Fréttatíminn

Issue

Fréttatíminn - 16.07.2016, Page 14

Fréttatíminn - 16.07.2016, Page 14
14 | FRÉTTATÍMINN | Laugardagur 16. júlí 2016 mörk heldur sýna þakklæti og skilning. „Í dag er meiri fræðsla fyrir börn um þeirra einkastaði sem ekki má snerta. Það er hins vegar eitthvað sem á ekki við um fötluð börn. Þegar kemur að fötl- uðum börnum eiga allir að hafa að- gang að öllu og þá verður til þessi áhætta sem fatlaðir glíma við. Að þeir eigi að líta á líkama sinn og einkalíf sem eitthvað öðruvísi eða minna mikilvægt. Þannig er þjón- ustukerfið upp byggt. Líkaminn er einhverskonar viðfang, þar sem einhver kemur, aðstoðar þig og fer síðan til þess næsta. Það skipt- ir engu máli hvort þér finnist það óþægilegt eða ekki.“ Þarf ekki að útskýra Embla segir fólk oft horfa á eftir sér þegar hún gangi um götur borgar- innar. Það glápi og spyrji persónu- legra spurninga. „Líkami minn er almenningseign. Það virðast all- ir eiga þennan líkama, nema ég sjálf!“ Hún var ung farin að finna fyrir slíkum fordómum í samfé- laginu en þeir fóru eðlilega fyrir brjóstið á henni. Hins vegar hafi henni alltaf verið sagt að best væri að vera jákvæð og útskýra fyrir fólki. „Maður hefur fengið allskon- ar spurningar sem fólk, sem ekki er fatlað, myndi aldrei vera spurt um, eins og hvort ég geti stundað kynlíf. Ég hélt lengi að ég þyrfti að fræða fólk um allt og það væri bara mitt vandamál sem ég þyrfti að glíma við. Sýna skilning og brosa í staðinn. Ef maður kvartaði fékk maður að heyra að maður að ætti að vera kurteis,“ segir Embla. Vandinn sé hins vegar sá að maður missi tilfinningu fyrir því hvað sé of persónulegt og hvað ekki. „Það er mjög stutt síðan ég áttaði mig á því að mér bæri ekki skylda til að útskýra fötlun mína yfir öðrum.“ Jaðarsetning, valdaleysi og kúgun Embla segir rannsóknir og reynslu sýna að fatlað fólk sé jaðarsett á öllum sviðum lífsins. Það hafi minni möguleika til að mennta sig og gera aðra hluti sem það fær þó aðstoð við að gera. Aðstoð- in verði til þess því að valdastað- an sé ójöfn og þegar fólk þurfi að- stoð aukist valdaójafnvægið enn meira. „Hverskyns jaðarsetning hefur áhrif á ofbeldi og því eru fatlaðar konur til að mynda í sér- stakri hættu á að verða fyrir of- beldi. Oftar en ekki heyri ég því fleygt að fatlaðar konur verði fyr- ir meira ofbeldi því þær geti ekki varið sig, eða að fatlaðar konur séu viðkvæmur hópur sem vernda þurfi sérstaklega. Eins er því oft haldið fram að gerendur nýti sér fötlun brotaþola til þess að koma vilja sínum fram. Mikilvægt er að átta sig á því að gerendur nýta sér ekki fötlunina sem slíka heldur nýta þeir sér jaðarsetta stöðu okk- ar. Dómskerfið kýs til að mynda að líta á okkur, fatlaðar konur, sem ótrúverðug vitni. Þetta vita gerend- urnir manna best og notfæra sér óspart. Það væri eflaust lítið varið í að misnota okkur kynferðislega ef á okkur væri hlustað. Þannig eru gerendurnir ekki að nýta sér fötl- un okkar heldur það valdaleysi og kúgun sem við búum við á öllum sviðum. Hvort sem um ræðir innan dómskerfisins eða þjónustukerfis- ins, svo dæmi séu nefnd.“ Menning ofbeldis „Vandinn er þetta stóra sam- hengi; ofbeldismenningin sem við búum við. Þá nefni ég aftur þess- ar skringilegu upplifanir frá því ég var barn. Engum í mínu lífi fannst skrítið að ég hafi gengið á nær- buxunum einum fata fyrir framan fjölda sérfræðinga. Það var enginn sem sagði „Bíddu, vá hvað þetta var skrítið þegar þú fórst til lækn- is.