Morgunblaðið - 03.06.2017, Síða 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. JÚNÍ 2017
Umfjöllun um skólamál á Íslandi hefur verið mér hugleikin.Allir þekkja til skóla og margir hafa stór orð um hvernigskólakerfið eigi að vera. Tískuorð í þeirri umræðu síðustuár hefur verið brottfall.
Mælikvarðinn á brottfall er mjög á reiki og skilgreining hugtaksins
líka. Það er ekki til alþjóðleg skilgreining á brottfalli úr námi en
OECD miðar við að fólk á aldrinum 20-24 ára sem ekki er í námi og
hefur einungis lokið grunnskóla sé fallið brott úr skólakerfinu. Í
Bandaríkjunum tengist skilgreining brottfalls ekki ákveðnum aldri
heldur hvort viðkomandi hafi lokið framhaldsskóla eða sambærilegu
námi. Í skýrslum frá menntamálaráðuneytinu er oftar notað hugtakið
brotthvarf og taldir þeir nemendur sem hætta í skóla eftir að önn
hefst.
Á haustönn 2014 hættu 790 nemendur? Stærsti hópurinn, 17%, fór
að vinna, 15% ákváðu að fara
í annan skóla og 9% prósent
nemenda nefndu tilgangs-
leysi eða námsleiða. Stór
hópur, 20% af þessum 709
krökkum, hættu vegna and-
legra eða líkamlegra veik-
inda. Það voru um 160 nem-
endur þessa einu önn sem voru veikir! Ýmsar aðrar ástæður voru hjá
39% nemenda. Þegar talað er um brottfall og eða brotthvarf þá er það
ávallt neikvætt fyrir einstaklinginn og samfélagið. Þessi hópur hér að
ofan hætti af ýmsum ástæðum og sumt virðist hafa verið harla skyn-
samlegt val.
Undanfarin ár hefur margoft verið sagt að skólakerfinu þurfi að
breyta vegna brottfalls nemenda. Skólunum þarf að breyta vegna
þeirra sem ekki eru þar. Er svo gott eftirlit með einstaklingum í okkar
samfélagi að við getum sagt til um hve margir eru hættir í skóla, og þá
hvers vegna, og hverjir eru tímabundið utan skóla? Hvernig er hægt
að skrá námsframvindu ungs fólks sem fer í atvinnumennsku í íþrótt-
um, listamenn, ekki síst tónlistarmenn, sem velja að einbeita sér að list
sinni, ungs fólks sem fer að vinna við kvikmyndagerð, gerð tölvuleikja
eða forritun og hefur takmarkaða möguleika á formlegu námi í grein-
inni eða þeirra sem einbeita sér að því að stofna og reka fyrirtæki?
Teljast þessir einstaklingar brottfall? Veit einhver hvort þeir sækja
sér menntun síðar, í öðrum löndum eða á netinu? Er kannski þessi
sveigjanleiki sem kallast brottfall líka stærsti kostur íslenska skóla-
kerfisins?
Eftir þessa hugleiðingu hef ég ákveðið að spyrja hvern þann sem
talar um brottfall hvaðan hann hafi tölurnar, hvort þetta séu nem-
endur sem hættu eina önn eða hættu alveg námi, hvort viðmælandinn
viti hvað nemendur fóru að gera og hvort þeir hafi skilað sér í annað
nám eða starfi við það sem hugur þeirra stóð til? Ég hvet alla til að
halda áfram námi og ljúka prófum, jafnvel fimm háskólagráðum, en ég
fagna líka brottfallsnemendum sem lokaprófslausir hafa borið uppi
hróður þessa lands eins og Birgittu Jónsdóttur, Halldóri Laxness og
Hallgrími Péturssyni.
Er brottfall slæmt fall?
Tungutak
Lilja Magnúsdóttir
liljam@simnet.is
Það er kannski ekki við öðru að búast en að rúm-lega 70 árum frá lokum heimsstyrjaldarinnarsíðari sjáist merki um breytingar á þeirriheimsmynd sem við höfum búið við frá því að
þeim hildarleik lauk.
Fátt hefur vakið meiri athygli í seinni tíð um heims-
byggðina alla en þau ummæli Angelu Merkel, kanslara
Þýzkalands, að loknum tveimur fundum með Donald
Trump, leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins og fundi
leiðtoga G-7 ríkja, að nú væri kominn tími á að Evrópu-
þjóðirnar sæju um sig og að þær gætu ekki lengur treyst
á Bandaríkjamenn og Breta. Trump neitaði að staðfesta
þann grundvallarþátt í starfi Atlantshafsbandalagsins að
árás á eitt aðildarríki jafngilti árás á þau öll.
Evrópa hefur til þessa dags notið þess öryggis sem
felst í hernaðarlegum yfirburðum Bandaríkjamanna. En
nú virðast vera breyttir tímar.
