Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.07.2017, Síða 31
bjargað 77 manneskjum frá drukknun. Hann lék í
fjölda kvikmynda, ekki þó neinum stórmyndum og
var formaður Leikarafélagsins í Hollywood, en þá
var hann flokksbundinn demókrati og síðar kynn-
ingarfulltrúi hjá General Electric. Og síðast vel-
heppnaður ríkisstjóri í Kaliforníu í átta ár.
Reagan var sannarlega ekki að fela það að eitt-
hvað hefði vantað upp á í aðdraganda valdaskeiðs
hans. „Það er örugglega rétt að ég hefði getað náð
langt í lífinu hefði ég stundað námið í Eureka betur
en ég gerði,“ sagði hann og brosti.
Sláandi samanburður
Það má margt segja gott um Hillary Clinton og
bréfritari hefur sannarlega ekki ástæðu til annars.
En þetta með „bestan undirbúning allra“ er, með
fullri virðingu, heldur vafasamt. Enginn veit svo
sem hvaða undirbúningur er bestur til þess að
verða góður forseti Bandaríkjanna. Það má t.d.
horfa á feril George H.W. Bush, 41. forseta. Hann
var með góðan námsferil. Eftir innrásina í Pearl
Harbour ákvað Bush að ganga í herinn. Hann var
þá 18 ára. Hann varð yngsti orrustuflugmaður
bandaríska sjóhersins, tæplega 19 ára. Átti hann
þegar góðan feril að baki þegar flugvél hans var
skotin niður. Bush var bjargað eftir að hafa svaml-
að um í sjónum í heila nótt. Eftir nám tók Bush
virkan þátt í viðskiptalífinu. Hann gegndi einnig
starfi háskólaprófessors í eitt ár og var bankastjóri
í Houston í Texas. Hann var kjörinn þingmaður í
fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann varð síðar for-
maður Repúblikanaflokksins. Hann gegndi emb-
ætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu
þjóðunum árið 1971 sem er ígildi ráðherratignar í
bandaríska stjórnkerfinu. Hann gegndi síðar starfi
sendiherra Bandaríkjanna í Kína.
George H.W. Bush varð forstjóri bandarísku
leyniþjónustunnar CIA og svo loks varaforseti
Bandaríkjanna í átta ár. Hver og einn getur fyrir
sig borið feril Hillary og „gamla“ Bush saman. Nið-
urstaðan sem blasir við þýðir ekki að Hillary hefði
ekki getað orðið jafngóður forseti eða betri en
Bush eldri. En það væri þá ekki vegna þess að full-
yrðingar þeirra Bill og Obama hafi ekki verið út í
hött.
Við taflborð stórmeistara
Sá sem sigraði Hillary og varð forseti (þótt CNN,
ABC og NBC og NYT dragi tap hennar enn í efa),
Donald Trump, hefur enga reynslu úr „kerfinu“ til
að byggja á í störfum sínum í Hvíta húsinu. Enda
segir hann að kerfið sé helsti óvinur þjóðarinnar.
Það sé á meðal margra annarra frábærra kosta
sinna að hafa aldrei sogast inn í það. Trump hefur
á hinn bóginn verið lunkinn að safna sér fé, þótt á
ýmsu hafi gengið, eins og gerist í viðskiptalífinu.
Í gær sátu Trump og utanríkisráðherra hans,
Rex Tillerson, á löngum fundi með Pútín og Sergey
Lavrov. Fréttarýnendur bentu á að þeir Pútín og
Lavrov hefðu sameiginlega 80 ára reynslu í þessum
fræðum á meðan þeir, hinum megin við borðið,
væru með tæpt ár saman.
Í fyrradag hélt Trump ræðu í Póllandi, sem jafnt
stuðningsmenn hans sem gagnrýnendur (nema
þeir allra ofstækisfyllstu) segja bestu ræðu sem
hann hafi flutt um utanríkismál. Einhver kynni að
benda á að sé ekki langt til jafnað. En því er einnig
haldið fram að forseti Bandaríkjanna hafi ekki í
tæp 9 ár flutt svo afgerandi ræðu um öryggismál,
út frá sjónarmiðum Nató. Hitt er hins vegar satt
og rétt að Trump þurfti að halda slíka ræðu, þar
sem hann fjallaði gáleysislega um varnarbandalag
vestrænna ríkja í kosningabaráttu sinni, eins og
reyndar um svo mörg önnur efni. Sérstaklega er
haft orð á, að langur tími er síðan forseti Banda-
ríkjanna hefur talað af jafnmiklum þunga til Rúss-
lands eins og gert var í þessari ræðu. Og það dag-
inn áður en Trump átti í vændum sinn fyrsta fund
með Pútín.
En eins og fyrr sagði eru þeir Pútín og Lavrov
ekki fæddir í gær og hafa gert sér grein fyrir því
að Trump gat ekki flutt ræðu á fjöldafundi í Pól-
landi án þess að slá á þessa strengi.
En þótt þessi ræða hafi svo sannarlega verið
fagnaðarefni, traust og góð, þá þarf að hafa í huga
að það er Donald Trump sem talar. Lengi hefur
tíðkast að taka það svo, að þegar helstu valdamenn
heims flytja vandaða og grundaða tímamótaræðu,
þá hafi ríki viðkomandi með því markað opinbera
stefnu sem allt stjórnkerfið tekur mið af mánuðum
og árum saman. Fræðimenn skrifa síðan doktors-
ritgerðir í þúsundatali um kaflaskilin sem urðu
með ræðunni. Sennilega er doktorsefnunum þó rétt
að fara sér hægt núna. Þau ættu kannski að hinkra
og sjá hvort birtist tíst í morgunsárið einhvern
daginn sem gerir ræðuna miklu að engu eða snýr
henni jafnvel á haus.
Það er alls ekki útilokað.
Rétt er þó að vona það besta.
Morgunblaðið/Ómar
9.7. 2017 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 31