Dagblaðið Vísir - DV - 10.03.2017, Blaðsíða 12
Helgarblað 10.–13. mars 201712 Fréttir
Emelía fæddist á
23. viku meðgöngu
n Einn minnsti fyrirburi sem fæðst hefur hér á landi n Alheilbrigð í dag n „Ótrúlega þakklát“
A
llt þetta ferli er búið að vera
svakalegur rússíbani og
það er eiginlega fyrst núna
að maður er komast niður
á jörðina. Ég er ótrúlega
þakklát, sérstaklega þegar ég hugsa
til þess að tölfræðilega séð átti hún
engar líkur á því að lifa,“ segir Guðrún
Björg Brynjólfsdóttir en dóttir hennar
Emelía Rós kom í heiminn á 23. viku
meðgöngu og er því einn minnsti
fyrirburi sem fæðst hefur hér á landi
og lifað af. Hún er í dag alheilbrigð.
Emelía Rós er dóttir Guðrúnar
og Andra Viðars Víglundssonar en
fyrir á Guðrún þau Díönu Sól, 14
ára, Sigurð Eystein, 7 ára, og Elínu
Perlu, 5 ára. „Ég hafði aldrei áður átt
barn fyrir tímann, ég var ein af þeim
konum sem komu á spítalann og
eignuðust barn og voru farnar heim
tveimur tímum seinna. Meðgangan
var hins vegar öðruvísi með Emelíu,
og það blæddi töluvert þessar vikur
sem ég gekk með hana.“
Kom í heiminn í sjúkrabíl
Ekki hefur fengist útskýrt hvers vegna
Guðrún fór óvænt af stað, kvöld í eitt
í upphafi 23. viku meðgöngunnar,
þann 9. september 2015.
„Þetta var bara venjulegt kvöld
heima í Hafnarfirðinum með
börnunum mínum. Svo fékk ég
þessa skelfilegu verki sem versnuðu
stöðugt. Ég hringdi tvisvar upp
á deild og var þá sagt að koma
til þeirra. Ég hringdi hins vegar
í þriðja skiptið stuttu seinna og
kvaðst hreinlega ekki geta keyrt fyrir
verkjum og yrði því að fá sjúkrabíl.
Þá var gripið til þess ráðs að hringja
í heimafæðingaljósmóður, og það
vildi svo til að hún bjó við hliðina á
mér.“
Emelía Rós kom í heiminn á
fimmta tímanum um nóttina – í
sjúkrabíl sem lagt var fyrir utan
heimili fjölskyldunnar. Í fyrstu benti
allt til að hún myndi ekki lifa af, enda
ekki viðeigandi búnaður til staðar í
bílnum til að bjarga lífi hennar. „Það
var auðvitað ekki hægt að gefa henni
súrefni af því að öndunargríman
var alltof stór. Björgunarbúnaður-
inn í sjúkrabílum gerir ekki ráð fyr-
ir að það fæðist barn á 23. viku. Ég
hélt á henni og bað fyrir henni, og
sömuleiðis hjúkrunarfræðingurinn
sem tók á móti henni. Það var það
eina sem var hægt.“
Á vökudeild Landspítalans mat
vakthafandi læknir það svo að Em-
elía ætti nógu miklar lífslíkur til þess
að grípa skyldi til aðgerða en Guðrún
telur að þar hafi einnig haft áhrif að
óvart hafði verið ritað í sjúkraskýrsl-
una að hún væri gengin 24 vikur en
ekki 23. Hafa þurfti hraðar hendur
við að gefa Emelíu súrefni og koma
henni fyrir í hitakassa. Því næst tók
við hefðbundið ferli á vökudeildinni.
„Hún var skírð mjög fljótt af því
að ég vildi að hún myndi ná að fá
nafnið sitt. Svo var bara tekinn einn
dagur í einu. Ég bað vin minn, sem
er prestur, að koma og biðja með
mér. Maður beið bara og vonaði,
enda lítið annað hægt. En svo fór
hún að styrkjast,“ segir Guðrún. Þær
mæðgur dvöldu næstu vikur á vöku-
deildinni. Þann 7. janúar var síðan
komið að heimkomu, en það var degi
eftir að Emelía hefði átt að fæðast eft-
ir fulla meðgöngu.
