Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Side 119
TMM 2008 · 3 119
L e i k l i s t
Tékkneska sýningin, Fragile, frá leikhópnum Krepsko er orðlaus tvíleikur,
innblásinn af sögu Lauru úr leikverki Tennesse Williams, The Glass Menager-
ie. En það var engin þörf á að þekkja söguna, tilfinningarnar og andrúmsloftið
sögðu allt sem áhorfendur þurftu að vita þar sem þeir fylgdust með stúlku
draga upp sinn eigin heim meðal glermunanna sinna þar til óður fíll ruddist
inn í postulínsbúðina. Mögnuð tónlist og stórkostleg lýsing í bland við fínstillt-
an leik Linnea Happonen og Jiří Zeman mynduðu leikhúsupplifun sem gleym-
ist seint. Fragile var valin besta leiksýning Act Alone.
Rússarnir voru tormeltari – sýning Theater Laboratory, Völuspá, var flutt á
rússnesku og þar var þungamiðja sýningarinnar hið talaða orð. Sögð var sagan
af dauða Baldurs og var textinn tekinn úr Völuspá, Baldurs draumum og
Snorra-Eddu. Leikkonan Oxana Svoyskaya var hrífandi, en sviðsetningin var
of þunglamaleg til þess að halda fyllilega áhuga áhorfenda sem skildu illa hvað
var að gerast. Notast var við brúður sem voru skemmtilegar en dugðu ekki til.
Það mun vera hefð á Act Alone að sýna eina sýningu í Félagsheimilinu á
Þingeyri og í ár var það framlag Búlgara, Chick with a trick frá Pro Rodopi Art
Center. Þingeyringar flykktust á sýninguna svo hvert sæti í húsinu var setið, og
haft var á orði að blessunarlega hefði verið kassabílakeppni í bænum um leið
og sýningin stóð yfir, annars hefði þurft að vísa fólki frá! Búlgarska leikkonan
Desislava Mincheva fór á kostum þar sem hún sagði sögu af hænu sem verpti
heldur óvenjulegu eggi og eigraði um milli vina sinna og kunningja í von um
hjálp. Unun var að fylgjast með látbragðinu og notkun leikbrúða var hugvits-
samleg og vakti kátínu.
Búlgarska sýningin var sú síðasta á hátíðinni – að henni lokinni tóku við
tónleikar, tvær myndlistarsýningar og grillveisla. Þeir sem sáu megnið af sýn-
ingunum voru flestir með dofið bros á vörum eftir linnulitla listneyslu í fimm
daga, en menn komast í alveg sérstaka vímu eftir slíka upplifun. Sérstakt
gleðiefni er að geta komist í slíka vímu hérlendis.
Starf Elfars Loga Hannessonar við að byggja upp leiklistarlífið á Vestfjörð-
um verður ekki nógsamlega lofað, og raunar er það hagur okkar allra að hátíð
á borð við Act Alone þrífist einhversstaðar á landinu. Það er engin spurning að
hátíðin á eftir að halda áfram að vaxa og dafna á komandi árum, og hróður
hennar á eftir að berast víðar.
Listræn gæði Act Alone eru kannski enn á mörkum þess að vera nógu
ótvíræð til þess að ég treysti mér til að hvetja menn til að bóka strax sumar-
frísdaga næsta árs á Ísafirði yfir hátíðina (til öryggis vil ég samt nefna að
umræddir hátíðardagar eru 1.–5. júlí), en hiklaust ættu ferðamenn að gera ráð
fyrir stoppi í Skutulsfirðinum meðan á henni stendur, og þeir sem eiga þess
kost að sjá erlendu sýningarnar í Reykjavík hafa enga afsökun fyrir því að sitja
heima.