Morgunblaðið - Sunnudagur - 04.06.2017, Side 15
4.6. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
Hvernig hefur þér liðið?
„Bara vel. Þetta kemur ekki gefins, það eru
ýmis vandamál. Sem dæmi er ég með tíu kíló
af aukahúð, sem veldur sárum og sýkingum,“
segir hann og útskýrir að seinna meir verði
umframhúðin fjarlægð. Hann segist ekki finna
til óþæginda í maganum eða kviðnum. „Það
var bara fyrst, það er auðvitað búið að hefta
magann. En það var bara fyrsta hálfa árið.“
Nú er þetta fyrir lífstíð. Var það erfið
ákvörðun að fara í aðgerðina?
„Bara aðallega út af áhættum og ég var auð-
vitað í auka áhættu af því að ég var orðinn svo
stór. Lifrin var orðin svo rosalega stór og það
þurfti að lyfta henni og þá er hætta á að hún
rifni. Þannig að ég hafði áhyggjur af því. En ég
vissi, og læknirinn talaði um það, að ef ég gerði
ekkert stefndi ekkert í betri átt. Ég þekki eng-
an sem hefur verið þyngri en ég.“
Hvað finnst þér um svona þætti eins og
Biggest Loser?
„Mér finnst það ekki sniðugt. Ég þekki fólk
sem hefur farið í þetta. Þetta er bara „show“,
þú ert að fara illa með þig, þú ert að þjösnast á
þér og svo bætir fólk þessu bara á sig aftur.
Sumir kannski halda þessu af en hjá svo mörg-
um kemur þetta allt aftur.“
Hvað ertu búinn að missa mikið?
„Í kringum níutíu kíló. Ég er í raun búinn að
standa í stað síðan í janúar. Ég er svona í kring-
um 100 kíló. Ég er löngu kominn yfir það sem
mér var lofað. Og svo er ég auðvitað með tíu kíló
af aukahúð. En mér líður mjög vel þar sem ég er
núna.“
Hvað ertu farinn að gera núna sem þú gast
ekki gert áður?
„Ég er farinn að stunda hjólreiðar og göngu-
túra og fer á hverjum einasta degi. Ég fer oft í 40
mínútna göngu um Vellina (í Hafnarfirði) og kem
heim og blæs ekki úr nös. Það munar rosalega.
Síðasta sumar var það lengsta sem ég hjólaði 40
kílómetrar. Það var ekkert mál,“ segir hann.
Hvað með mataræði og skammtastærðir
núna?
„Það er mjög misjafnt, ef ég borða brauð eða
þurrmeti get ég borðað meira, en af því að við
vorum að tala um hamborgara áðan get ég sagt
þér að ég næ kannski að borða hálfan hamborg-
ara, ef ég er ekki með neitt á honum. Þá er ég
farinn að velta frá borðinu. Ég get voða lítið ver-
ið að smakka í matargerðinni, því ef ég geri það,
þá er það bara mín máltíð, alla vega var það
þannig fyrst eftir aðgerð, og eiginlega fyrsta ár-
ið. Maður kannski borðaði eina skeið af skyri og
var saddur. En í dag er ég farinn að nálgast það
sem fólk telur eðlilegt að maður ætti að borða.
Næringarlega séð,“ útskýrir hann, því enn get-
ur hann bara torgað hálfum hamborgara. Hann
segir að þótt hann vildi gæti hann ekki torgað
heilum borgara. „Það er málið, það er svo furðu-
legt. Þú getur það ekki, maginn gefur ekki eftir.
Það er ekki pláss, maginn segir stopp. Og það er
gott. Í mínu tilfelli fer ég alltaf að hiksta þegar
ég er saddur. Þá áttu líka að hætta.“
Finnur þú fyrir söknuði?
„Já, hugurinn fylgir ekki jafn hratt, alls ekki.
