Fregnir - 01.10.2009, Page 10
FREGNIR. Fréttabréf Upplýsingar - Félag bókasafns- og upplýsingafræða
34. árg. - 2. tbl. 2009 10
Brynhildur Þórarinsdóttir starfar sem rithöfundur og háskólakennari. Hún er með MA-próf í íslenskum
bókmenntum og er lektor við kennaraskor Háskólans á Akureyri. Hún hefur hlotið margar viðurkenningar
fyrir ritstörf sín, meðal annars Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Leyndardóm ljóssins.
Í upphafi erindis síns, „Lestrarhestamót(un) – gæðingaskeið, slaktaumatölt og fleiri lestraríþróttir“
sagði Brynhildur að það væri miður að lestur sé ekki talinn gild tómstund í samfélaginu.
Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið (og sem Brynhildur vitnaði í) kemur í ljós að lestraráhugi
íslenskra barna fer síminnkandi. Það þurfi að ala krakka upp í að lesa. Ekki sé hægt að byrja of
snemma að lesa fyrir börnin. Of seint sé að byrja bókmenntauppeldi þegar börn hefja skólagöngu.
Snemma beygist krókurinn. Lestur fyrir lítil börn hafi áhrif á lestraráhuga þeirra síðar meir.
Brynhildur vitnaði mikið í danskar rannsóknir á lestri barna og til þeirra aðgerða sem gripið var til.
Í ljós kom að viðhorf dönsku lestrarhestanna og foreldra þeirra var mjög jákvætt í garð bóka, þau
höfðu sterkar skoðanir á bókum og voru sjálfstæð í vali sínu á þeim. Niðurstöður þessara rannsókna
benda til að lestrarhestar verði til í samspili þriggja þátta, heimila, stofnana og einstaklinga. Viðhorf
allra þarf að vera jákvætt. Bera þarf virðingu fyrir lestri og bókum. Hinir fullorðnu verða að sýna
börnunum virðingu og síðast en ekki síst þá verða börnin að hafa fullorðnar fyrirmyndir í lestri.
Brynhildur stakk upp á því að „tamningamann“ væri hægt að kalla þann sem leiðir börn áfram í lestri.
Hann þyrfti að vera gæddur ýmsum eiginleikum. Svo sem þekkingu á sögu barnabóka, vinsælum
barnabókahöfundum, reynsluheimi og áhugasviði barnanna. Hann þyrfti enn fremur að geta tekið þátt
í umræðum um það sem börnin eru að lesa og geta skapað jákvætt og uppbyggjandi lestrarumhverfi.
Að síðustu ætti hann að hafa skilning á mikilvægi barnabóka fyrir þroska barnanna, sjálfsmynd þeirra,
nám, lestrarfærni og almenna þekkingu.
Áhugavert er að velta því fyrir sér hvernig foreldrar forgangsraða tímanum með börnunum og hversu
lengi þeir lesa fyrir börnin. Oft sé hætt að lesa fyrir börnin um leið og þau verða fær um að stauta sjálf.
Foreldrar ættu einnig að velta því fyrir sér hversu oft, eða sjaldan, þeir lesi svo börnin sjái.
Hver eru svo skilaboð samfélagsins? Stöndum við í biðröð eftir barnabókum? Standa fjölmiðlar
á öndinni yfir barnabókum? Er Lýðheilsustöð með lestur á dagskrá? Eða er lestur einfaldlega
afgangsstærð? Margt virðist benda til þess að íslensk börn lesi þegar ekkert „betra“ býðst, ekkert
er í sjónvarpinu, þegar vinirnir eru ekki heima, þegar þau eru veik eða þegar skólinn skyldar þau til
þess.
Að lokum kom Brynhildur með ýmsar hugmyndir til þess að snúa á þessa lestrarþróun. Það þurfi
samfélagslegt átak, lestur ætti að vera tekinn gildur sem alvöru tómstund og að æskilegt væri að nálgast
lestur sem viðurkennda íþrótt. Börn þurfi á sýnilegum fyrirmyndum að halda í lestri. Barnabækur eigi
að eiga greiða leið inn í skólakerfið. Kennarar og skólasafnsfræðingar þurfi að eiga kost á menntun og
endurmenntun í barnabókmenntum. Og síðast en ekki síst, þá þurfi að virkja þrenninguna: „heimili
– (leik)skóli – bókasöfn“ til samstarfs.
Að síðustu er vakin athygli á því að hægt er að nálgast fyrirlestrana á heimasíðu Gerðubergs, á
slóðinni: http://www.gerduberg.is/default.asp?cat_id=590
Linda Rós Arnarsdóttir og Ingibjörg Óskarsdóttir
Bókasafni Hafnarfjarðar tóku saman