Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Síða 136
136 TMM 2008 · 3
B ó k m e n n t i r
Í þessum kringumstæðum kynnist lesandi þeim Einari Þór og Evu Óskars-
dóttur. Ástæðan fyrir því að þeirra saga verður til er sú að gæslufangi B4, alias
Einar Þór, fer í einangrun sinni að lesa bækur nafna síns, Einars Más, og skrif-
ar honum bréf. Í hugarangist sinni, hrjáður af fráhvarfseinkennum og sam-
viskubiti, fær Einar Þór hugsvölun og ró við að skrifa, og hann verður nokkurs
konar skriffíkill, skrifar og skrifar svo blýantarnir sem fangaverðirnir færa
honum eyðast jafnharðan. Nokkrum árum síðar, þegar Einar Þór er laus úr
fangelsi, hittir hann Einar Má þegar báðir eru til meðferðar á Vogi. Einar Már
fær öll bréfaskipti þeirra Einars Þórs og Evu og þannig verður bókin til. Höf-
undur verður því þriðja persóna bókarinnar. Hann lætur að vísu lítið á sér bera
en stígur þó öðru hverju fram úr bréfaskiptum hinna tveggja og gerir athuga-
semdir frá eigin brjósti.
Hér notfærir Einar Már sér eldgamla aðferð sem kristnir miðaldahöfundar
beittu oft. Nærtækt dæmi er að benda á sjálfan meistara Saxo grammaticus,
sem í Danasögu sinni stígur hvað eftir annað sjálfur út úr frásögninni og segir
við guðhræddan lesara: „Sjá nú hér eitt hörmulegt dæmi um hroka og grimmd
…“ Þetta er ekki auðvelt ef ekki á að enda í hreinni flatneskju og hættan verður
enn meiri þegar ávarpsorð höfundarins eru í ætt við hina margþvældu játn-
ingatuggu alkóhólista og dópista og annarra fíkla. En skáldið Einar Már hefur
þessa umræðu upp á æðra plan. Hann sér hliðstæðu í þeim rimlum sem ein-
angra gæslufangann frá umheiminum og „rimlum hugans“ sem hindra frelsi
fíkilsins sem felur sannleikann um sig og veikleika sinn í endalausri lygi og
sjálfsblekkingu.
Eins og þau Einar Þór og Eva Óskarsdóttir koma til sögunnar eru þau ekki
persónur sem við fyrstu kynni vekja samúð. Fyrstu bréf þeirra eru næsta efnis-
rýr og sundurlaus, skrifuð á umkomulausu máli sem þau skreyta í tíma og
ótíma með flatneskjulegum tilvitnunum í enska og ameríska popptexta. En
þeim vex báðum ásmegin eftir því sem á líður. Í fyrstu hafa þau lítið að segja
hvort öðru nema hvað þau elski hitt heitt og hvað þau eigi bágt, en svo fara þau
að segja sögu sína og við það vex þeim skilningur á eigin persónu og örlögum.
Þau þróast og þroskast sem einstaklingar við að skrifa og skoða í eigin barm.
Ég ætla ekki í þessum fáu orðum að lýsa nánar sögu þeirra Einars Þórs og
Evu. Á einum stað í bókinni segir að saga þeirra sé kraftaverk, – og víst er það
kraftaverk ef djúpt sokknar og drukknandi manneskjur ná saman að synda í
land. Hitt er þó enn meira kraftaverk að skapa svona fallegt manneskjulegt
dókúment úr jafnbrothættum efnivið, sem skilur a.m.k. mig eftir með tárin í
augunum, án þess að vera með samviskubit yfir að vera ekki farinn í meðferð.
Það þarf kraftakarl eins og Einar Má til að gera slíkt.