Fréttatíminn - 16.07.2016, Qupperneq 32
Var komin með ógeð
og ætlaði að hætta
Arna Stefanía náði frábærum árangri á sínu fyrsta stórmóti fullorðinna í frjálsum íþróttum um síðustu helgi.
Henni fannst erfitt að upplifa bakslag eftir að vera talin rísandi stjarna á unglingsárunum og er glöð með að vera
búin að ná sér aftur á strik.
Hamingjusöm Arna er mjög glöð yfir því að vera loksins búin að ná sér almennilega á strik eftir nokkurra ára lægð. Hún segist hafa þrosk-
ast mikið og sé hætt að hugsa um að sér geti gengið illa. Mynd | Hari
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
solrunlilja@amk.is
Það bjuggust ekkert margir við einhverju af mér, enda er ég nýbyrj-uð í þessari grein. Ég var 36. á listanum og það
voru 24 sem komust áfram í und-
anúrslit. Það bjóst því enginn við
því að ég kæmist áfram,“ segir Arna
Stefanía Guðmundsdóttir grinda-
hlaupari sem kom bæði sjálfri sér
og öðrum á óvart með árangri sín-
um á EM í frjálsum sem fór fram
í Hollandi um síðustu helgi. Hún
komst í undanúrslit í 400 metra
grindahlaupi og bætti persónulegt
met um hálfa sekúndu, en þetta var
hennar fyrsta stórmót í flokki full-
orðinna.
Ætlaði að fá tvö hlaup
„Þegar ég kom inn á völlinn þá
ákvað ég bara að njóta þess að vera
þarna. Ég var glöð og var ekkert að
missa mig úr stressi. Ég var ánægð
með að vera komin svona langt og
allt annað var bónus. Svo kom ég
önnur í mark og flaug inn í und-
anúrslit,“ segir Arna glöð í bragði,
en hún endaði í 18. sæti á mótinu.
„Það veitir manni svo mikla ham-
ingju þegar eitthvað gengur eftir
sem maður er búin að vinna lengi
að. Innst inni vissi ég alveg að ég
gæti þetta en fólk í kringum mig
var meira í því að segja mér að gera
bara mitt besta og kannski draga
aðeins úr væntingunum. En ég ætl-
aði mér að fá tvö hlaup.“
Á góða möguleika
Arna æfði áður sjöþraut en meiddist
illa árið 2014 sem varð til þess að
hún endurskoðaði keppnisgreinarn-
ar sínar. „Ég og þjálfarinn minn,
Ragnheiður Ólafsdóttir, ákváðum
að prófa þessa grein í fyrra og það
gekk strax mjög vel. Mér hefur alltaf
þótt skemmtilegra að hlaupa en að
kasta og stökkva. Og þegar maður
er að finna sig vel í einhverri einni
grein þá á maður bara að halda sig
við hana. Ef ég fer aðeins niður
í tíma þá er ég komin á mjög góð-
an stað í heiminum. Ég held ég eigi
góða möguleika á því að verða góð í
þessu,“ segir hún nokkuð ákveðin.
Barnastjarna og bakslag
Strax sem unglingur þótti Arna
mjög efnileg frjálsíþróttakona og
var talin rísandi stjarna í sjöþraut-
inni, en svo kom bakslag sem
var henni erfitt. „Ég var hálfgerð
barnastjarna þegar ég var 15 til 16
ára. Svo kom pása þangað til ég
varð 18 ára og það var mjög erfitt
tímabil. Þetta gerist oft með krakka,
sérstaklega stelpur. Ég var bara að
þroskast, að byrja í menntaskóla
og svona. Var að hugsa svo mik-
ið. Þegar ég var 15, 16 ára þá fór ég
bara á mótin án þess að hugsa. En
ég hef þroskast mikið og er hætt að
hugsa um að mér gangi illa. Ég þarf
samt að hugsa um matinn og svefn-
inn og það kemur allt með auknum
þroska.“
Ekkert gekk upp
Arna var að því komin að hætta á
sínum tíma, þegar ekkert var að
ganga upp hjá henni. „Ég var kom-
in með ógeð. Fannst allt snúast um
þetta án þess að nokkuð gengi. Ég
vissi það þegar ég mætti í hlaup
að ég var ekki að fara að gera góða
hluti, því formið var ekki gott. Ég
var ekki á ná tíma sem ég hafði náð
tveimur árum áður. Gleðin við að
koma til baka er því ótrúlega mik-
il og sterk. Ég byrjaði að koma til
baka í fyrra og þetta er bara æði.
Það er líka gott að finna að maður
getur „performað“ á stórmóti, það
er nefnilega svo auðvelt að „koxa“
þar,“ segir Arna og brosir. Hún er
á blússandi siglingu núna og góður
árangur gefur henni aukinn kraft
og metnað til að standa sig enn bet-
ur. „Ég held líka að það sé mun auð-
veldra að fókusera á eina grein og
ná hámarksárangri,“ bætir hún við.
