Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 118
118 TMM 2008 · 3
L e i k l i s t
Klukkan var farin að halla í miðnætti þegar síðasta atriði kvöldsins hófst –
algjörlega utan dagskrár. Ungur uppistandari, Anna Svava Knútsdóttir, var
komin úr höfuðstaðnum til að prufukeyra efni sem mun eiga að verða að
leiksýningu í haust, og er full ástæða til að láta sig hlakka til þess. Ég dirfist
ekki að endursegja efniviðinn – það yrði uppnám á öllum kaffistofum landsins
ef ég upplýsti hverskonar sögum fullur salur af Ísfirðingum veinaði af hlátri
yfir. En það var bros á hverju andliti þegar dagskrá kvöldsins lauk og leikhús-
gestir tíndust út í nóttina.
Daginn eftir var dagskráin þétt. Má nefna tvö leikrit að sunnan sem glöddu
unga sem aldna. Eggert Kaaber kom með Eldfærin úr smiðju Stoppleikhópsins,
og ungviðið á Ísafirði kunni svo sannarlega að meta að fá eitthvað við sitt hæfi.
Leikmyndin var mínímalísk en fjölbreytt og leikarinn ljómaði af leikgleði.
Aðventa Gunnars Gunnarssonar í meðförum Péturs Eggerz kom líka ljóm-
andi vel út, eiginlega betur en mann hefði getað órað fyrir. Fjalla-Bensi birtist
ljóslifandi á sviðinu í Edinborgarhúsinu og maður átti hálfpartinn von á að sjá
Eitli bregða fyrir við fætur hans. Þrátt fyrir þrengsli og hita setti hroll að áhorf-
endum meðan Pétur dró upp fannfergi og myrkur óbyggðanna í desember. Í
þessari sýningu lagðist allt á eitt – hljóðheimur, leikmynd, leikgerð og leikur.
Ákaflega vel heppnað.
Dansað á leiklistarhátíðinni
Tvær danssýningar voru í boði á Act Alone þetta árið. Lára Stefánsdóttir er
meðal okkar bestu dansara, og jafnvel versti dans-sauður gat borið kennsl á
afburðatækni í sýningu hennar Jói/Langbrók, sem er sambræðingur á tveimur
verkum. Það er erfitt að fjalla um dansverk þegar maður hefur ekki þekkingu
og þjálfun til þess, en einhvern veginn var það svo að verkið höfðaði frekar til
augans en tilfinninganna. Hugsanlega var þetta vegna samhengisins – á leik-
listarhátíð reynir maður að finna söguna í verkum, en verk Láru féll tæpast
undir skilgreiningu dansleikhúss, það er hefðbundið nútímadansverk. En flott
var það!
Verk Sögu Sigurðardóttur, Blúskonan einleikinn blúsverkur, var mun leik-
hústengdara. Saga tók til máls í verkinu og hægt var að festa hönd á söguþræði.
Bæði dansinn og sagan leiftruðu af kímni, samt mátti greina þungan und-
irstraum. Saga er ákaflega fimur dansari og dró upp margar dásamlegar mynd-
ir á sviðinu sem eiga eftir að sitja í minningunni.
Gleðilegar sendingar utan úr heimi
Erlendu sýningarnar í ár voru þrjár, ein frá Rússlandi, ein frá Tékklandi og ein
frá Búlgaríu, og voru þær allar góð viðbót við hátíðina og er full ástæða til að
fagna gestakomum á borð við þessar. Til boða stóð að sjá sýningarnar í Iðnó í
Reykjavík að hátíðinni lokinni (þó að vísu hafi sú rússneska fallið niður vegna
veikinda), sem er mikið gleðiefni.