Fréttatíminn - 02.07.2016, Blaðsíða 10
10 | FRÉTTATÍMINN | Laugardagur 2. júlí 2016
Brokkgeng stórþjóð í lægð
Sigursæld franskra landsliða hefur byggt á þremur snillingum:
Just Fontaine, Zinedine Zidane og Michel Platini.
Frakkar hafa unnið mikil afrek á stórmótum á tímabilum
sem kenna má við þrjá snillinga; Fontaine, Platini og Zidane.
Þess á milli hafa þeir fallið niður á plan Englendinga og
jafnvel neðar en það.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
Frakkar eiga ekki viðlíka sögu af stórmótum og Þjóðverjar, Ítalir
og Brasilíumenn. Frakkar sveifluðust lengst af á milli þess að vera
utan allra móta upp í að vera einskonar Hollendingar, bestir í að
vera næst bestir. Þar til að landslið þeirra sprakk út á tímabili sem
kenna má við Zinedine Zidane. Þá vann liðið allt og alla.
Þegar horft er á árangur Frakka í útsláttarkeppni í öllum
heimsmeistara- og Evrópumótum frá stríði er listinn tilkomumik-
ill og allt annar en Englendinga. Frakkar hafa spilað 26 útslátt-
arleiki og unnið ellefu þeirra í venjulegum leiktíma og þrjá til
viðbótar í framlengingu. Sex leikir hafa endað jafnir þrátt fyr-
ir framlengingu og Frakkar hafa unnið þrjá þeirra í vítaspyrn-
ukeppni. Samanlagt hafa þeir því unnið 17 leiki en tapað 9. Þeir
hafa tapað þriðja hverjum leik.
Það eru engar smáþjóðir sem Frakkar hafa unnið. Þeir hafa þrí-
vegis lagt Spán og Brasilíu, tvívegis Ítalíu og Portúgal og einu sinni
Holland, Króatíu, Paragvæ, Nígeríu og Norður-Írland.
En við höfum takmarkaðan áhuga á þessum leikjum. Við vilj-
um vita fyrir hverjum Frakkar hafa tapað. Þeir töpuðu í útslátt-
arkeppni fyrir Brasilíu og Tékkóslóvakíu fyrir margt löngu en á
síðari árum þrívegis fyrir Þjóðverjum og einu sinni fyrir Ítalíu,
Tékklandi, Spáni og Grikklandi.
Sögu Frakka í stórkeppnum má skipta í kafla. Fyrst komust þeir
á fáar keppnir. Þá eignuðust þeir Just Fontaine, fæddan og upp-
alinn í Marokkó, og liðið sem hann var í komst á tvær keppnir,
vann einu sinni en tapaði tvívegis í útsláttarkeppni. Eftir Fontaine
liðu mörg ár áður en Frakkar komust í keppni eða upp úr riðli í
útsláttarkeppni. Það gerðist ekki fyrr en Frakkar eignuðust annan
snilling; hinn ítalskættaða Michel Platini. Platini fór með Frökk-
um á þrjú stórmót, vann þrjá leiki í útsláttarkeppni, gerði tvíveg-
is jafntefli og vann annan í vítaspyrnukeppni en tapaði einum í
venjulegum leiktíma. Lið Platini varð Evrópumeistari á heimavelli
1984.
Á eftir Platini fylgdi þurrð í tíu ár. Þá hófst glæsta tímabil
franskrar knattspyrnu, sem kenna má við hinn alsírskættaða Zi-
dane. Í sex keppnum fór liðið, sem smíðað var í kringum hann, í
fjórtán útsláttarleiki, vann níu, gerði fjórum sinnum jafntefli og
sigraði tvo þeirra í vítaspyrnukeppni en tapaði aðeins einum leik í
venjulegum leiktíma. Þessu fylgdi Evróputitilll, heimsmeistaratit-
ill, úrslitaleikir og undanúrslit. Landsliðið hans Zidane er eitt allra
glæsilegasta landslið allra tíma. Í nýliðinni sögu má aðeins líkja
því við lið Spánar, sem nú lifir hnignunarskeið sitt.
