Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Qupperneq 129
TMM 2008 · 3 129
B ó k m e n n t i r
efninu að gera miðaldir lifandi og ekta. Vill þá oft fara svo að því skár sem
lesandinn þykist þekkja til, þeim mun gagnrýnni verður hann á skáldskapinn.
Þetta reyndi ég á þríleik Jans Guillous, þar sem mér líkaði langbest við þann
hlutann sem gerðist í Suður- og Austurlöndum, hafði út á miklu fleira að setja
þegar til Norðurlanda kom. Svipað varð uppi þegar ég las Morgunþulu í stráum,
að mér þótti suðurgangan með afbrigðum góð, norðurslóðir á Íslandi áttu
torsóttara til lífs.
Giska fróðlegt er dæmið af landnáms-sögum Gunnars Gunnarssonar. Fóst-
bræður og Jörð fengu allgóðar viðtökur í Danmörku og á þýskum markaði en
heldur var þeim tekið fálega á Íslandi og liðu 17 ár frá því hin síðarnefnda kom
á dönsku þangað til hún birtist í íslenskum búningi Sigurðar Einarssonar.
Íslenskum lesara á okkar dögum blöskrar eiginlega sú upphafning, sá pathos
sem bæði stíll og söguefni fá í sögunni.6
Óvenjulega og frumlega leið fór Svava Jakobsdóttir í Gunnlaðar sögu (1987)
þar sem hún lét sögupersónur sínar beinlínis blanda sér í fornbókmenntirnar.
Hefur sú skáldsaga og Skírnisgrein Svövu ári síðar ekki vakið maklegt andsvar
í brjóstum íslenskra miðaldafræðinga, sem skjóta sér greinilega á bak við að
þetta sé nú bara skáldskapur.7
Nýlundan og fornu fræðin
Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir fer býsna frumlega leið í skáldsögunni Kalt er
annars blóð. Hún reynir hvorki að flytja lesandann til miðalda né gera hann að
persónu í miðaldaverki, hvað þá að endurtúlka söguefnið, heldur færir hún
miðaldir til lesandans með því að endurnýta mikilvæg minni og persónur úr
Njáls sögu. Þegar hún bætir síðan við undirtitlinum Skáldsaga um glæp, sem
mér sýnist hafa verið vinsæl eyrnamerking frá tímum Sjöwall og Wahlöö og
tídægru þeirra, kippir hún Njálu inn í bókmenntategund sem venja er að tengja
umfram allt við 20. og 21. öld.
Það sem gerir Kalt er annars blóð að verulega nýstárlegu og hnýsilegu skáld-
verki er þetta vinnulag höfundarins. Eftir skemmtilegt verk Jóns Karls Helga-
sonar, Höfundar Njálu (2001), þarf vissulega engum að koma á óvart þótt enn
bætist við þann lista. En Þórunni tekst að gerast höfundur Njálu á óvæntan og
frumlegan hátt með því að láta ákveðna þætti sögunnar endurtaka sig í samtíð
okkar. Þetta gerir hún án þess að maður hafi á tilfinningunni að verið sé að
nútímavæða Njálu eins og mikill siður er að gera við klassísk leikhússverk, rétt
eins og Ödipús konungur eða Hamlet Danaprins séu ómerkir menn nema þeir
eigi heima á tuttugustu og fyrstu öldinni. Með lagni semur Þórunn sögu sína
þannig að Njála varpi ljósi á nútímann en ekki öfugt.
Beinustu tengslin við Njálu liggja annars vegar í persónum, hins vegar í
atburðum. Persónusafnið er að vísu ekki allt fengið úr Njálu og ekki koma allar
sögupersónur Njálu við hina nýju sögu (sem betur fer), en aðalhetjurnar eiga
greinilegar rætur þar.
Fyrst er að nefna þá hálfbræður, Höskuld og Hrút. Hinn fyrrnefndi fær að