Læknablaðið - 01.03.2017, Blaðsíða 39
LÆKNAblaðið 2017/103 147
Ávanabindandi lyf og mikil notkun þeirra meðal Íslendinga hefur
töluvert verið til umræðu á liðnum árum og hefur umræðan oftar
en ekki snúist um fjölda sjúklinga og afleiðingar af misnotkun
lyfjanna. Lyfjateymi Embættis landlæknis er í miklum samskipt-
um við lækna vegna ávísana og hafa læknar lýst ýmsum hliðum
á þjónustu við sjúklinga sem eru að glíma við erfið veikindi. Til
að skilja betur starfsumhverfi lækna fór Embættið af stað með
könnun í samstarfi við Læknafélag Íslands og var rafræn könnun
lögð fyrir lækna í desember 2016. Svör bárust frá 412 læknum, 145
konum og 267 körlum. Í könnuninni gafst læknum kostur á að
koma með ábendingar. Um 100 ábendingar bárust, margar þeirra
mjög gagnlegar, um ýmislegt sem betur mætti fara í ávísunum
ávanabindandi lyfja.
Flestir svarenda voru á aldrinum 35-59 ára (200) en fæstir
yngri en 35 ára (58). Í könnuninni kom fram að um 42% starfa
eingöngu á sjúkrastofnunum, 24% í heilsugæslu og tæp 13% á
sérfræðistofum. Sumir læknar (16%) sem svöruðu starfa bæði á
sjúkrastofnunum og á sérfræðistofum.
Í samskiptum lyfjateymis við lækna vegna eftirlits með ávís-
unum á ávanabindandi lyf kemur oft fram að einstaklingar beiti
lækna miklum þrýstingi til að fá tilteknum ávanabindandi lyfjum
ávísað. Í könnuninni kom fram að 13% lækna finnst oft eða mjög
oft erfitt að stjórna meðferð með ávanabindandi lyfjum. Alls 3,7%
lækna sem tóku þátt í könnuninni telja sig oft eða mjög oft verða
fyrir ógnunum eða hótunum frá sjúklingum eða aðstandend-
um þeirra vegna ávísana ávanabindandi lyfja og um helmingur
svarenda hafði einhvern tíma orðið fyrir slíku, en hlutfallið var
nokkuð breytilegt eftir aldri (sjá töflu I). Einnig kom fram hjá
svarendum að konum er hlutfallslega mun oftar ógnað eða hót-
að en körlum. Margir læknar hafa lýst því að ávísanir þeirra til
einstaklinga, sem gerðar eru athugasemdir við, komi til vegna
þess að þeir eru tímabundið að sinna sjúklingum sem eru í umsjá
annarra lækna. Tæplega 10% lækna segjast oft eða mjög oft hafa
verið beðnir um að ávísa ávanabindandi lyfjum til sjúklinga
annarra lækna í magni sem þeim finnst óhóflegt.
Tafla I. Hlutfall lækna sem verða fyrir hótunum/ógnunum.
Aldursbil
<35 ára 35-59 ára ≥60 ára
Mjög oft 1,7 1,0 0
Oft 1,7 4,5 1,3
Stundum 19,0 11,0 4,5
Sjaldan 50,0 37,5 38,3
Aldrei 27,6 46,0 55,8
Af öllum læknum sem svöruðu nota 58,6% lyfjagagnagrunn
Embættis landlæknis oft eða mjög oft en hlutfallslega fleiri yngri
læknar nota grunninn reglulega (sjá töflu II). Samkvæmt talningu
í grunninum eru ríflega 1000 læknar og tannlæknar að fletta upp
í honum í hverjum mánuði.
Tafla II. Hversu oft notar læknir lyfjagagnagrunn, hlutfall.
Aldursbil
<35 ára 35-59 ára ≥60 ára
Mjög oft 75,9 43,5 28,1
Oft 12,1 19,5 13,7
Stundum 10,3 13,5 20,9
Sjaldan 1,7 6,5 11,8
Aldrei 0 17,0 25,5
Eitthvað er um það að ávanabindandi lyfjum sé ávísað án
þess að sjúklingur komi í viðtal. Þetta er algengt til dæmis
í lyfjaendurnýjunum á heilsugæslu en borið hefur á því
að einstaklingar hafi svikið út lyf í nafni annarra og hefur
heilsugæslan reynt að bregðast við því. Dæmi eru um að skrifuð
hafi verið út lyf á einstaklinga sem ekki hafa áður fengið ávísað
slíkum lyfjum sjálfir og því vildi Embættið kanna hversu algengt
það væri að læknar ávísi ávanabindandi lyfjum til einstaklinga í
fyrsta sinn án þess að hitta þá. Aðeins 2,2% lækna ávísa oft eða
mjög oft ávanabindandi lyfjum til einstaklinga án þess að hitta þá
en 97,8% lækna sem svöruðu segja að það komi sjaldan eða aldrei
fyrir.
Ein af ábendingunum sem Embætti landlæknis barst frá lækn-
um í þessari könnun var að verð á töflum í ólíkum pakkningum
hafi áhrif á hversu miklu er ávísað af ávanabindandi lyfjum í
hvert sinn. Í könnuninni kom fram að 16% lækna telja að verð á
ávanabindandi lyfjum hafi stundum áhrif á það magn lyfja sem
ávísað er en 3,9% lækna telja slíkt eiga við oft eða mjög oft. Einnig
komu fram ábendingar um að stundum séu þær pakkningastærð-
ir sem í boði eru óheppilega stórar.
Könnunin sýnir að starf lækna sem snýr að ávísunum ávana-
bindandi lyfja getur verið krefjandi og reynt getur á staðfestu
við að stýra meðferð. Hafa ber í huga takmarkanir á þessari
könnun, til dæmis gæti sami einstaklingur hafa ógnað fleiri en
einum lækni. Þessari könnun var aldrei ætlað að vera vísindaleg
en niðurstöðurnar gefa samt sem áður vísbendingu um að full
þörf sé á frekari rannsóknum á því starfsumhverfi sem læknar
búa við. Einnig þarf að ræða hvernig heppilegast sé að læknar
bregðist við ef þeim er hótað eða ógnað af hálfu skjólstæðings.
Þjónusta lækna vegna ávanabindandi lyfja
Magnús Jóhannsson læknir magnus@landlaeknir.is, Anna Björg Aradóttir sviðsstjóri,
Lárus S. Guðmundsson lyfjafræðingur, Jón Óskar Guðlaugsson verkefnisstjóri, Ólafur B. Einarsson sérfræðingur
F R Á E M B Æ T T I L A N D L Æ K N I S 1 7 . P I S T I L L