SÍBS blaðið - 01.06.2015, Síða 17
SÍBS BLAÐIÐ 2015/2 17
til að geta lifað eðlilegu lífi með
astmanum. Með því að vera í góðri
þjálfun hækkar maður þröskuldinn
fyrir astmaköstin. Ég hef fundið fyrir
því á ákveðnum tímum á ævinni
þegar ég hef slegið slöku við, og
stundum jafnvel ekki gert neitt,
að þá var ég fljótur að finna það í
astmanum.“
Einar segir viðhorf fólks til hreyfingar
hafa breyst mikið á síðustu árum.
„Sérstaklega eftir Hrun. Þá fór fólk
að líta sér nær og fór líka finnst mér
að sjá náttúruna í nýju ljósi, hvernig
hægt væri að njóta hennar jafnvel
daglega. Náttúran er svo stutt frá
okkur, það er svo auðvelt að fara
út og njóta hennar og kostar ekki
mikla peninga. Einn stuttur göngutúr
úti í náttúrunni getur breytt öllum
deginum, gert hann miklu bjartari
og skemmtilegri og fært manni svo
miklu meiri vellíðan. En það sem er
mikilvægt varðandi svona átaks-
verkefni er ekkert endilega að þau
séu góð í sjálfu sér. Þegar maður
breytir um lífsstíl þá er ekki nóg að
gera það fyrir einhvern ákveðinn
tíma, maður þarf að gera það til
frambúðar. Átaksverkefni eru góð til
að koma fólki af stað en ég held að
þessi verkefni, meðal annars af því
þau fara fram á Facebook, þá skiptir
máli að vinir þeirra sem eru að gera
eitthvað sjái myndir af þeim og lesi
um hvað þeir eru að gera og hvernig
þeim líður og þá smitar það út frá
sér.“
Þjóðleiðirnar heilla
Gönguklúbburinn Vesen og vergangur varð
til af því Einar hefur svo gaman af að ganga
gömlu þjóðleiðirnar. „En þegar maður er einn í
slíku er alltaf vesen í sambandi við bíla og þess
háttar, að komast til baka ef maður vill ekki
labba þá leið líka. Mér datt þá í hug að bjóða
vinum mínum á Facebook með mér í þetta. Ég
ætlaði að ganga Leggjarbrjót, á milli Þingvalla
og Hvalfjarðar, og vildi athuga hvort ekki væri
grundvöllur fyrir því að leigja rútu og losna við
þetta vesen. Menn tóku vel í þetta og við gátum
leigt rútu og fórum þessa ferð. Í framhaldinu
fóru menn svo að spyrja hvort við gætum ekki
gert eitthvað meira og hvort við ættum bara ekki
að stofna klúbb. Og ég gerði það bara, stofnaði
gönguklúbb. Næsta ferð var Síldarmannagötur,
úr Hvalfjarðarbotni yfir í Skorradal. Og síðan
koll af kolli, það voru svo margar ferðir sem
mig langaði til að fara og langar til að fara. Og
dæmið gekk alltaf upp, alltaf næg þátttaka svo
hægt væri að leigja rútu. Svo fórum við að fara í
styttri ferðir, upp á fjöll eða meðfram ströndinni,
eða hitt og þetta í nágrenni Reykjavíkur.“
Einar Skúlason með konum sem tóku þátt í áskoruninni 100 km á fjórum vikum.
Áfram í haust
Einar gerir ráð fyrir að samstarf hans og SÍBS
haldi áfram.
„Ég hugsa að við bjóðum aftur í haust upp
á svona áskorun fyrir byrjendur, fólk sem vill
komast af stað. Við viljum gjarnan halda þessu
við, að vera til staðar öðru hvoru til að bjóða
fólki upp á þennan valkost. Svo eru allir vel-
komnir að taka líka þátt í ferðum gönguklúbbs-
ins. Flestar ferðir á vegum hans kosta ekki neitt,
það getur bara hver og einn mætt þegar honum
sýnist. Sumir sem byrja hjá okkur hafa einnig
farið í aðra gönguklúbba, eins og hjá Ferðafélagi
Íslands í prógramminu 52 fjöll, sem snýst um
að ganga á eitt fjall í hverri viku ársins. Þannig
var til dæmis einn sem byrjaði hjá okkur í haust
sem komst varla úr sporunum á jafnsléttu – en
um áramótin síðustu var hann mættur til FÍ í 52
fjöll. Svona sjáum við ótrúlegar breytingar hjá
fólki, fyrir utan félagsskapinn sem er mjög góður
og maður sér oft fólk eignast nýja vini, nýtt og
innihaldsríkt líf.“