Morgunblaðið - 20.07.2017, Síða 38
BAKSVIÐ
Sunna Ósk Logadóttir
sunna@mbl.is
Líkt og margir aðrir íbúar Norður-Írlands
finnst Jake mikil einföldun og hreinlega rangt
að tala um að Vandræðin svokölluðu (The
Troubles), sem stóðu í þrjátíu ár og kostuðu á
fjórða þúsund manns lífið, hafi verið milli mót-
mælenda og kaþólikka. „Við trúum öll á sama
guð, þetta snerist um pólitík en aldrei um
trúarbrögð,“ segir hann. Átökin voru milli
þeirra sem vildu að Norður-Írland tilheyrði
áfram Stóra-Bretlandi og þeirra sem vildu
sameinað Írland. Kaþólikkar voru flestir þjóð-
ernissinnar en mótmælendur drottningar-
hollir, þ.e. sambandssinnar. Sögulegar ástæð-
ur voru svo fyrir því að þessir hópar bjuggu oft
á tíðum hvor í sínum borgarhlutanum. Sú
skipting jókst enn frekar á ófriðartímanum.
Því má svo ekki gleyma að átökin voru einnig á
milli hópa innan hverfanna. Ekkert var annað-
hvort svart eða hvítt í þessum efnum frekar en
í öðrum styrjöldum nútímans.
Reiðin kraumaði
Þegar Jake fæddist árið 1968 voru Vand-
ræðin að hefjast. Á svæðum sem voru á mörk-
um hverfa andstæðra fylkinga brutust ítrekað
út átök og augljóst var að reiði kraumaði undir
niðri. Rætur ólgunnar lágu m.a. í því að sam-
bandssinnar höfðu áratugum saman haft
meirihluta í norðurírska þinginu og töglin og
hagldirnar í allri stjórnun landsins. Þeir gerðu
tilraunir til að leysa pólitískar illdeilur og
stinga á samfélagsmeinum, s.s. mismunum
gegn kaþólikkum sem var útbreitt vandamál,
en fóru sér of hægt að mati þjóðernissinna og
of hratt að mati sambandssinna. Mismununin
var að hluta til stjórnarskrárbundin. Kosn-
ingaréttur var á þessum árum bundinn við
stöðu og eignir fólks. Þá var kjördæmaskipan
kaþólikkum í óhag og það reyndist þeim erfitt
og jafnvel ómögulegt að fá stöður hjá hinu
opinbera.
Á sjöunda áratugnum spruttu víða um heim
upp hreyfingar sem kröfðust bættra mannrétt-
inda. Boðskapur þeirra fór ekki framhjá kaþ-
ólikkum á Norður-Írlandi, sem þráðu jafnrétti.
Svo fljótt kviknaði ófriðarbálið árið 1969 að
breski herinn var nokkrum mánuðum síðar
kvaddur á vettvang til að stilla til friðar. En
allt kom fyrir ekki. Ólgan magnaðist og árið
1972 var norðurírska þingið leyst upp og Bret-
ar tóku stjórn landsins að fullu í sínar hendur.
Köstuðu steinum yfir múrinn
Jake ólst upp í hverfi þar sem flestir íbúanna
voru mótmælendur. Hann rámar í nokkuð frið-
sæla tíma, þar sem hann átti vini handan múrs-
ins, en svo kom að því að reiðin smitaði út frá
sér og smaug inn í alla þætti samfélagsins. Þar
með talin samskipti barnanna. „Ég hélt um
tíma að allir væru vondir hinum megin,“ rifjar
hann upp. „Ég lék mér í sótsvörtum flökum
bíla sem sprengdir höfðu verið í loft upp. Við
köstuðum steinum yfir múrinn. Ég sá vini
mína setta í fangelsi og ég fylgdi sumum þeirra
til grafar.“
Börnin fengu ólíkt uppeldi eftir því í hvaða
hverfi þau ólust upp. Í skólum kaþólikka var
áhersla lögð á írska menningu. Í skólum mót-
mælenda var börnunum innrætt bresk menn-
ing. Allt jók þetta á óeiningu í landinu.
Jake segist hafa verið heppinn. Hann hafi
tekið þá ákvörðun að ganga ekki til liðs við
hópana sem stjórnuðu öllu og voru virkir þátt-
takendur í átökunum. „Það var eiginlega ætl-
ast til þess, að beggja vegna múrsins myndi
ungt fólk taka þátt í þessu.“
Hann ólst upp við óöldina en varð síðar vitni
að því er friðurinn færðist yfir. Fyrir það er
hann þakklátur.
Við og þeir
Billy er á sjötugsaldri. Hann man sann-
arlega tímana tvenna í Belfast. Er hann var að
alast upp voru mörg hverfi borgarinnar blönd-
uð, þar bjuggu bæði mótmælendur og kaþ-
ólikkar þótt oft gengju börnin í sinn skólann
hvor. Áður en Vandræðin hófust var því ákveð-
inn aðskilnaður þegar til staðar og hafði svo
Múrar enn á vígvelli Vandræðanna
Múrinn sem aðskilur hverfi kaþólikka og mótmælenda í norðurírsku borginni Belfast var reistur við lok 7. áratugar
síðustu aldar og átti að standa í sex mánuði. Hann stendur enn, tæpum fjörutíu árum síðar. „Ég vona að ég lifi nógu
lengi til að sjá hann fara,“ segir Jake sem fæddist árið áður en bygging múrsins hófst. Hann rennir augunum upp eft-
ir margra metra háum steinveggnum og á gaddavírinn sem komið hefur verið fyrir ofan á honum. „Það er sagt að
þetta sé til að vernda íbúana. En múrar byggja ekki brýr milli fólks,“ segir hann ábúðarfullur. „Svo mikið er víst.“
Vandræðin
(The Troubles)
» Átökin á Norður-Írlandi á síðari hluta
tuttugustu aldar eru kölluð Vandræðin
(The Troubles). Meira en 3.600 manns
létust og þúsundir særðust.
» Sárin eru ekki síst á sálinni og margir
eru enn að fást við tilfinningaleg áföll
sem þeir urðu fyrir.
» Í þrjá áratugi var ofbeldið á götum
Norður-Írlands nær daglegt brauð.
» Átökin smituðu að ákveðnu leyti út
frá sér til annarra landa, aðallega Bret-
lands og Írlands.
» Nokkrar tilraunir voru gerðar til að
koma á friði en slíkt náðist þó ekki fyrr
en árið 1998. Hluti af samkomulaginu
var að koma á heimastjórn á Norður-
Írlandi á ný. Samkomulagið er sagt hafa
bundið enda á Vandræðin.
» 34 kílómetrar af múrum aðskilja enn
hverfi í borgum og bæjum í landinu.
Stefnt er að því að fjarlægja þá alla fyrir
árið 2023.
Morgunblaðið/Sunna
Falls Road Við götuna Falls Road í vesturhluta Belfast voru Vandræðin sérstaklega skæð. Þar voru sett upp hlið til að girða af hverfið. Hliðin standa enn og er enn lokað og læst á nóttinni.
38
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. JÚLÍ 2017
Friður í Belfast í 18 ár