Emelía hefur síðan þá verið undir
ströngu eftirliti á Barnaspítalanum.
„Hún er með teymi í kringum sig og
hefur eins og aðrir fyrirburar þurft að
gangast undir alls kyns þroskapróf
og hitt fjöldann allan af sérfræðing-
um, augnlækni, eyrnalækni, hjarta-
lækni, sjúkraþjálfara og talmeina-
fræðing,“ segir Guðrún og bætir við að
þótt ótrúleg megi virðast hafi öll próf-
in komið eðlilega út. Emelía stendur
því fyllilega jafnfætis jafnöldrum sín-
um í bæði andlegum og líkamlegum
þroska.
Margar spurningar sem vakna
DV greindi í síðustu viku frá
breytingatillögum starfshóps vel-
ferðarráðuneytisins hvað varðar
gildandi lög um fóstureyðingar en
meðal annars er þar lagt til að fóstur-
eyðing verði heimil að ósk konu fram
að lokum 22. viku þungunar eða þar
til fóstur telst hafa náð lífvænlegum
þroska. Guðrún kveðst vissulega
vera hugsi yfir þessum breytingum,
eftir að hafa eignast barn sem kom
í heiminn aðeins nokkrum dögum
eftir umrædd tímamörk.
„Að sjálfsögðu er fóstureyðing
val hvers og eins, og aðstæður fólks
eru mismunandi. Og skiljanlega eru
ýmsar siðferðislegar spurningar sem
vakna, og endalaust er hægt að deila
um, eins og hvenær fóstur teljist vera
barn eða hvort líf kvikni við getnað.
Þess vegna vil ég gjarnan að fólk sjái
myndirnar af henni. Ég held að það sé
allt í lagi að fólk sé upplýst um það að
barn sem fæðist á 23. viku lítur svona
út og á raunverulega möguleika á að
lifa. Ef Emelía hefði fæðst sólarhring
áður hefði hún fæðst á 22. viku. Þess
vegna sló það mig svolítið að heyra af
þessum breytingum.“
Guðrún segir persónuleika og
skapgerð dótturinnar augljóslega
bera þess merki að hún háði baráttu
upp á líf og dauða á fyrstu vikum
ævinnar. „Hún er rosalega ákveðin,
og veit alveg hvað hún vill. Þetta verð-
ur krefjandi þegar hún er orðin eldri!
Hún er algjör gleðigjafi og bara yndis-
leg í alla staði. Þetta er svo mikil gjöf,
að hún þurfi ekki lifa við skerðingar
og eigi eftir að eiga jafn gott líf og allir
aðrir. Framtíðin er björt. Við duttum
einfaldlega í lukkupottinn með hana,
það er ekki flóknara en það.“ n
Fimmtán prósenta líkur
Á Íslandi fæðast árlega um sex prósent barna
áður en 37 vikna meðgöngu er náð. Þetta kemur
fram á vefsíðu Félags fyrirburaforeldra. Um er að
ræða svipað hlutfall og annars staðar á Norður-
löndum og í Evrópu. Flestir fyrirburar koma í heim-
inn eftir 34 vikur eða síðar. Fimm prósent fyrirbura
eru fædd eftir minna en 28 vikna meðgöngu.
Samantekt sem gerð var árið 2008 um niður-
stöður margra rannsókna sýndi að börn fædd fyrir
23 vikna meðgöngu áttu sér nær enga lífsvon.
Þau sem fæddust eftir 23 vikur höfðu 15 prósenta
lífslíkur, eftir 24 vikur 55 prósenta og eftir 25 vikur
79 prósenta lífslíkur. Lífslíkur fyrirbura hafa farið
stöðugt batnandi undanfarin ár, sérstaklega
barna sem fæðast eftir um 23–25 vikur.
Auður Ösp Guðmundsdóttir
audur@dv.is
Óvænt Ekki er vitað hvað varð til þess
að Guðrún fór af stað í september 2015.
Hraust
Emelía stendur jafnöldrum sínum jafnfætis.
M
y
n
d
G
u
n
n
A
r
L
ei
fu
r
JÓ
n
A
ss
o
n