Tímarit Máls og menningar - 01.09.2008, Page 143
U m r æ ð u r
TMM 2008 · 3 143
Þau gildi sem mestu máli skipta fyrir einstaklinginn, gott uppeldi, samvera
með fjölskyldu, tími fyrir hugðarefni, eru að engu höfð í samfélaginu. Stjórn-
völd hafa ekki haft áhuga á þeim gildum. Og stjórnvöld samanstanda að mestu
af körlum.
Íslenskt þjóðfélag er karlmiðað, eins og algengt er í gömlum veiðimanna-
samfélögum. Það þýðir að þeir eru með hærri laun, þeir stjórna flestu, oftast
vitnað í þá, allt merkilegra sem þeir gera og segja.
En, þeir kæmust ekki upp með þetta ef þeir hefðu ekki góðar klappstýrur.
Vegna hlutskiptis síns, aldalangrar kúgunar, eru konur næmar fyrir órétt-
læti og skuggahliðum valdsins. Þess vegna er þeim mikið í mun að öllum líki
vel við þær. Þær forðast að gagnrýna, gætu orðið óvinsælar. Til að vera ekki
hunsaðar, eða missa hlunnindi, er betra að styggja ekki þá sem drottna.
Smjaðra heldur fyrir því sem maður veit að fer vel ofan í kokið á þeim.
Eftir situr eigið lið, fær enga hvatningu, nær ekki að skora mark.
Það sem greinir okkur frá þeim þjóðum sem ég nefndi í upphafi er að þær
hafa beitt pólitískri rétthugsun í þágu jafnréttis, við í þágu efnishyggju. Og það
er eins og þessi pólitíska rétthugsun sem hér hefur ríkt hafi fallið af himni
ofan, það kannast enginn við hana.
En hún hefur skilið eftir sviðna jörð.
Þær ungu konur sem maður bindur vonir við, og ekki að ástæðulausu, sem
ættu að hafa sprintið og kjarkinn til að frelsa heiminn, eru bara of þreyttar.
Byrðarnar hvíla á þeim og þær eiga engan bakpoka. Ef þær koma saman á
kvöldin hafa þær kannski í mesta lagi orku til að ræða um Pampersbleyjur.
Að öðru leyti snýst umræðan hér um peninga, vexti, virkjanir, þegar best
lætur um náttúruna. Sjaldan um hugsjónir sem snerta fólk, börn, hvernig fjöl-
skyldan geti sem best lifað í landi þar sem veðurfar er rysjótt, verðlag of hátt,
þar sem misréttið eykst, þar sem mannlífið er helst fólgið í drykkjulátum í
miðborginni um helgar.
Það eru yfirleitt konur sem skapa atburðarásina, hafa gert það frá tímum Njálu.
Þær beita engum vopnum nema tungunni, geta þess vegna komið ýmsu af stað
einungis með umræðunni.
Konur eru næmar fyrir óréttlæti, eins og ég nefndi. Það eru því helst þær
sem gætu snúið blaðinu við. Þótt ekki væri nema í þágu barna. Þær verða að
þora að fara eigin leiðir, þora að láta í sér heyra, vera sjálfstæðar, gefa skít í það
þótt þær missi vinsældir.
Þær gætu breytt ríkjandi viðhorfum, stytt vinnudaginn, jafnað byrðunum á
bæði kynin, stöðvað þetta tilgangslausa lífsgæðakapphlaup, gert lífið mann-
eskjulegra í þessu landi. Það eru konur sem verða að eiga frumkvæðið, það
hefur sýnt sig að hitt kynið mun seint eiga það.
Við getum vel gert eins og Norðmenn, þótt við göngum ekki útaf heimilinu
eins og Nóra. Í norska bakpokanum er að sjálfsögðu ekkert annað en jafnrétti.
Við eigum engan Zapatero, en við eigum margar sjálfstæðar konur með
einbeittan vilja og það eru þær sem vantar núna klappstýrurnar.