Læknablaðið - 01.03.2017, Blaðsíða 23
LÆKNAblaðið 2017/103 131
saman. Markmið rannsóknarinnar var að skoða reynslu íslenskra
heimilislækna sem starfað hafa bæði í Noregi og á Íslandi, nýta
reynslu þeirra og þannig stuðla að jákvæðum umbótum í íslenskri
heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Efniviður og aðferð
Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við 16 íslenska heimilislækna sem
störfuðu á Íslandi rannsóknarárin 2009-2010. Fyrsti höfundur tók
öll viðtölin. Allir þátttakendur hlutu sérmenntun sína í heimil-
islækningum í Noregi. Læknarnir höfðu unnið í Noregi í tvö til
tíu ár og starfað í norska fastlæknakerfinu. Viðtölin voru hljóð-
rituð og skrifuð niður og greindu rannsakendur niðurstöðurnar í
sameiningu með aðferðafræði Vancouver-skólans í fyrirbærafræði
(tafla II) sem byggir á því að sérhver manneskja upplifi veröldina
á sinn einstaka hátt og sýn hennar og viðhorf mótist af reynslu
og hvernig hún síðan vinnur úr reynslu sinni. Þetta gerir það að
verkum að aðferðafræðin er talin henta vel til að auka skilning á
mannlegum fyrirbærum og bæta velferðarþjónustu.28 Hvert við-
tal tók um 45-65 mínútur og innihélt margvíslegar spurningar er
vörðuðu persónulega reynslu, skoðanir og athuganir læknanna
varðandi þann mun sem er á heilbrigðiskerfum landanna tveggja.
Rannsóknin var samþykkt af vísindasiðanefnd (VSNb2008080001)
og tilkynnt til Persónuverndar (S3998/2008).
Niðurstöður
Læknarnir ræddu kosti opinbers reksturs, einkarekins og bland-
aðs kerfis. Kostir norska heilbrigðiskerfisins, að mati þátttakenda,
er fyrst og fremst að þar hafa allir landsmenn sinn heimilislækni
og þannig næst góð yfirsýn yfir heilsuvanda fólks. Í Noregi er heim-
ilislæknirinn hliðvörður fyrir sérhæfða læknisþjónustu og það er
góð upplýsingagjöf milli þjónustustiga sem hindrar tvíverknað í
læknisþjónustunni. Samanburðurinn leiddi jafnframt áhugaverðan
mun í ljós, bæði frá sjónarhóli samfélagsins (tafla III) og sjúkling-
anna (tafla IV), svo sem meiri skilvirkni læknaþjónustu í Noregi en
á Íslandi. Það sem einkum einkennir íslenska heilbrigðiskerfið utan
sjúkrahúsa er mikið streymi sjúklinga til sérgreinalækna án tilvís-
ana frá heimilislæknum, ófullkomið skráningakerfi landsmanna
og mikið álag á vaktþjónustur. Vilji þátttakenda til breytinga í ljósi
reynslunnar af starfi í löndunum tveimur er útlistaður í töflu V.
Greining viðtalanna á áherslum þátttakenda af reynslu þeirra
af störfum í löndunum tveimur leiddi jafnframt fjóra meginþætti í
ljós: 1) áherslu læknanna á kosti blandaðs kerfis opinbers reksturs
og einkarekins; 2) samvinnu lækna og annarra heilbrigðisstétta; 3)
skil á milli fyrstu og annarrar gráðu heilbrigðisþjónustu og 4) mik-
ið álag á vaktþjónustu heimilislækna og bráðamóttökur sjúkrahúsa
á Íslandi.
1) Blandað kerfi heimilislækninga
Allir þátttakendurnir undirstrikuðu kosti þess að byggja á
mismunandi launagreiðslufyrirkomulagi til heimilislækna og
blönduðu rekstrarskipulagi í heimilislækningum: ,,ég held að fyrir
heildina væri betra að geta valið á milli … nú eru líka læknarnir misjafnir,
það getur vel verið að það henti einum lækni mjög vel að vera í, eigum við
að segja, afkastahvetjandi kerfi en svo er ekki víst að það henti í Hlíðahverfi
í Reykjavík þar sem allir sjúklingarnir eru gamlir og þú getur hreinlega
ekki tekið jafn stuttan tíma per haus.“
R A N N S Ó K N
Tafla II. Tólf rannsóknarþrep Vancouver-skólans og hvernig þeim var fylgt í þessari rannsókn.
Þrep í rannsóknarferlinu Það sem gert var í þessari rannsókn
Þrep 1. Val á samræðufélögum (úrtakið - sampling). Allir heimilislæknar á Íslandi sem einnig höfðu starfað í Noregi á síðustu 10 árum,
samtals 16 læknar (Total sample).
Þrep 2. Undirbúningur hugans (áður en samræður hefjast - silent reflection). Fyrirframgerðar hugmyndir voru ígrundaðar og settar meðvitað til hliðar.
Þrep 3. Þátttaka í samræðum (gagnasöfnun - data collection). Eitt viðtal við hvern þátttakanda, samtals 16 viðtöl.
Þrep 4. Skerpt vitund varðandi hugmyndir og hugtök (beginning data-analysis). Hugmyndum komið í orð. Unnið var samhliða að gagnasöfnun og
gagnagreiningu.
Þrep 5. Þemagreining (kóðun - coding). Leitast var stöðugt við að svara spurningunni: Hver er kjarninn í því sem þessi
þátttakandi er að segja? Greind voru bæði megin- og undirþemu.
Þrep 6. Að smíða greiningarlíkan fyrir hvern þátttakanda
(construction of individual analytic frameworks).
Meginþemun í sögu hvers þátttakanda voru dregin fram og þau mikilvægustu
sett fram í greiningarlíkani fyrir hvern og einn.
Þrep 7. Staðfesting á hverju greiningarlíkani með viðkomandi þátttakanda
(individual verification).
Staðfestingar var leitað hjá fjórum þátttakendum, hjá þremur símleiðis og fundað
með einum.
Þrep 8. Heildargreiningarlíkan er smíðað úr öllum einstaklings-
greiningarlíkönunum (final analytic framework constructed).
Öll einstaklingsgreiningarlíkönin voru borin saman innbyrðis og smíðað
heildargreiningarlíkan.
Þrep 9. Heildargreiningarlíkanið borið saman við rannsóknargögnin (rituðu
viðtölin) (comparison of the final analytic framework with the
research data).
Til að tryggja þetta voru öll viðtölin lesin yfir aftur og borin saman við
heildargreiningarlíkanið.
Þrep 10. Meginþema sett fram sem lýsir fyrirbærinu (niðurstöðunum) í hnotskurn
(construction of the study‘s main theme).
Heimilislækningar á Íslandi og í Noregi: Reynsla lækna af ólíku fyrirkomulagi
heilbrigðisþjónustu í löndunum tveimur.
Þrep 11. Staðfesting á heildargreiningarlíkani og meginþema með einhverjum
þátttakendum (final verification).
Staðfestingar var leitað hjá einum þátttakanda sem gaf gagnlegar ábendingar.
Þrep 12. Niðurstöður rannsóknarinnar skrifaðar upp þannig að raddir allra
heyrist (multivoiced reconstruction).
Vitnað var beint í þátttakendur til að auka trúverðugleika rannsóknarinnar og
sýna að niðurstöður byggja á orðum þátttakenda.