Sameiginlega hafa aðildarríki ESB yfirburðastöðu t.d.
í samanburði á milli ríkja og ríkjaheilda um verga lands-
framleiðslu.
Evrópuríkin hafa hins vegar farið sér hægt í að end-
urspegla þann efnahagslega styrkleika
í hernaðarlegum mætti. Til marks um
það eru þær hremmingar sem sum
þessara ríkja lentu í þegar þau fóru að
hafa afskipti af átökunum í Líbíu fyrir
nokkrum árum. Bandaríkjamenn voru tregir til afskipta
á þeim tíma þannig að Bretar og Frakkar voru þar fram-
arlega í flokki. Þá kom í ljós að hernaðarmáttur þeirra
var ekki meiri en svo, að þeir urðu fljótlega uppiskroppa
með skotfæri! Og urðu að fá þau lánuð hjá Bandaríkja-
mönnum auk þess sem í ljós kom að upplýsingaöflun
þeirra (þ.e. njósnastarfsemi) reyndist ekki upp á marga
fiska.
Þessu er öfugt farið með Rússa. Þeir eru í efnahags-
legu tilliti risi á brauðfótum en þeir eru hernaðarveldi
sem ekki verður gert lítið úr og þá ekki sízt vegna kjarn-
orkuvopna. Þegar Bretar hafa yfirgefið ESB verður
bara eitt kjarnorkuveldi eftir í Evrópu, sem eru
Frakkar.
Það kann því vel að vera að þegar Merkel segir að nú
verði Evrópuríkin að fara að sjá um sig og standa á eigin
fótum felist í þeim orðum að þau verði að fara að vígbú-
ast í ríkari mæli en þau hafa gert. Og það á kannski fyrst
og fremst við um Þjóðverja sjálfa, sem hafa verið feimnir
við að sýna þá hlið á sér í 70 ár.
En þótt svona sé staðan á yfirborðinu er ekki allt sem
sýnist. Það er mjög langt síðan Evrópa hefur verið jafn
sundruð og nú. Það á ekki bara við um þau augljósu átök
sem staðið hafa á milli ríkja í Norður-Evrópu og Suður-
Evrópu. Margvísleg óánægja er byrjuð að grafa um sig
meðal þeirra aðildarríkja ESB sem áður voru leppríki
Sovétríkjanna. Og þar að auki er raunveruleg stríðs-
hætta orðin til á ný á Balkanskaga og alls ekki hægt að
útiloka að ný átök brjótist þar út.
Það er því ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að
ESB-ríkin standi sameinuð að baki yfirlýsingu Merkel,
þótt líklegt sé hins vegar að Frakkar muni standa fast
með Þjóðverjum.
Einn þáttur í viðbót kemur svo inn í þessa mynd. Það
hefur alltaf verið til staðar bæði í Þýzkalandi og Frakk-
landi það sjónarmið að þessi ríki hljóti að leggja áherzlu
á viðunandi samstarf við Rússa, bæði á meðan á kalda
stríðinu stóð og líka eftir að því lauk. Það er skiljanlegt.
Það hlýtur að vera betri kostur fyrir nágranna að búa í
sæmilegum friði heldur en að eiga í stöðugum erjum.
Þetta viðhorf lá til grundvallar afstöðu Willy Brandt
til Sovétríkjanna á sínum tíma. Og ekki ólíklegt að nú
muni áþekkar raddir heyrast á ný í Þýzkalandi.
Það getur því ýmislegt átt eftir að gerast í kjölfar yfir-
lýsingar Angelu Merkel og er reyndar byrjað að koma
fram í meiri samstöðu á milli Evr-
ópuríkja og Kína í loftslagsmálum. Það
skyldi þó aldrei vera að Bandaríkja-
menn verði skildir eftir einangraðir í
þeim málaflokki?
Fyrir okkur Íslendinga er þessi nýja staða ekki alveg
einfalt mál. Við liggjum miðja vegu á milli Evrópu og
Bandaríkjanna og höfum horft til beggja átta. Átt mikil
pólitísk samskipti og viðskiptaleg tengsl við Evrópuríkin
en reitt okkur á samstarf við Bandaríkin í öryggismálum
og höfum af því góða reynslu.
Á dögunum vék Benedikt Jóhannesson, formaður Við-
reisnar, að þessu augljósa álitamáli og eins og við mátti
búast var niðurstaða hans sú að hin ný staða væri rök
fyrir enn meira samstarfi okkar við Evrópuríkin.
Það er hins vegar grundvallarmisskilningur hjá Bene-
dikt. Evrópa öll er í slíku uppnámi og víðsjár í öllum
hornum að það væri ekkert vit í því fyrir Ísland að halla
sér enn meir að Evrópu við þær aðstæður. Það væri
raunar fullkomið glapræði að blanda sér í þau erfiðu við-
fangsefni sem Evrópuríkin standa frammi fyrir.
