Dagblaðið Vísir - DV - 21.04.2017, Blaðsíða 18
18 Helgarblað 21.–24. apríl 2017fréttir - erlent
Svona náði borgin betri
tökum á offituvandanum
n Yfirvöld í Amsterdam sögðu offitunni stríð á hendur n Eftirtektarverður árangur náðist
Y
firvöld í Amsterdam,
höfuð borg Hollands,
ákváðu fyrir nokkrum
árum að segja offitu
meðal íbúa stríð á hendur.
Rannsóknir höfðu leitt í ljós að
íbúar Amsterdam voru þyngri en
íbúar annarra borga í landinu og
fimmtungur barna glímdi við offitu
eða ofþyngd. Með samstilltu átaki
hefur þó náðst eftirtektarverður
árangur í þessari baráttu eins og
breska blaðið The Guardian fjallaði
um á dögunum.
Bestur árangur meðal þeirra
efnaminnstu
Ráðist var í átakið fyrir tilstilli Erics
van der Burg, aðstoðarborgarstjóra
Amsterdam og æðsta embættis-
manns heilbrigðismála í borginni,
og annarra stjórnmálamanna.
Átakið hefur skilað því að milli ár-
anna 2012 og 2015 hefur of þungum
eða of feitum börnum fækkað um
12 prósent. Og það sem meira er þá
hefur mestur árangur náðst meðal
þeirra efnaminnstu, hóps sem
alla jafna er erfitt að ná til. Þetta á
til dæmis við um íbúa í hverfum á
borð við Bijlmer í suðausturhluta
borgarinnar.
Vatn eða mjólk, ekki djús
Wilbert Sawat er íþróttakennari
við De Achtsprong-barnaskól-
ann í Bijlmer. Skólinn er umlukinn
þéttri byggð lítilla íbúða sem reist-
ar voru á sjöunda áratug síðustu
aldar. Markmiðið var að íbúar not-
uðu hjól enda voru lagðir hjólreiða-
stígar um allt hverfið. Árið 1975,
þegar hollenska nýlendan Súrínam
öðlaðist sjálfstæði, fluttust margir
frá Súrínam og settust að í þessum
ódýru íbúðum í Bijlmer. Árið 2007
var staðan sú að nemendur í De
Achtsprong-barnaskólanum voru
í hópi þeirra feitustu í Hollandi.
Ákveðið var að skólinn yrði einn
af miðpunktum átaksins og hefur
árangurinn ekki látið á sér standa.
Börn eru vigtuð á hverju ári, fylgst
er með mataræði þeirra og lögð er
áhersla á kennslu í næringarfræði.
Þá gilda ákveðnar reglur um hvaða
má borða í skólanum.
„Öll börn verða að koma annað-
hvort með vatn eða mjólk með sér
í skólann. Ekki ávaxtasafa. Margir
foreldrar voru ósáttir við þetta til
að byrja með,“ segir Sawat og bætir
við að margir foreldrar hafi talið
ávaxtasafa hollan kost fyrir börn-
in. Foreldrar fengu fræðslu um
sykurmagnið sem getur leynst í
slíkum drykkjum. „Ég sagði þeim
að við værum að gera þeim greiða.
Þau gætu fengið vatn í skólanum
en djús heima. Núna mótmælir
þessu enginn.“ Þetta eru ekki einu
breytingarnar. Í hvert skipti sem
barn átti afmæli mátti það koma
með góðgæti með sér í skólann sem
samnemendur gátu notið. „Þetta
var orðið að eins konar keppni. Ef
eitt barn kom með bollakökur kom
það næsta með bollakökur og djús
og það næsta með bollakökur, djús
og leikföng,“ segir Sawat og bætir
við að í dag séu hollari valkostir í
boði og börn megi taka með sér
ávexti eða grænmeti til að njóta í
skólanum við slík tækifæri.
Ekki McDonald's nema í fylgd
með fullorðnum
Svo virðist vera sem allir í nágrenni
við skólann taki þátt í átakinu, eða
lífsstílsbreytingunni. Þannig setti
nærliggjandi McDonald‘s-veitinga-
staður þær reglur að börn megi ekki
kaupa neitt nema epli inni á staðn-
um nema þau séu í fylgd með for-
eldri eða forráðamanni. Þá nýtur
skólinn góðs af styrk til kaupa á
ávöxtum og grænmeti sem börnin
fá þrjá daga vikunnar, gulrótum og
radísum þar á meðal.
