Feykir


Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 15

Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 15
2010 1 5 Það var orðið stutt til jóla. Jörð hafði verið alauð og flestir höfðu búist við rauðum jólum. Veðurfarið var engan veginn líkt því sem búast má við í desember. Það hafði meira að segja rignt töluvert. Satt að segja var veðrið líkara því er búast mátti við að vori til. En nú hafði jörðin breytt um svip. Snjókornin komu svífandi úr loftinu, hægt og settlega, rétt eins og til að gera jólalegri blæ á umhverfið. Það var komið dálítið föl og snjókornin héngu á greinum trjánna. Hjá mannfólkinu var allur jólaundirbúningur í hámarki. Það var mikil ös í verslunum. Auglýsingar glumdu í útvarpi og sjónvarpi á öllum stöðvum. Það var svo margt sem þurfti að selja og það sem var á boðstólnum hjá hverjum og einum var auðvitað best. Það eru ekki einungis gjafir og kort sem fólk þarf að kaupa fyrir jólin. Jólaföt á fjölskylduna, jólamaturinn og eitthvað í jólabaksturinn. Og allt er svo dýrt og kreppa í landinu. En þegar veskið er svo til tómt, og flest af þessu vantar, þá er ekki um margt að velja. Fá sér aukna heimild á vísakortið eða hækka yfirdráttinn. Ekki er það samt vænlegur kostur, því allir vita að það kemur að skuldadögum. Og hver vill spilla jólagleðinni með peningaáhyggjum? Áreiðanlega enginn, og margir reyna að treina það litla sem í buddunni er í lengstu lög. Oft hafði nú ástandið verið slæmt en þessi jólin leit út fyrir að margir stæðu með tómar buddur fyrir jólin, hvað þá þegar nýtt ár gengi í garð. Þannig var ástandið hjá þeim Pálma og Önnu, nú er fæðingarhátíð frelsarans stóð fyrir dyrum. Þau bjuggu í leiguíbúð og voru að byggja. Allir vita hve óyfirstíganleg sú staða er í dag, og það var því ekki að undra þó jólin yrðu þeim ærið áhyggjuefni. Þau voru ákveðin í að eyða sem minnstu. En það var svo margt sem ekki var gott að komast hjá. Hvað sem tautaði og raulaði þá yrðu þau að kaupa almennilega jólagjöf handa Jóa litla. Þó að hann væri ekki nema fjögurra ára, þá bar hann heilmikið skin á það, hvað var merkilegt og hvað ekki. Það virtist vera svo ótrúlega margt sem börnin spjölluðu um á leikskólanum. Þó Anna reyndi eins og hún gat að útskýra fyrir honum að bláu vettlingarnir sem amma Rósa gaf honum á afmælinu væru alveg jafn merkilegir og kúrekafötin sem amma Hlín gaf honum, þá kom allt fyrir ekki. Anna mundi vel hvað hann hafði sagt: -- Iss, amma Ósa prjóntaði bara en amma Lín kaupti í flottu búðinni. Það var ekki svo auðvelt að ala upp barn, eins og kröfurnar voru orðnar. Furðulegar kröfur á tímum þar sem nægjusemin og gleði yfir hinu smáa ættu að ráða ríkjum. Það var ekki svo auðvelt að útskýra að það væri ekki gjöfin sem skipti máli, heldur hugurinn sem fylgdi. Það var heldur ekki gaman að útskýra það að allt þetta ,,flotta" væri svo dýrt að pabbi og mamma gætu ekki keypt neitt af því. Anna var því ákveðin í að splæsa svolítið á hann í þetta sinn. Svo mikið þekkti hún Jóa sinn, að hann yrði lengi að ná sér eftir það, ef hann yrði að viðurkenna fyrir vinum sínum að jólagjöfin frá pabba og mömmu hefði verið algjört “prump”. Það var komið kvöld. Jólin nálguðust ískyggilega svo Anna og Pálmi urðu að nota frítíma sinn vel. Það varð að gera hreint, taka allt í gegn og baka dálítið. Gera dálítið jólalegt. Jói hafði verið óvenju rellinn, það var eins og pabbi og mamma gætu alls ekki gert honum til geðs. Leiðinlegt í sjónvarpinu, á báðum stöðvunum. Hann vildi heldur ekki horfa á video. Þar var ekkert nema gamlar spólur, sem hann var búinn að horfa hundrað sinnum á. Það var helst að horfa á auglýsingarnar, en það voru svo margar leiðinlegar auglýsingar með. Skemmtilegust var Coke auglýsingin og svo þær sem sýndu nýju leikföngin. Jói vildi alls ekki fara að sofa. Þetta var leiðinlegt líf. Mamma var að baka kökur sem ekki mátti borða og pabbi varð æfur ef hann sullaði í skúringafötunni. Anna leit á Jóa og andvarpaði. Það yrði þokkalegt næsta morgun. Hún var nógu þreytt á að vakna og mæta