Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Side 92
92 TMM 2008 · 3
A n d r i Fa n n a r O t t ó s s o n o g S t e i n a r Ö r n A t l a s o n
Ylfa og kveneðlið
Freud segir í ritgerð sinni um kveneðlið að líffærafræðin komi að engu
gagni þegar við stöndum frammi fyrir spurningunni um karl- og kven-
eðlið. Jacques Lacan var sömu skoðunar, en hann hélt því fram að öll
rannsókn á kveneðlinu yrði að ganga út frá staðreyndinni „Konan er
ekki til.“ Þetta er vissulega ögrandi fullyrðing sem virðist í fyrsta lagi
ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum, því enginn efast um tilvist
kvenna, og í öðru lagi vera rammasta karlremba þar sem mikilvægi
kvenna er sniðgengið. En er þá verið að halda því fram að konur séu
einskis virði í augum karlmannsins? Engan veginn. Það sem Lacan átti
við er að konan er ekki til í þeim skilningi að það er ekki til nein skýr og
algild hugmynd um kveneðlið, þ.e. engin ótvíræð skilgreining á því
hvað það er að vera kona. Stúlka getur vissulega orðið að konu, en hve-
nær og hvernig það gerist vitum við ekki, vegna þess að það er engin
forskrift til að styðjast við; í vitundinni er engin fyrirfram ákveðin lýs-
ing á konunni. Niðurstaðan er sú að það er ekkert endanlegt líffræðilegt
eða félagslegt svar við lykilspurningu stúlkunnar: „Hvað er að vera
kona?“ En hvernig bregst stúlkan þá við þessum tilvistarvanda? Sam-
kvæmt Lacan er ekki óalgengt að stúlkur leiti lausnar á vandanum með
því að samsama sig karlmanni og augnaráði hans.18 Nánar tiltekið reyn-
ir stúlkan að setja sig í fótspor karlmannsins og átta sig á því hvað það
er sem hann þráir, í því augnamiði að finna lausn á vanda sínum. Eflaust
þykir einhverjum þetta undarleg tilgáta, en sé henni gaumur gefinn
komumst við að því að hún er fullkomlega rökrétt.19 Við tökum t.d. eftir
því í Næturvaktinni að Ylfa reynir að setja sig í spor Daníels og þreifar
á þrá hans með því að kanna viðbrögð hans við frásögn hennar af eigin
draumi þar sem þau voru „að gera þú veist“. Hún reynir með öðrum
orðum að komast að því hvað það er sem hann vill. En eftir að Ylfa hefur
sofið hjá Daníel fer hún í fyrsta sinn út úr sjoppunni, sem verður að
teljast táknrænt, til þess að spyrja hann hvort hann vilji ekki koma með
sér í Ikea að velja rúm. Þegar Daníel spyr hana svo hvað hún ætli að fara
að gera fyrst hún er hætt í sjoppunni, þá yppir hún öxlum og segir eitt-
hvað á þessa leið: „Ég veit það ekki. Ég ætla bara að bíða og sjá hvað þú
ferð að gera.“ Það er engu líkara en að Ylfu sé sama um allt. En hún vill
engu að síður ólm flytja inn með Daníel og hefja nýtt líf. Hvers vegna?
Er það vegna þess að hún telur sig hafa fengið svar við lykilspurning-
unni? Er það vegna þess að nú veit hún hvað það er að vera kona og þar
af leiðandi sé tímabært að segja skilið við sjoppuna og hefja nýtt líf?