafnvel í Kidda frænda sinn og spyr hvort menn séu nokkuð með
einhverja smámunasemi varðandi nafnið. Hér nægir ekki að halda því
fram að Ólafur sé bara svona lélegur í stafsetningu, sem hann vissulega
er, því mikilvægt er að skoða viðbrögð hans þegar honum er bent á þessa
villu, þessa breytingu á merkingu: honum virðist vera alveg sama. Þetta
lýsir afstöðu Ólafs til tungumálsins – sem er fulltrúi geldingarinnar í
þeim skilningi að það innleiðir skort í líf okkar og missi þar sem það
tjáir aldrei þrár okkar og langanir að fullu. Honum virðist vera sama um
það, hann skilur ekki hvert vandamálið er (með eitt eða tvö n), og það
bendir til þess að hann upplifi engan skort og engan missi. Þar af leið-