Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Blaðsíða 142
U m r æ ð u r
142 TMM 2008 · 3
Þótt við séum ekkert öfundsjúk út í Norðmenn þannig lagað séð, út af
vinnutímanum og óperunni, þá höfum við nú ekki hingað til lagst svo lágt að
taka þá okkur til fyrirmyndar, síst af öllu hvað bakpokann snertir. Við veljum
Louis Vuitton og Prada.
En kannski má segja að það væri þægilegra fyrir íslenskar konur að vera með
bakpoka, kannski betra fyrir bakið að jafna byrðinni á það, það er nú einu
sinni svo að íslenskar konur vinna lengstan vinnudag allra kvenna í Evrópu,
þær slá líka Evrópumetið þegar barneignir eru annars vegar, svo að vinnudag-
urinn verður oft ansi langur, bakverkir tíðir.
Við kusum fyrsta kvenforseta heims og skömmu síðar var Kvennalistinn
stofnaður. Þjóðir héldu að þær gætu litið til okkar í jafnréttismálum. Tekið
okkur til fyrirmyndar. Þessi litla þjóð í norðri hafði hugsjónir sem hún gæti
miðlað öðrum þjóðum. Við hefðum getað tekið forystu í jafnréttismálum í
heiminum, fest nafn okkar til frambúðar í mannkynssögunni.
En við slepptum því, við höfðum bara í öðru að snúast.
Þetta var samt nokkuð gott framan af á níunda áratugnum, konur bara hress-
ar, ég man það, voru að hasla sér völl á vinnumarkaðinum og læra að skipuleggja
sig. En á tíunda áratugnum kom kynlífsbylgjan með alls konar verkefnum sem
bættust ofan á vinnuna. Tímarit full af leiðbeiningum um það hvernig konur
gætu verið sætar og sexý, góðir skemmtikraftar í svefnherberginu og þess hátt-
ar. Svo datt það að mestu upp fyrir sig þegar barnaníðingar fóru að fjölmenna á
netinu. En þá komu bara önnur verkefni sem bættust ofan á vinnuna, öll blöð
full af greinum um það hvernig konur gætu farið að því að eldast alls ekki, og í
kringum þá markaðssetningu varð auðvitað alveg rosaleg vinna.
Jafnréttið var bara ekki „in“. Við vorum líka að byggja Kringluna og Smára-
lind.
Það sem gerðist var, að vinna kvenna jókst. Þær gerðu þjóðina ríka með því
að vinna tvöfaldan vinnudag á lágum launum eða engum, jafnframt því sem
þær fjölguðu skattgreiðendum samviskusamlega, svo þær höfðu bara aldrei
tíma til að verða þessar sjálfstæðu konur sem aðrar þjóðir héldu að þær væru.
Jafnréttismálin voru jörðuð í Gufuneskirkjugarði. Útförin fór samt aldrei
fram, það hafði enginn tíma til að tala við prestinn.
Hugsjónafólk flutti í kjallarana, materialistar tóku hæðirnar.
Kapphlaupið um best innréttaða heimilið, dýrasta jeppann, flottasta útlitið,
var hafið.
Langur vinnudagur, eða öllu heldur löng viðvera á vinnustað, varð kúltúr. Ef
menn fóru snemma heim höfðu þeir engan metnað, gátu ekki vænst þess að
öðlast frama. Skipti þá engu hvort þeir voru að sinna hinni eiginlegu vinnu eða
prívatmálum.
Það merkilegasta er þó að þótt vinnudagurinn sé einna lengstur á Íslandi eru
afköstin ekki meiri en hjá öðrum Evrópuþjóðum sem eru skemur á vinnustað.
En með langri viðveru á vinnustað höfðu menn kannski líka afsökun fyrir
því að geta ekki sinnt tímafreku og launalausu verkefnunum þar sem börnin
og heimilið voru.