Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 128
128 TMM 2008 · 3
B ó k m e n n t i r
Heimir Pálsson
Grein um sögu um glæp
Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir: Kalt er annars blóð. – Skáldsaga um glæp. JPV útgáfa
2007.
Endurvinnslustöðvar fornbókmenntanna
Það hefur lengi verið vinsæl iðja íslensk og erlend að skálda nýtt og byggja á
fornum sögnum, sönnum og uppspunnum. Talsverða sértöðu virðist Njála og
persónur hennar hafa haft. Þegar um 1300 eru menn farnir að yrkja vísur inn
í Njálssögu (sbr. ÍF XII, vísnaauka í Viðbæti); það er stiginn dans um Gunnar
og Hallgerði. Hann er ortur „seint á miðöldum“ eins og Matthías Johannessen
orðaði það í Njálu í íslenzkum skáldskap og frábærar samantektir hans (1958)
og síðan Jóns Karls Helgasonar á Vef Darraðar (fylgidiski með Höfundum
Njálu 2001) sýna hvílík gróska hefur verið í endurvinnslu efnis þessarar mið-
aldafrásagnar.
Erlendir menningarstraumar hafa stundum haft veruleg áhrif á miðalda-
áhuga Íslendinga. Þar er hollt að minnast rómantísku vakningarinnar á
Norðurlöndum á nítjándu öld þegar Oehlenschläger, Tegnér, Ibsen og fleiri
sömdu leikverk og ljóð með kveik í Íslendingasögum eða fornaldarsögum og
höfðu síðan áhrif á aðrar þjóðir. Varla er heldur vafi á áhrifum Umberto Eco
þegar lærðir miðaldafræðingar eins og Jónas Kristjánsson1 og Bjarni Guðna-
son2 skrifa skáldsögur um viðfangsefni sín. Og ekki var þar reyndar skort-
urinn á íslenskum fordæmum, hvort heldur var frá Friðriki Brekkan, Gunnari
Gunnarssyni, Jóhanni Sigurjónssyni, Halldóri Laxness og öðrum þeim sem
skrifað höfðu skáldskap og átti að gerast á miðöldum. Er þá ógetið allra smá-
verka, einþáttunga eða „sýninga“ með efni úr fornsögum allt frá Vígi Kjartans
Ólafsonar eftir Júlíönu Jónsdóttur (sem sett var á svið í Hólminum 1879). Á
allra síðustu misserum hefur verið fróðlegt að fylgjast með Thor Vilhjálms-
syni, Einari Kárasyni, Thorvald Steen, Roy Jacobsen3 og mörgum öðrum sem
sótt hafa persónur og minni í fornan sagnaarf.4 Meðal sænskra höfunda sem til
miðalda horfa liggur náttúrlega beint við að geta fyrst Jan Guillou með skáld-
sögur sínar um Arn, sem orðið hafa geysivinsælar og leitt til dýrustu kvik-
myndar sem Svíar hafa gert hingað til.5 Hugmyndin með þessum mikla reyfara
er að skrifa söguna um upphaf ríkisins og margt hefur þar tekist mjög vel,
annað miður eins og gengur í mikilli mjólk. – Á íslenskum heimildum m.a.
byggði Catharina Ingelman-Sundberg í sögunni Mäktig mans kvinna, þar sem
segir frá Ingiríði Ólafsdóttur sænska, sem uppi var á elleftu öld og kannski
ástkona Ólafs helga, en ótvírætt gift Jarisleifi fursta Garðaríkis. Sú lífssaga er,
hvað sem öðru líður, nógu spennandi.
Vandi þeirra höfunda sem hér hefur verið tæpt á liggur einkum í viðfangs-