í þessa ömurlegu búð, þó Jói yrði ekki snarvitlaus á leiðinni á leikskólann. Það kom oft fyrir að hann var mjög ergilegur á morgnana ef hann fór ekki snemma að sofa. --Æi, Pálmi. Viltu reyna að koma honum í rúmið. Við getum hjálpast að við baðið þegar hann er sofnaður. --Ókey. Pálmi henti frá sér tuskunni og kallaði á Jóa. Því gat strákskömmin ekki verið til friðs. Það hafði verið erfiður dagur hjá Pálma á verkstæðinu. Úrillir viðskiptavinir sem vildu fá meira fyrir peningana sína. Það hafði reynt á þolinmæðina að þrauka daginn með bros á vör. Pálma fannst að hann þyldi alls ekki meira. -- Jói, komdu og þvoðu þér og svo beint í rúmið. Pálmi var svo höstugur að Jói dauðhrökk við. Hann þorði ekki annað en flýta sér fram á baðið. Það var betra að hlýða strax, þegar svona lá á pabba. Anna kallaði: --Vertu nú góður drengur Jói minn. Settu skóinn þinn í gluggann, þá kemur jólasveinninn kannski með eitthvað gott handa þér. Dyrabjöllunni var hringt. Pálmi bölvaði. Hann vonaði að það væru ekki gestir að koma, það var nú nóg samt. Anna fór til dyra. Lítil telpa stóð í dyrunum. --Góða kvöldið, við erum að fara í hús og taka baukana fyrir Hjálparstofnum kirkjunnar. Anna andvarpaði. Jú, það hafði víst einhver baukur komið. Hún vissi ekki einu sinni hvar hann var. Líklega hafði Jói verið að leika sér með hann. Það skipti heldur engu máli, því hann var tómur. Þau áttu heldur enga peninga aflögu til að gefa í þessar safnanir. Hún brosti til telpunnar. -- Því miður vina mín. Við höfum víst nóg með peningana að gera, annað en gefa þá. Vonbrigði telpunnar leyndu sér ekki. --Það eru svo margir sem segja þetta, en prest- urinn segir að allir hljóti að eiga fáeinar krónur handa fátæka fólkinu. Það á svo bágt. -- Því miður. Anna ætlaði að loka, en um leið kom Jói hlaupandi fram. --Mamma, hver er idda? Er hún að taka pening handa svanga fólkinu? --Já. Jói togaði í mömmu sína. -- Mamma, ég vill gefa minn pening. --Láttu ekki svona. Telpan hætti við að snúa frá. --Víst, mamma. Ég á fimmhundruð kall sem amma Lín gaf mér. Svöngu börnin mega eiga ann. Jói var svo ákveðinn að Anna var á báðum áttum. Hún mátti ekki letja drenginn í því að gera góðverk. Þetta var kannski ekki svo galið. Og ef Jói var tilbúinn að sjá á eftir pening sem hann annars hefði keypt sælgæti fyrir, þá gat vel verið að þau gætu séð af einhverjum aurum sjálf. --Pálmi. Hann kom fram og leit á telpuna. -- Nú er hún hér ennþá. Hann hafði heyrt ávæning af samtalinu. -- Pálmi, við eigum smá pening. Hann leit hugsandi á Önnu. Var hún að verða vitlaus? Þau höfðu löngu ákveðið að sleppa öllu svona. Þetta gekk ekki. Fólk gat hreinlega farið á hausinn ef það átti að borga öll happdrættin og allt sem reynt var að sníkja fyrir jólin. Jói hafði hlaupið inn og kom nú hróðugur með fimmhundruðkrónuseðilinn í hendinni. Hann rétti hann til telpunnar. -- Takk. Anna var enn á báðum áttum. -- Bíddu aðeins, vinan. Svo fór hún inn og kom að vörmu spori með veskið sitt í hendinni. -- Hérna eru þúsund krónur. Telpan ljómaði. --Takk, takk. Nú verður presturinn glaður. Hann bíður úti á meðan við bönkum uppá. Hann segir að ef fólk vilji láta örlítið af hendi , þá bjargi það mörgum mannslífum. Það er örugglega slæmt að deyja úr hungri. Svo er það líka í anda jólanna að gefa með sér. Telpan fór. Jói flýtti sér í rúmið. Hann var svo ánægður, af því hann hafði gefið svöngu börnunum peninginn sinn. Hann var líka viss um að amma Lín gæfi honum annan pening, þegar hann segði henni hvað hann hafði verið góður strákur. Pálmi og Anna héldu áfram við jólaundirbúninginn, en það var einhvernvegin léttara nú. Þegar allt kom til alls, þá hafði þessi heimsókn glatt þau. Þó upphæðin væri ekki mikil þá leið þeim nú betur eftir að hafa gefið hana.Vonandi kæmu þessar þúsund krónur til góða. Og fyrir þau þá breytti þetta ekki öllu. Jólin kæmu og færu hvort sem það væri þúsund krónum meira eða minna í veskinu. Jólasaga Töfrakvenna Brauð handa hungruðum heimi

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.