SÍBS blaðið - 01.06.2015, Síða 5
SÍBS BLAÐIÐ 2015/2 5
að nota farartæki til að komast leiðar sinnar, því
skipulag margra íbúahverfa er þannig að ekki er
hægt að komast leiðar sinnar á annan hátt nema
á bíl. Það að stunda líkamsrækt og hreyfa sig
er því ekki alltaf svo auðvelt í erilsömu nútíma
þjóðfélagi og það krefst oft á tíðum mikillar
skipulagningar og getur á stundum verið flókin
og umfangsmikil aðgerð.
Vísindalegar staðreyndir
Afleiðingar neikvæðra breytinga á lifnaðarhætti
fólks í hinum vestræna heimi eru skýrar en
talið er að rúmlega þriðjungur íbúa heims nái
ekki ráðlögðu lágmarki daglegrar hreyfingar. Á
Íslandi vantar einnig nokkuð upp á að þessum
lágmörkum sé náð en lágmarkið er hreyfing í 30
mínútur á dag. Íslenskar rannsóknir sýna að um
15 mínútur á dag vantar upp á til að Íslendingar
nái alþjóðlegum ráðleggingum. Árið 2009 var
talið að fimmti hver jarðarbúi hreyfði sig ekki
nægilega mikið. Þrátt fyrir að mikil þekking sé til
staðar um jákvæð áhrif af reglubundinni hreyf-
ingu fer hún minnkandi. Aukið hreyfingarleysi
fólks hefur í för með sér aukna tíðni ofþyngdar
og offitu og á það ekki síst við um börn og ung-
linga, en einnig fullorðna og eldri borgara. Fjöl-
margar erlendar rannsóknir sem og rannsóknir
unnar af vísindamönnum Háskóla Íslands hafa
á undanförnum árum sýnt að líkamleg hreyfing
barna fer minnkandi strax við 6 til 8 ára aldur og
þessi neikvæða þróun heldur síðan áfram fram
eftir öllum aldri ef ekki er spyrnt við fótum.
Hreyfing eldri unglinga og ungs fólks sem er
rétt komið yfir tvítugt er verulegt áhyggjuefni,
en íslenskar rannsóknir sýna að einungis þriðji
hver 18 ára unglingur uppfyllir ráðleggingar um
daglega hreyfingu. Nýleg íslensk langtímarann-
sókn hefur einnig sýnt að bæði líkamlegt þrek
og hreyfing ungmenna yfir átta ára tímabil (frá
15 til 23 ára) minnkaði um allt að 50%. Í þessari
rannsókn kom einnig í ljós að við 23 ára aldur
var hreyfing í raun svo lítil að hana mátti bera
saman við hreyfingu einstaklinga sem voru
komnir hátt á áttræðisaldur. Í þessu samhengi
er einnig mikilvægt að gefa því gaum að hreyfi-
mynstur og þrek kynjanna er ólíkt og er það ekki
tengt neinu ákveðnu aldursskeiði. Karlar hreyfa
sig yfirleitt meira og eru með betra líkamlegt
þrek en konur, en þær stunda yfirleitt hreyfingu
með minni ákefð í meira mæli en karlar.
Langtímarannsóknir sem hafa skoðað þróun
og breytingar á ólíkum heilsufarsþáttum hjá
einstaklingum hafa sýnt mikil tengsl á milli fyrri
lifnaðarhátta fólks og líkunum á mismunandi
heilsufarsvandamálum seinna á lífsleiðinni.
Í rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið
við Háskóla Íslands hefur verið sýnt fram á að
þeir einstaklingar sem strax á unga aldri eru
of þungir eða of feitir, eru í meiri hættu á að
lenda í erfiðleikum með líkamsþyngd og/eða
holdarfar seinna á lífsleiðinni. Sama má segja
um einstaklinga sem hreyfa sig mikið sem börn
og/eða unglingar, þeir einstaklingar eru líklegri
til að stunda reglulega hreyfingu seinna í lífinu.
Nýlegar rannsóknir sýna einnig að það fólk
sem notaði mikinn tíma á unga aldri í að horfa
á sjónvarp eða vera í tölvuleikjum er líklegra til
að nota mikinn tíma í sambærilegi hluti seinna í
lífinu. Í þessu samhengi skiptir einnig umhverfið,
fjölskyldan og vinir máli því þeir einstaklingar
sem eiga foreldra sem eru duglegir að hreyfa sig
eru líklegri til að hreyfa sig en þeir einstaklingar
sem eiga foreldra sem eru kyrrsetufólk. Þessi
lýsing undirstrikar svo ekki verður um villst að
ákveðnir lifnaðarhættir fólks strax á barns aldri
geta haft umtalsverða þýðingu fyrir viðkomandi
einstakling seinna í lífinu. Því er mjög mikilvægt
að einblína á jákvæða heilsuhegðun strax á
fyrstu árum lífsins og viðhalda henni allt lífið
til að fyrirbyggja neikvæða þróun heilsufars. Á
þann hátt eykst heilsulæsi fólks sem þýðir að við
erum meðvitaðri um hvað er hollt og heilsusam-
legt og tökum ákvarðanir út frá þeim forsendum.
Í þessu samhengi er mikilvægt að draga ekki of
sterkar ályktanir út frá einstökum lífsstílsþáttum
og nauðsynlegt er að skoða fleiri heilsufarsþætti
samtímis. Almennt er viðurkennt að neikvæðum
lifnaðarháttum fólks, t.d. hreyfingarleysi, fylgja
ýmsir áhættuþættir og lífsstílssjúkdómar sem
mikilvægt er að skoða í tengslum við aðra þætti
eins og svefnvenjur, félagslega þætti sem og
andlega þætti.
w w w . b r a m m e r . i s
Í rannsókn kom í
ljós að við 23 ára
aldur var hreyfing
í raun svo lítil að
hana mátti bera
saman við hreyfingu
einstaklinga sem
voru komnir hátt á
áttræðisaldur.