Maður finnur stundum fyrir hugarhungri en
má ekki láta blekkjast. Stundum hugsar maður,
ef maður fengi einn dag. Maður er kannski bú-
inn að standa sveittur við eldamennsku í tvo
tíma fyrir matarboð, bara til þess eins að borða
einn svona disk af einhverju,“ segir Aðalsteinn
og bendir á undirskálina undir kaffibollanum.
„Maður verður þreyttur á því. Svo hristir mað-
ur það af sér. Og það er náttúrulega þess virði,“
segir hann. „Svo er auðvitað kosturinn við
þetta, og ég fæ oft augngotur frá starfsfólki, að
ég fer og vel mér dýrasta kjötið í kjötborðinu og
bið um 100 grömm af því,“ segir hann og hlær.
„Það er meira en nóg fyrir mig, og ódýrt. Mér
finnst það frábært.“
Aðalsteinn sýnir blaðamanni myndir af sér
fyrir aðgerð. „Sérðu eins og hér, ég tók ekki eft-
ir þessu á þeim tíma,“ segir hann og bendir á
mynd af sér þegar hann var sem þyngstur.
Varla er hægt að sjá að myndin sé af manninum
sem rætt er við. Hann segir að hann hafi ekki
almennilega áttað sig á því hversu stór hann
hafi verið orðinn. „Það er það óhugnanlega við
þetta, þótt maður kæmist ekki í bíósætin. Ég
horfði í spegil og vissi alveg að ég væri feitur, og
mér hefur alltaf fundist það í lagi upp að vissu
marki, en ekki svona. Svo þegar ég var byrjaður
að grennast og horfði í spegil þá stundum trúði
ég ekki að þetta væri ég, þá fylgdi hugurinn
ekki heldur. Hugurinn er svolítið brenglaður,“
segir hann. Varðandi ljósmyndir segist Aðal-
steinn hafa ritskoðað allt sem sett var t.d. á
Facebook. „Ég setti ekkert mynd af mér nema
það væri búið að skera af allt fyrir neðan háls.
Og ef það var tekin fjölskyldumynd neyddist
maður stundum til að klippa hana alveg niður,
maður skammaðist sín svo mikið.“
Ertu meðvitaður um að halda þessu, að
skemma ekki árangurinn?
„Já, ég ákvað strax í upphafi að ég var ekki
að fara í aðgerð til að fara í megrun. Ég vildi
fara í aðgerð og geta nálgast mat á eðlilegan
hátt. Ef ég fæ mér eitthvað sem ég ætti ekki að
vera að fá mér, þá tek ég lengri göngutúr. Ég
er búinn að losa mig við svo mikið að ég er far-
inn að geta hreyft mig miklu meira og ég hreyfi
mig mjög mikið. Við erum saman í þessu,“ seg-
ir hann, en kona hans tekur fullan þátt.
Mælir þú með þessari aðgerð?
„Ég á alltaf erfitt með að mæla með ein-
hverju svona. Ég mæli ekki gegn henni. Mér
finnst að þegar fólk er komið á vissan stað sé
um að gera að skoða þennan möguleika. Þetta
á að vera síðasta úrræðið. Þú ert ekki rétt yfir
einhverri smá yfirþyngd að fara í þessa að-
gerð, þú verður að vera búinn að prófa allt
annað og í rauninni gefast upp. Ég mæli með
þessari aðgerð fyrir fólk sem er komið þangað,
á síðasta snúninginn.“
Hver er stærsti gallinn við þessa aðgerð?
„Í mínu tilviki er það aukahúðin, hún veldur
vandræðum. Og ég myndi segja andlega hlið-
in, þetta tekur á. Þetta er erfitt og sjálfs-
myndin er brotin á meðan maður er að ganga í
gegnum þetta, maður afmyndast mikið á með-
an fitan er að brotna niður. Svo aftur á móti er
maður alltaf að kaupa ný föt! Sem er nátt-
úrulega skemmtilegt. Áður var mitt eina val
Dressmann XL. Nú versla ég bara í tískubúð-
um,“ segir Aðalsteinn og brosir breitt.
