Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 123
TMM 2008 · 3 123
B ó k m e n n t i r
föðurtúnin vitjuðu hans ekki oftar svo að kunnugt væri, en stundum mátti sjá
hann bifast af kuldahlátri, án nokkurs greinilegs tilefnis, svo sem títt er um
hesta og menn.“ Þetta orðalag segir Þorsteinn lýsa manni í innri útlegð en ekki
manni sem hefur verið blekktur. Mér virðist augljóst í þessu tilviki að báðar
túlkunarleiðirnar séu færar.
Í mínum huga er þetta meira að segja óvenju skýrt dæmi um það hvernig
lesendur skapa ljóðið með höfundinum. Kvæðið er magnað og hefur almennt,
bókmenntalegt gildi. Það gefur Bergljótu tækifæri til að ræða um blekkingar
lífsins og hinn sársaukafulla þroska og Þorsteini færi á því að ræða lífsbarátt-
una og stríð þess einstaklings sem samfélagið reynir að brjóta niður. Hvort
tveggja góð og heimspekileg umræðuefni en fráleitt að annað sé rangt og hitt
rétt. Hvort um sig er einfaldlega framlag lesanda til bókmenntaumræðu.
Röksemdin sem Þorsteinn tilgreinir getur eins og áður er sagt hæglega átt við
hvora niðurstöðuna sem er. Hér minni ég aftur á díalektíkina milli hins ein-
staka og hins almenna. Röksemdirnar eru sóttar í texta ljóðsins en tenging-
arnar í andlegan og félagslegan veruleika okkar.
Til varnar módernismanum
Bók Þorsteins er afar vönduð í öllum frágangi og villur í henni vandfundnar!
Einn spaugilegan misskilning verð ég þó að nefna sem kannski stafar einmitt
af þeirri miklu nákvæmni sem annars einkennir bókina. Í kaflanum um þrjú
torræð ljóð er minnst á óheillakrákur. Í ljóðinu segir: „Hann gat unnið bug á
hinum svívirðilegu óheillakrákum, hann gat krafið þá um hugboð þeirra …“ Í
skýringum segir Þorsteinn: „Hverjir eru ,hinir svívirðilegu óheillakrákar‘“ og
telur að hér sé á ferðinni karlkynsorðið krákur sem sé krákar í fleirtölu. Það er
langsótt skýring. Ólíkt nærtækara er að viðurkenna að margur karlinn hefur
reynst sér og sínum hin mesta óheillakráka og upplagt hjá höfundinum að láta
eins og hann sjái ekki þá truflun sem lesandinn verður fyrir. Það voru ær og
kýr allra módernista að halda lesendum sínum vakandi með því að láta þá hafa
eitthvað smálegt til að hugsa um, enda vissu þeir að skáldskapurinn verður
ekki til að fullnustu fyrr en í huga lesandans. Það breytir svo sem engu þó
óvinir ljóðmælandans í kvæðinu séu kallaðir óheillakrákar, það er bara
óþarfi.
Vissulega hefði Ljóðhús mátt vera vafningaminna rit, en þó að mér finnist
að höfundur standi ekki nógu vel með sjálfum sér í vali sínu á aðferðum og
viðhorfum þá breytir það ekki því að bók Þorsteins Þorsteinssonar um Sigfús
Daðason er mikilvægt framlag til umræðu um íslenskar nútímabókmenntir.
Ljóð Sigfúsar eru rædd ítarlega og þekking Þorsteins á evrópskri menningu og
tungumálum er aðdáunarverð. Ljóðhús minnir okkur líka á að Sigfús Daðason
var merkisberi og hugmyndafræðingur atómskáldanna og lykilmaður í endur-
nýjun íslenskra bókmennta á tuttugustu öld. Það kemur skýrt fram í bók Þor-
steins hve mikill styrkur íslenskri menningu var að þeim erlendu straumum
sem einkenndu ljóð og ritgerðir Sigfúsar Daðasonar.