Ástæða þess að einblínt var á
börnin í átakinu í Amsterdam er sú
að ráðast þarf að rótum vandans –
auðveldara er að taka slaginn áður
en í óefni er komið. Í umfjöllun
The Guardian kom fram að um tvö
þúsund börn í Amsterdam glíma
við sjúklega offitu. Dana Bijvoet,
hjúkrunarfræðingur og fjölskyldu-
ráðgjafi, starfar í gagnfræðaskóla í
borginni og segist sjálf hafa kom-
ið að erfiðum málum. Nefndi hún
dæmi um 14 ára stúlku sem glímdi
við lifrarskemmdir sem rekja mátti
til offitu. Stúlkan þjáðist af þung-
lyndi og lágu sjálfsmati meðal
annars.
Læra að elda hollan mat
En það er víðar en í Bijlmer sem
barist er af fullum þunga gegn
offitu. Í austurhluta borgarinnar
kemur hópur fólks, börn og full-
orðnir, saman í félagsmiðstöð og
lærir að elda hollan mat. Amira
El Ashkar, sem er frá Egyptalandi,
stendur fyrir námskeiðinu og segir
hún að markmiðið sé að sýna fólki
að auðvelt er að elda hollan mat.
„Fólk vill almennt séð elda hollan
mat – það kann það bara ekki,“ seg-
ir hún.
Eins og að framan greinir var
ráðist í átakið, meðal annars fyrir
tilstilli Van der Burg sem tilheyrir
hægri flokknum VVD. Hann ólst
sjálfur upp í Bijlmer og hefur skorið
upp herör gegn offituvandanum en
þó án þess að grípa til of róttækra
aðgerða. Amsterdam verður einn
af miðpunktum Evrópumótsins í
körfubolta sem fram fer í sumar
en skipuleggjendur mótsins þurftu
þó að lúta ákveðnum skilyrðum til
að mótið gæti farið fram í borginni.
„Við sögðum við þá að þeir mættu
ekki hafa Monster-orkudrykkja-
framleiðandann eða Burger King
sem bakhjarla keppninnar,“ segir
hann við The Guardian. Það sama
er uppi á teningnum varðandi
aðra íþróttaviðburði í borginni, til
dæmis Evrópumótið í íshokkí og
heimsmeistaramótið á listskautum.
Þá standa yfir viðræður við forsvars-
menn veitingahúsa í borginni um
að bjóða upp á hollari mat og einnig
er vilji til þess að banna gosdrykkja-
auglýsingar á íþróttaleikvöngum í
eigu borgarinnar.
Svefninn mikilvægur
Van der Burg segir að eitt eigi til að
gleymast í allri þessari umræðu og
það er mikilvægi þess að fá góðan
nætursvefn. „Það virðast ekki nógu
margir gera sér grein fyrir því en
það er mjög mikilvægt að fá nægan
svefn.“ Karen den Herton, einn af
forsvarsmönnum verkefnisins í
Amsterdam, segir við The Guardian
að meðal þess sem lögð er áhersla á
sé að fræða foreldra um mikilvægi
þess að börn fái nægan svefn.
Í grein The Guardian var rætt
við Corinnu Hawkes, prófessor við
City University í London, sem segist
vera hrifin af hollensku aðferðinni í
baráttunni gegn offitu. „Þau ákváðu
að fara aðra leið en að kynna til
sögunnar sykurskatt – þau fóru
þá leið að leggja áherslu á að fólk
kæmist í betri tengsl við umhverfi
sitt. Þau ræddu við foreldra og
færðu hlutina þannig í betra horf.
Við þurfum að skilja hvers vegna
fólk tekur þær ákvarðanir sem það
tekur og bregðast við í samræmi við
það,“ segir hún. n
Þetta eru
borgaryfir-
völd að gera
Nokkur dæmi:
n Banna ávaxtasafa í grunnskólum og
koma upp vatnsbrunnum í borginni.
n Skipuleggja matreiðslunámskeið þar
sem áhersla er lögð á hollan en góðan mat.
n Neita samstarfi eða styrktarsamning-
um við orkudrykkjaframleiðendur eða
skyndibitafyrirtæki.
n Hvetja foreldra til að láta börn sín
hjóla eða ganga.
n Hvetja fjölskyldur til að borða kvöld-
matinn saman.
n Leggja áherslu á mikilvægi fyrstu
þúsund dagana í lífi barna. Mæðrum
og óléttum konum veitt ráðgjöf um
næringu.
n Niðurgreiða kostnað við íþrótta-
iðkun barna sem koma frá efnaminni
heimilum.
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
Eric van der Burg Hafði veg og vanda af verkefninu.
„Það virðast ekki
nógu margir gera
sér grein fyrir því en það
er mjög mikilvægt að fá
nægan svefn.
Ofþyngd Borgaryfirvöld í
Amsterdam hafa náð góðum
árangri í baráttunni gegn
ofþyngd og offitu.