Morgunblaðið/Ásdís
Aðalsteinn var um 190 kíló
þegar hann var þyngstur.
’ Það var orðið svo slæmtþarna undir lokin að stundumþegar manni var boðið í mat byrj-aði maður á því að koma við í
sjoppu. Bæði til að vera viss um
að vera saddur og líka til að vera
ekki ókurteis og borða of mikið í
matarboðinu. En ég var alltaf sá
sem sat lengst og í raun fór ég
ekkert fyrr en borðið var orðið
tómt. Ég var alveg botnlaus.
’Í dag borða ég bara þegar ég ersvöng og ef það koma margarvikur í röð þar sem ég er alltafsvöng veit ég að það þarf að fara
að stilla bandið. Ef ég sé að vigtin
er að fara upp fer ég að láta stilla,
en ég hef ekki þurft að gera það í
tvö ár, ég er bara stabíl.
Gréta var orðin
120 kíló aðeins
19 ára gömul.
massa allt! Byrjaði rosa dugleg. Þegar maður
byrjar á einum af þessum kúrum er maður að
snúa lífinu á hvolf í einum rykk. En svo er
þetta ennþá lífið þitt. Þetta er rosalega óraun-
hæft. Ég tek hattinn ofan af fyrir fólki sem
nær að taka kílóin af og halda því. Mig vantaði
bara að hafa stjórn á mataræðinu. Og bandið
gaf mér það, algerlega. En ég vann líka mjög
hart að því með bandinu og fór alveg eftir
þeim átta reglum sem á að fylgja.“
Gréta segir að eftir aðgerð hafi hún fylgt
ráðum Auðuns og fóru þau frekar hægt af
stað. Smátt og smátt var bætt vökva í maga-
bandið. „Ég fann mjög fljótt jafnvægið.
Fyrsta árið fóru slétt 26 kíló, næsta árið 20 og
svo 16. Í dag er ég svona 67-70 kíló, í kjör-
þyngd. Í dag borða ég bara þegar ég er svöng
og ef það koma margar vikur í röð þar sem ég
er alltaf svöng veit ég að það þarf að fara að
stilla bandið. Ef ég sé að vigtin er að fara upp
fer ég að láta stilla, en ég hef ekki þurft að
gera það í tvö ár, ég er bara stabíl,“ segir hún.
Gréta útskýrir að undir húðinni neðst á kviðn-
um sé eins konar tappi og úr honum liggi
slanga innvortis upp í magabandið, sem er
hringlaga og liggur utan um efsta hluta mag-
ans. Til þess að „stilla“ magabandið þarf
stundum að sprauta, eða draga úr, saltvatns-
lausn í bandið. Þá þrengist eða losnar um
bandið. Bandið dugar svo út ævina.
Hvað gerir þú til að vinna með bandinu?
„Það er t.d. talað um að allir drykkir sem
innihalda kaloríur séu bannaðir, eins og gos
og ávaxtasafi. Svo gaf bandið mér stjórnina og
ég náði utan um mataræðið, öðlaðist einhverja
ró og gat þ.a.l. farið að taka hollari mat inn í
mataræðið. Ef ég borða of mikið af kaloríurík-
um mat er ég ekki að missa mig yfir því, held-
ur tek þá bara hollari mat næstu daga á eftir.
Svona eins og venjulegt fólk gerir.“
Hefurðu fundið fyrir einhverjum neikvæð-
um hliðum bandsins?
„Nei. Ég er líka mjög meðvituð um að ég
þarf að passa mig á hvað er mikið í bandinu,
ég var einu sinni með of mikið í bandinu, var
of „gráðug“, ætlaði að verða rosalega mjó
mjög hratt. En Auðun var alltaf að segja mér
að það þyrfti þolinmæði. En ég fór of geyst og
ég gat ekki borðað neitt, það festist allt í vél-
indanu og tómt vesen og ég var með bakflæði
á nóttunni. Þá þurfti bara að draga aðeins úr,“
segir Gréta.