Keppnin í Frakklandi er fimmta keppnin sem Frakkar taka þátt
í eftir Zidane. Tvívegis hafa þeir ekki komist upp úr riðli. Þeir hafa
leikið fjóra útsláttarleiki, tapað fyrir Þýskalandi og Spáni en unnið
Nígeríu og Norður-Írland nú um daginn.
Það franska landslið sem mætir Íslendingum á sunnudaginn býr
því að glæstri sigursögu, en sú saga er gömul og tilheyrir öðrum
en þeim sem eru í liðinu nú. Í riðlunum unnu Frakkar Rúmena og
Albani en gerðu jafntefli við Sviss. Það hefur því ekki enn reynt
mikið á hversu gott liðið er.
Síðast mætti Ísland Frökkum á Stade
de France í október 1999 í mögnuð-
um leik í undankeppni Evrópumóts-
ins, sem fram fór í Hollandi og Belgíu
árið 2000. Þá þurftu Íslendingar stig
úr leiknum til að komast í umspil.
Ísland hafði þá ári fyrr náð
fræknu 1:1 jafntefli við ný-
krýndum heimsmeisturum
Frakka á Laugardalsvelli. Rík-
arður Daðason kom Íslandi
yfir á 32. mínútu með því
að skalla boltann af fingur-
gómum Fabien Barthez
við vítateigslínuna og í
fallegum boga í markið.
Þremur mínútum síð-
ar jafnaði Christophe
Dugarry, leikmaður
Marseille. Og þar við
sat.
Þetta var fyrsti leikur
Frakka eftir að þeir hömpuðu
heimsmeistaratitli og jafntefli gegn
litla Íslandi vakti því mikla athygli og
kallaði á mikið fuss og svei í öllum
sveitum Frakklands.
Á Stade de France skoraði Ríkarð-
ur sjálfsmark snemma leiks og stuttu
síðan bætti Youri Djorkaeff við öðru
marki. Staðan var 2:0 fyrir Frakka í
hálfleik.
En í upphafi þess síðari skor-
aði Eyjólfur Sverrisson glæsi-
mark beint úr aukaspyrnu
og stuttu síðar bætti Brynjar
Björn Gunnarsson öðru við
af miklu harðfylgi. Staðan
var skyndilega orðin 2:2
og íslenskir áhorfendur
trylltust, bæði á vellinum og fyr-
ir framan sjónvarpsskjáinn. Ísland
stóð upp á hárinu á heimsmeisturun-
um, einu besta landsliði allra tíma, á
þjóðarvelli Frakka.
David Trezeguet, einn magnað-
asti ofurvaramaður sögunnar, kom
hins vegar inn á 64. mínútu og skall-
aði boltann í netið eftir hornspyrnu
Zinedine Zidane sjö mínútum síðar.
Leikurinn fór 3:2 fyrir Frakka, sem
urðu efstir í riðlinum, en Íslendingar
náðu ekki að tylla sér fyrir ofan Úkra-
ínu í riðlunum og ávinna sér rétt á
umspilsleik við Slóveníu um sæti á
Evrópumótinu í Hollandi og Belgíu.
Þetta franska landslið var eitt
besta knattspyrnulið sögunnar; varð
heimsmeistari 1998 og Evrópumeist-
ari 2000. Meðal þeirra sem voru í
liðinu voru Thuram, Lizerazu, Blanc,
Djorkaeff, Deschamps, Vieira, Des-
ailly, Wiltord og Trezeguet. Og svo
náttúrlega heilagur Zidane. Þetta
voru ekki aðeins magnaðir einstak-
lingar heldur frábært lið.