Hins vegar munu margir hugsa á þann veg að það sé
heldur ekki fýsilegur kostur að eiga mikið undir Banda-
ríkjum Donalds Trump og það er skiljanleg afstaða.
En forsetar koma og fara. Hin „strategíska“ staða Ís-
lands breytist hins vegar ekki. Eftir stendur að við eig-
um mikilla hagsmuna að gæta hér í Norður-Atlantshafi.
Það eiga Norðmenn líka, svo og Færeyingar, Grænlend-
ingar, Skotar og Kanadamenn, auk Bandaríkjamanna
sjálfra, bæði vegna Alaska og stærri hagsmuna.
Sundruð Evrópuríki verða aldrei sá björgunarhringur
sem við þurfum á að halda. Þess vegna hlýtur niðurstaða
fyrrnefndra ríkja í Norður-Atlantshafi að verða sú, að
náið samstarf við Bandaríkin og Kanada hljóti að vega
þyngst þegar við horfum til langtímahagsmuna okkar.
Við höfum horft til
beggja átta – hvað nú?
Sundruð Evrópa eða
Bandaríki Trumps?
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Samkvæmt því sem Platón segirbað einn viðmælandi Sókratesar
eitt sinn menn að hugsa sér hvað
þeir myndu gera bæru þeir hring
sem gerði þá ósýnilega. Taldi hann
flesta þá myndu brjóta af sér.
Bankahrunið íslenska var um sumt
líkt hringnum ósýnilega. Í uppnám-
inu gátu menn gert ýmislegt sem fá-
ir tóku eftir og hefði líklega ekki ver-
ið látið óátalið undir öðrum kring-
umstæðum.
Ég hef opinberlega nefnt nokkur
dæmi: Starfsmenn Glitnir Securities
í Noregi keyptu fyrirtækið á 50
milljónir norskra króna, þótt bók-
fært eigið fé þess væri 200 milljónir.
Viku síðar seldu þeir helminginn í
fyrirtækinu á 50 milljónir. Kaupand-
inn var verðbréfafyrirtæki með
bækistöð á annarri hæð í sama húsi
og Glitnir Securities. Hæg voru
heimatök. Í Finnlandi keyptu starfs-
menn Glitnis banka sem var finnskt
dótturfélag íslenska bankans á
3.000, þótt eigið fé þess væri bók-
fært 108 milljónir. Fimm árum síðar
seldu kaupendurnir bankann á 200
milljónir. Minna má líka á sölu Glitn-
ir Bank í Noregi og FIH Bank í
Danmörku.
Ég rakst í rannsóknum mínum á
enn eitt dæmið sem farið hefur
hljótt. Árið 2006 hafði íslenski Glitn-
ir keypt sænska verðbréfafyrirtækið
Fischer Securities fyrir 425 milljónir
sænskra króna og breytt nafni þess í
Glitnir Sverige. Anders Holmgren
var ráðinn forstjóri. Þegar Glitnir
hrundi var fyrirtækið auglýst til
sölu. Eigið fé þess var þá 190 millj-
ónir króna. Ekki virtist vera völ á
sams konar aðstoð frá sænska ríkinu
og Carnegie banki fékk skömmu
síðar. Samið var um að HQ banki
keypti fyrirtækið á 60 milljónir. Sá
banki hét eftir upphafsstöfum stofn-
enda hans og aðaleigenda, Sven
Hagströmer og Mats Qviberg. For-
stjóri HQ banka leyndi því ekki í við-
tölum við sænsk blöð að hann væri
ánægður með kaupin. Bókfærður
hagnaður HQ banka af kaupunum
var í árslok 2008 84 milljónir króna.
Ekki er síður athyglisvert að þeir
Anders Holmberg, forstjóri Glitnir
Sverige, og Qviberg eru mágar; Qvi-
berg kvæntur systur Holmbergs.
Hæg voru heimatök.
Ef til vill datt einhverjum í hug
annað íslenskt spakmæli, Illur feng-
ur illa forgengur, þegar sænska fjár-
málaeftirlitið lokaði HQ banka árið
2010 vegna alls kyns fjárglæfra.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Hæg voru heimatök
Nú er Hreyfivika UMFÍ og þá minnum
við á mikilvægi þess að hreyfa sig
reglulega. Þú þarft ekki að ganga á
Hvannadalshnjúk eða hlaupa heilt
maraþon, við hvetjum þig til að
stunda hreyfingu sem hentar þér.
GANGA, HLAUPA EÐA DANSA,
LÁTTU BARA VAÐA – OG NJÓTTU ÞESS!
HREYFIVIKA
UMFÍ - 29.05-04.06
#miNhREyFinG
HrEYfuM OkKur
HrEYfiVIka.Is