Hún nefnir að þegar hún hafi verið ólétt
hafi til að mynda verið dregið mikið úr band-
inu og þegar hún var komin 28 vikur var allt
tekið úr sem varúðarráðstöfun ef hún skyldi
lenda í bráðakeisara eða þurfa lyf. Hún segist
hafa þyngst um 35-40 kíló á meðgöngunni.
„Og ég gerði mér enga grein fyrir því. Ég átt-
aði mig á því að þetta væru einhver kíló. En
ég ætlaði ekki að ofhugsa það og eyðileggja
meðgönguna með megrun. En ég gerði
kannski aðeins of lítið,“ segir hún og brosir.
„Ég var þá orðin 95 kíló, en svo fór það fljótt.“
Gréta segist nota vigtina í dag til að passa
að hún haldist stöðug, en horfa ekki endilega á
töluna sem slíka. „Ég er alveg sátt við að vera
80 kíló, mér er alveg sama hvort hún segir 70
eða 80. En ég hef sleppt henni, og það var
hræðilegt þegar ég fór síðan aftur á hana. Ég
man ennþá eftir tilfinningunni þegar ég steig
á vigtina og hún sýndi 118 kíló, af því að ég
var ekki búin að stíga á hana í tvö ár, frá því
ég var 88 kíló. Og mér fannst ég alltaf sirka
það sama, en samt þurfti ég alltaf stærri föt.“
Í dag segist hún vera á stöðugum þönum en
ekki stunda neina sérstaka líkamsrækt. Hún
vinnur óreglulegan vinnutíma sem flugfreyja
og segir það henta sér mjög vel. Þess á milli
hleypur hún á eftir litla drengnum sínum.
Myndir þú mæla með magabandinu?
„Já, fyrir alla sem eru í yfirþyngd. Ég er
trúlega annar eða þriðji Íslendingurinn sem
fer í band hjá Auðuni. Ég er úr Grindavík og
það er svolítið búið að gera grín að því en það
eru örugglega hundrað manns þar með band.
Fólk sá þetta og hvernig það virkaði hjá mér
og það spurðist út. Ég hef verið að fá símtöl
og farið í viðtöl út af þessu.“
Hvað með fólkið sem segist ekki sjá nógu
góðan árangur?
„Ég hef talað við fólk sem er ekki að sýna
árangur sem skyldi. Og þegar ég sest niður
með því kemur í ljós að það er ekkert að
fylgja reglunum. Þetta eru ekki erfiðar regl-
ur.“
Trúir þú að þessi aðgerð, eða sambærilega
aðgerð, hafi verið eina leiðin?
„Fyrir marga er þetta lykillinn. Mér finnst
magabandið vera lykillinn að frelsinu í þessu,
þú lifir bara lífinu þínu og gerir þessar breyt-
ingar og það gerist hægt að rólega, og án þess
að það sé allt að misheppnast sem þú ert að
gera. Það er það sem er svo fallegt við þetta,“
segir hún. „Ég þekki konu sem er með band.
Hún sagði við mig að þetta væri svolítið eins
og að þurfa gleraugu og vera að fara í próf.
Og þú getur ekki lesið bókina af því að þig
vantar gleraugu. Svo færðu gleraugun og ef
þú ætlar að fara beint í prófið án þess að lesa
bókina, þá gerist ekkert. Þá ertu alveg jafn
illa staddur. Ekkert af þessu virkar eitt og
sér. Bandið virkar ekkert eitt og sér. Ég hef
heyrt að fólki finnist þetta vera að kaupa sér
lausn á vandamálinu og vinnan sem fylgir
þyngdartapi sé þar af leiðandi ekki unnin. Ég
hef unnið með bandinu og það fór mikil vinna
og þolinmæði í það. Ég er ekki til í að leyfa
fólki að taka þann árangur af mér fyrir það
eitt að nota til þess hjálpartækið sem maga-
bandið er.“