Íslenska liðið var líka gott, vann
Rússa á heimavelli og náði jafntefli
við heimsmeistara Frakka á heima-
velli og Úkraínu úti, var, eins og áður
sagði, hársbreidd frá því að komast í
umspil um sæti á sjálfu mótinu. Birk-
ir Kristinsson var í markinu; Auðun
Helgason, Hermann Hreiðarsson,
Lárus Sigurðsson og Pétur Marteins-
son í vörninni; Rúnar Kristinsson,
Brynjar Björn Gunnarsson, Eyjólf-
ur Sverrisson og Þórður Guðjónsson
á miðjunni og Helgi Sigurðsson og
Ríkarður Daðason frammi. Helgi Kol-
viðsson, Heiðar Helguson og Eiður
Smári Guðjohnsen komu inn á.
Þetta var gott íslenskt lið, en án efa
er íslenska liðið í dag bæði betra og
á betri stað andlega. Franska liðið í
dag stenst hins vegar engan saman-
burð við það franska lið sem hljóp
inn á Stade de France fyrir sautján
árum. | gse
David Trezeguet skoraði
sigurmark gegn Íslending-
um á Stade de France í
mögnuðum og merkilega
jöfnum leik Íslands gegn
besta landsliði sem Frakk-
ar hafa átt.
Þjóðarleikvangur Frakka er einu orði sagt ótrúlegt mann-
virki. Völlurinn rís upp úr St. Denis hverfinu norðan við
París eins og nýlent geimskip. Sætin eru víst 81.338 talsins
sem gerir völlinn að þeim sjötta stærsta í Evrópu. Völlurinn
var tekinn í notkun 28. janúar 1998, árið sem Frakkar lyftu
síðast heimsmeistaratitlinum í fótbolta á vellinum.
Leikvöllurinn þykir mjög vel hannaður, ekki síst hvað
varðar aðkomu að honum og hve snöggur hann er að
tæmast eftir leik. Gangar eru t.d. breiðastir
við útganga en þrengstir fjærst þeim,
þannig að mannfjöldinn streym-
ir út á miklum hraða. Hægt er
að draga inn stúkur vallarins
að hluta og þá koma í ljós
hlaupabrautir sem annars eru
huldar þegar fótbolta- og rúgbíleikir fara fram.
Þakið á vellinum er sporöskjulaga og það kostaði 45
milljónir evra eitt og sér á sínum tíma, sem jafngildir 7,3
milljörðum króna. Heildarkostnaður við bygginguna var
tæpir 40 miljarðar króna. Þakið þykir mikið verkfræðiafrek,
það er hangandi og sex hektarar að stærð og vegur lítil 13
þúsund tonn.
Á vellinum eru 172 stúkur fyrir fyrirmenni en allir gestir sjá
vel, ekki síst með hjálp tveggja risaskjáa sem
eru tæplega 200 fermetrar hvor og
geyma tæpa 4 og hálfa miljón af
LED ljósadíóðum. -gt
„HÚH!“
Adidas Beau Jeu. Evrópukeppnin í Frakklandi 2016
Fyrsti boltinn sem íslenska landsliðið sendir á milli sín í lokakeppni stórmóts og stendur því hjartanu
nær. Hann er skilgetið afkvæmi Brazuca boltans sem notaður var í Brasilíu fyrir tveimur árum. Yfirborð
boltans var hins vegar endurhannað en því er ætlað að auka gripið, sem kemur Hannesi okkar vel.
Boltinn er kenndur við „fallega leikinn“ og hefur leikurinn einhvern tímann verið fallegri?
Saga Frakka á stórmótum er brokkgeng,
sveiflast á milli sigursælla liða sem byggð voru
kringum mikla snillinga og lakari liða sem
einkennast af ósamheldni og skipulagsleysi
Stade de France, þjóðar-
leikvangur Frakka, er
ótrúlegt mannvirki.
Stade de France í borg draumanna
Spennuþrunginn
baráttuleikur
Ísland þurfti stig gegn heimsmeisturum Frakka á Stade de
France í undankeppni EM 2000 til að komast í umspil.