Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 105
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
TMM 2008 · 3 105
Frá Sigurði Ingólfssyni barst unaðsfullur sonnettusveigur, Dúett, sem lýsir nótt
í lífi elskenda í fjórtán sonnettum. Ólöf Björk Bragadóttir málar litfagrar
myndir við kvæðin og þetta er óvenjufalleg bók, hvar sem á hana er litið.
Gísli Þór Ólafsson sendi frá sér Ég bið að heilsa þér (Lafleur), opinská hvers-
dagsljóð um erfið skilyrði ástarinnar á tímum sms og msn. Ófeigur Sigurðsson
yrkist á við Sigfús Daðason í Provence í endursýningu (Apaflasa); raunar geng-
ur Steinn Steinarr líka ljósum logum um ljóðin. Bókin er heimatilbúin, vélrituð
á erlenda ritvél sem ekki kann íslenska stafi, ljósrituð og heft. Hún verður
rosalega dýrmæt ef Ófeigur verður heimsfrægur.
Sveinn Snorri Sveinsson og Jean Antoine Posocco gáfu í sumar út mynda-
söguna Skuggi Rökkva (Froskur útgáfa) um ógæfusaman útigangsmann sem
breytist í ofurhetju. Bókin er litprentuð og forvitnileg fyrir áhugamenn um
myndasögur.
Af þýddum bókum þarf fyrst að nefna endurútgáfu á sígildri skáldsögu
Johns Steinbeck, Mýs og menn, í rómaðri þýðingu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar
(Veröld). Einar Kárason skrifar inngang. Meðal nýrra bóka má nefna Laxveið-
ar í Jemen, fyrstu skáldsögu Pauls Torday sem Sölvi Björn Sigurðsson þýddi
(MM). Þetta er sérkennileg saga um vellauðugan fursta frá Jemen sem fær á
heilann að laxveiðar geri menn betri. En er hægt að flytja lax út í eyðimörkina
og skapa honum lífvænlegt umhverfi þar? Sagan er sögð frá ýmsum skemmti-
lega ólíkum hliðum og vekur bæði gleði og sorg.
Nýjasta neonbókin, Í þokunni eftir Philippe Claudel sem Guðrún Vilmundar-
dóttir þýðir (Bjartur), gerist á tímum heimsstyrjaldarinnar fyrri í litlu þorpi
skammt frá frönsku víglínunni. Í sögumiðju er morð á tíu ára gamalli telpu og
öll er sagan merkt dauðanum. Það er eins og tortíming alls sem er fagurt og
saklaust verði allsráðandi í nágrenni viðurstyggðar stríðsins. Þá er ekki heldur
elskulegt andrúmsloft í nýjustu skáldsögu Lizu Marklund, Lífstíð, sem Anna R.
Ingólfsdóttir þýddi (Uppheimar). Sú næsta á undan endaði á að sprengju var
kastað á hús söguhetjunnar, Anniku Bengtzon, og nú er hún grunuð um að
hafa sjálf kveikt í því. Aðalmál sögunnar fjallar þó ekki um það heldur morð á
þekktum og vinsælum lögreglumanni sem kona hans er sökuð um. Þetta er
spennandi femíkrimmi eins og aðdáendur Lizu vilja hafa þá.
Talandi um kvennakrimma þá hefur danski fræðimaðurinn Frank Egholm
Andersen skrifað verulega fróðlega og skemmtilega bók um þá bókmenntateg-
und, Den nordiske femikrimi (Bogforlaget Her&Nu, 2008). Þar fjallar hann um
einar þrjátíu norrænar skáldkonur sem hafa skrifað glæpasögur í þessum anda
á undanförnum árum og nefnir auk þeirra nokkrar enskar og amerískar konur
og fáeina karla. Ekki er neinn Íslendingur meðal höfundanna sem hann tekur
fyrir, en Yrsa Sigurðardóttir er á skrá í bókarauka. Hún verður vonandi með
næst.
Loks gaf Hið íslenska bókmenntafélag í sumar út stóra bók um endurmótun
íslenskrar utanríkisstefnu, Uppbrot hugmyndakerfis. Valur Ingimundarson
sagnfræðiprófessor ritstýrir og skrifar inngang en meðal höfunda eru félags-
fræðingar, stjórnmálafræðingar, lögfræðingar, hagfræðingar og mannfræð-