“ Og þegar hlutir sem þessir eru í lagi verður grundvöllurinn fyrir því að vera beittur ofbeldi meiri og auðveldari,“ segir Embla og bæt- ir við að tiltekin ofbeldismenning geti verið vandi af sama meiði og almennt kynferðisofbeldi gagn- vart konum. Konur séu hlutgerðar og ekki sjálfstæðar kynverur „Of- beldi gagnvart fötluðum er ekkert náttúrulögmál. Þetta þarf ekki að vera svona heldur er einfaldlega ákvörðun sem við tökum.“ Birtist alls staðar Hún bætir því við að erfitt geti ver- ið að benda á tiltekin tilfelli eða að- ila þegar um ofbeldi gegn fötluð- um ræðir. Málið sé flóknara. „Oft er ekki endilega hægt að tala um ákveðinn geranda eða tiltekið at- vik. Ofbeldið er alls staðar og birt- ist með ólíkum hætti. Eins og ég lýsti hér áðan og birtist til dæmis í valdi fagfólks og lækna yfir líköm- um fatlaðs fólks. Þvingaðar ófrjó- semisaðgerðir eru annað dæmi um það og hafa stundum verið gerðar án vitundar manneskjunn- ar. Þarna er einhver læknisfræði- leg forræðishyggja sem ræður för: Hugmynd um að við getum ekki ákveðið sjálfar hvað er okkur fyr- ir bestu.“ Einnig geti verið erfitt að átta sig á því hvort farið sé yfir ákveðin mörk í hversdagslegum aðstæðum. „Við ákveðnar ástæður áttar fatlað fólk sig hreinlega ekki að um of- beldi sé að ræða þó það sé kannski þannig. Það hefur líka komið fram; fatlað fólk verið spurt hvort það hafi orðið fyrir ofbeldi og það segi nei. Síðan þegar það er spurt hvort það stjórni því hvenær það fari á klósettið þá segi það nei. Auðvitað getur falist ákveðið ofbeldi í því.“ Eigin reynsla lýsandi Embla segist lifa í stöðugum ótta við ofbeldi sem fötluð kona á Ís- landi og segir eigin reynslu og ótta lýsandi fyrir raunveruleika margs fatlaðs fólks. Þó sé mikil- vægt að átta sig á að hún tilheyri ákveðnum forréttindahópi innan hópsins en fólk með þroskahöml- un búi til að mynda við enn meiri jaðarsetningu og valdaleysi en hún hefur upplifað. „Við tengjum þenn- an raunveruleika sjaldan við háa tíðni ofbeldis gegn fötluðu fólki. Við verðum að skoða hann, þessa menningu, til að geta sett hlutina í samhengi og skilið orsakir henn- ar og afleiðingar. Við þurfum að horfa á málin í víðara samhengi. Málið snýst ekki um mig og mína persónulegu upplifun heldur alla.“ Á allra ábyrgð „Í sameiningu höfum við búið okk- ur til samfélag þar sem ofbeldi, kúg- un og misrétti er talið hversdagslegt og jafnvel eðlilegt fyrir tiltekna hópa. Fólk keppist við að afsaka of- beldið og afgreiða það sem fáfræði. Svo hvetjum við fatlað fólk til að mæta ofbeldinu með umburðar- lyndi og bros á vör. Slík menning er gróðrarstía ofbeldis,“ segir Embla. „Við þurfum öll að taka ábyrgð.“ Þess má geta að Embla mun ganga með Tabúkonum í Druslugöngunni í næstu viku en í tilefni hennar munu þær fjalla sérstaklega um mál sem tengjast líkamsvirðingu, friðhelgi og kynverund fatlaðra kvenna. Segir líkama sinn vera almenningseign frekar en hennar eigin. Mynd | Hari Sett í aðra stöðu strax við fæðingu. Mynd | Hari „Hverskyns jaðarsetning hefur áhrif á ofbeldi og því eru fatlaðar konur til að mynda í sérstakri hættu á að verða fyrir ofbeldi.“

x

Fréttatíminn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.