Stefnir á Tókýó 2020
Markmið Örnu er að komast á
ólympíuleikana í Tókýó árið 2020,
en hvað hún gerir eftir það er
óvíst. Hún verður 21 árs í haust og
á því nóg eftir sem íþróttamaður.
„Ég verð bara 25 ára þegar næstu
ólympíuleikar fara fram, sem þykir
frekar ungt í þessari grein,“ segir
Arna, en sumar konur eru að keppa
langt fram á fertugsaldur.
Arna segir það geta verið töluvert
kostnaðarsamt að taka þátt í mótum
erlendis. Frjálsíþróttasambandið
borgar reyndar kostnaðinn við
stórmót en til að ná árangri verður
íþróttafólk reglulega að sækja minni
mót erlendis, en þann kostnað þarf
að greiða úr eigin vasa. „Stundum
er hægt að fá styrki frá ÍSÍ, en þeir
duga aldrei alveg. Ég er bara heppin
að eiga góða foreldra sem styðja mig
og hafa alltaf gert. Bæði fjárhags-
lega og með því að fylgja mér á mót.
Þau hafa mætt á öll mót frá því ég
var pínulítil og ég held að það hjálpi
mikið andlega að hafa einhvern sem
stendur alltaf 100 prósent við bakið
á manni,“ segir hún einlæg.
Þarf að færa fórnir
Arna lauk stúdentsprófi fyrir ári og
í vetur starfaði hún í grunnskóla og
við að þjálfa litla krakka sem voru
að stíga sín fyrstu skref í frjálsum
íþróttum. Í haust stefnir hún hins
vegar á nám í lögfræði við HR.
„Kærastinn minn er í lögfræði í HÍ
og mér líst svo vel á það sem hann
hefur verið að gera,“ útskýrir Arna
sem er spennt fyrir því að takast á
við nýtt verkefni í haust.
Ljóst er að það verður nóg að gera
hjá henni, enda æfir hún allt upp í
átta, níu sinnum í viku. Sex sinn-
um í viku með þjálfara og svo tekur
hún léttari æfingar sjálf. Það gefst
því ekki mikill tími til tómstunda-
iðkunar og hún getur ekki leyft sér
hvað sem er, en hún á stóran vina-
hóp sem hún reynir að hitta eins og
oft og hún getur.
„Ég get ekki farið á tónleika með
Beyoncé í London, því þá ruglast
æfingarnar mínar. Ég var til dæm-
is með miða á leikinn Ísland – Eng-
land á EM í Frakklandi, en komst
ekki. Ég var fyrst frekar fúl, en líf-
ið mitt snýst bara um að hlaupa
og þetta fer ekki saman. Stundum
hugsa ég samt: „Djöfull er ég klikk-
uð að vera að eltast við einhvern
tíma og hoppa yfir grindur,““ segir
hún kímin. „Ég fer heldur ekki með
vinkonum mínum í verslunarferð
til London, ég hef bara ekki tíma í
það. En það kemur kannski seinna.“
Frekar leiðinlegt par
Kærastinn hennar Örnu æfir hand-
bolta með Val, og saman lifa þau
og hrærast nánast alfarið í heimi
íþróttanna. „Við gerum eiginlega
ekkert annað á kvöldin en að rúlla
okkur, borða hollan mat og fara
snemma að sofa. Við erum frekar
leiðinlegt par, þannig séð,“ segir
Arna og skellir upp úr. „Við förum
aldrei niður í bæ að djamma eða
neitt slíkt og förum eiginlega aldrei
út að borða. Við höfum til dæmis
aldrei farið á Sushi Samba, sem er
eitthvað sem öll pör hafa gert. En
það er markmiðið að gera það þegar
ég á afmæli. Og við höfum bætt okk-
ur í að hitta vini í ís, bjóða í mat og
svona.“
Arna telur að það geti verið erfitt
fyrir íþróttafólk að vera í sam-
bandi með einhverjum sem þekkir
ekki álagið sem fylgir æfingum og
keppni af eigin raun. „Ég held ein-
faldlega að það myndi ekki ganga.
Ég held að fólk átti sig ekki á því
hvað maður getur verið eigingjarn
og sjálfselskur þegar maður er að
reyna að ná árangri. En við hjálp-
um hvort öðru og bætum hvort ann-
að. Við getum talað um það sem við
erum að gera og skiljum hvort ann-
að.“
…viðtal 4 | amk… LAUGARDAGUR 16. JÚLÍ 2016
Ég var hálfgerð barnastjarna
þegar ég var 15 til 16 ára. Svo
kom pása þangað til ég varð 18 ára
og það var mjög erfitt tímabil. Þetta
gerist oft með krakka, sérstaklega
stelpur. Ég var bara að þroskast, að
byrja í menntaskóla og svona.
Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík • Sími: 531 3300 • ritstjorn@amk.is
Útgefandi: Gunnar Smári Egilsson. Blaðamenn: Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, gudrunveiga@amk.is; Kidda Svarfdal, kidda@amk.is og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir,
solrunlilja@amk.is. Framkvæmdastjóri og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson. amk… er gefið út af Morgundegi ehf. og er prentað í 83.000 eintökum í Landsprenti.