Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Side 141
TMM 2008 · 3 141
Um r æðu r
Kristín Marja Baldursdóttir
Hvað er í bakpokanum?
Sum orð eru skáldleg, önnur ekki, eins og orðin pólitísk rétthugsun.
En þau eru ekki leiðinleg þessi orð því þau hafa margar merkingar og eru
bæði jákvæð og neikvæð í senn. Jákvæð ef maður ímyndar sér til dæmis að
pólitíkusar hafi ákveðið að hugsa rétt, neikvæð þegar pólitíkusar hafa ákveðið
að láta mann halda að þeir hafi hugsað rétt fyrir mann. Svo verða þau marklaus
ef maður notar gagnrýna hugsun heimspekinnar og spyr hver geti sagt hvað sé
rétt hugsun og hver röng?
En eins og ég segi, þau eru ekkert leiðinleg þessi orð þótt þau séu óskáldleg,
maður getur þrasað um merkingu þeirra, þess vegna held ég að lögfræðingar
hafi búið þau til sér til gamans.
En um páskana frétti ég af atburði sem ég þóttist geta ákveðið að væri pólit-
ísk rétthugsun af því að ég sjálf var sannfærð um að í þessu tilviki hefði pólitík-
us hugsað rétt.
Það var þegar Zapatero, forsætisráðherra Spánar, myndaði nýja ríkisstjórn
og skipaði fleiri konur en karla sem ráðherra, níu á móti átta. Varnarmálaráð-
herrann kominn á steypirinn. Og Zapatero lýsti því yfir að hann mundi halda
áfram sinni félagslegu umbótastefnu og jafnaðarhyggju en með áherslu á jafn-
réttismál og baráttuna fyrir þeim. Stofnaði meira að segja jafnréttisráðuneyti
sem á að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og „allri þessari glæpsamlegu og
óþolandi karlrembu“ eins og hann orðaði það sjálfur. Maður spyr sig bara, hver
er eiginlega mamma hans Zapateros?
Í Noregi hefur svipuð pólitísk rétthugsun ríkt í áratugi, þar hafa konur setið
við völd ekki síður en karlar, en það hefur aldrei farið hátt um það hér, það er
ekki gott ef það spyrst út og svo höfum við ekki lagt það í vana okkar að hrósa
Norðmönnum. Sem eru alltaf á gönguskíðum, alltaf á leiðinni upp í hytta með
fjölskylduna og með þennan bakpoka sinn sem þeir skilja aldrei við sig. Hvað
er eiginlega í þessum bakpoka, hefur maður oft hugsað. Taka þeir hann með
sér í nýju óperuna líka?
En þeir hafa tíma til að fara í óperuna, þeir eru komnir heim til sín fyrir
fjögur og borða kvöldmatinn í síðasta lagi klukkan fimm. Neita að vinna leng-
ur, þykjast þurfa að hugsa um börnin sín. Sem við Íslendingar vitum að er bara
fyrirsláttur. Þetta nennir bara ekki að vinna.