Feykir


Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 19

Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 19
2010 1 9 Ég skal viðurkenna að ég leita eftir langömmu í skáldverkunum enda var hún kona sem lét ekki mikið uppi og vildi lítið hafa sig og sitt í frammi. Í viðtölum við Guðrúnu kemur fram að bústörfin hafi ekki þolað skriftir og því hættir hún öllum ritstörfum í tæpa þrjá áratugi, en bíðum við - það er skýring sem breytist eftir því sem Guðrún eldist og fer að játa á sig skriftirnar. Hún fer að stelast við þá iðju sem hún kallar pár, klór og söguvitleysur. Nýlega heyrði ég frásögn sem höfð er eftir Sigþrúði Friðriksdóttur frá Valadal eða Dúu sem bjó síðar á Gili í Svartárdal og sem ég þekkti enda búa foreldrar mínir á næsta bæ, Skeggsstöðum. Dúa var fengin, 16 ára gömul, til að vera hjá Guðrúnu að Valabjörgum þegar hún átti von á sínu þriðja barni, Marínu ömmu minni. Jón Þorfinnsson maður Guðrúnar var smiður og sjaldnast heima og það kom því í hennar hlut að sjá alfarið um búskapinn, börnin og heimilið. Þetta var árið 1920 og Guðrún hefur því verið 34 ára. Dúa sagði frá því að á heimilinu hafi allur umbúðapappír og hvert bréfsnifsi sem fyrirfannst verið útskrifað og að þetta hafi Guðrún haft hjá sér í kringum pottana. Guðrún vill þó greinilega halda þessu öllu leyndu en segir sem gömul kona í viðtali: „Nú og síðustu árin sem ég bjó, þegar krakkarnir voru uppkomnir, þá fór ég að stelast þetta. En lét ekki nokkurn mann vita. (Vísir 23. nóvember 1970) Og glittir ekki greinilega í skáldkonuna í Hjálmari á Hraun- hömrum þegar Sigurfljóð spyr hann hvort hann sé skáld: „Það held ég sé ekki..nema ef það heitir skáldskapur að skrifa upp og auka við alls konar kynjasögur, sem gömul kona sem var heima sagði mér.“ Samtalið heldur áfram og Sigurfljóð spyr hvort hann hafi virkilega eyðilagt sögurnar: „Hver skildi halda svoleiðis rugli saman? Ég brenndi það allt einu sinni, þegar mér var farið að ofbjóða hvað það var fyrirferðamikið. Þá rauk mikið upp í hömrunum.“ Það er sjálfsagt ekki tilviljun að hér er það karlmaður sem talar. Guðrún er alltaf að skrifa aftur fyrir sig í tíma og mín tilgáta er að það hafi verið óhugsandi að kona léti slíkt uppi. Það styður tilgátuna að síðar segir sama persóna í sömu sögu og er hér talað um Gunn- hildi Hjálmarsdóttur: „Aumingja mamma, hún hefur lent á rangri hillu í lífinu. Helst hefði hún viljað lesa bækur og skrifa niður hugsanir sínar í bundnu og óbundnu máli, en þær hefur hún aldrei látið nokkurn mann heyra, nema mig.“ (Tengdadóttirin). Meðal íslenskra stórskálda Mikið hefur verið rætt um viðtökur verka Guðrúnar og að þeim hafi verið tekið með kostum og kynjum. Er þá iðulega stillt um andstæðunum lesandinn og fræðimaðurinn. En ég hef komist að því að skrifin um bækur Guðrúnar voru ekki eins neikvæð og haldið hefur verið á lofti. Um Dalalíf birtust átta ritdómar, þótt tveir þeirra geti vart talist annað en ritfregnir. Þessi fyrstu viðbrögð birta það sem lengi vel endurómaði í umfjöllun um bækur Guðrúnar og gerir jafnvel enn. Ritdómendur sögðu flestir söguna góða en of langa, - talað var um breiða þjóðlífslýsingu og heimildagildi sögunnar. Ólafur Jónsson og Helgi Konráðsson skrifuðu um sagnfræði verksins. Kristmann Guðmundsson skrifar í Morgunblaðið 7. desember 1949: „Þetta er þjóðlífssaga, -en af allra bestu og skírustu tegund, sem nálgast hinn mikla skáldskap svo, að oft eru mörkin lítt greinanleg“. Ef vel er skoðað eru ritdómar um Dalalíf þó ekki neikvæðir og sumir lofa verkið enda enn sem komið er engin hætta á ferðum. Það varð hins vegar alvarlegra á 7. áratugnum þegar ljóst var að þjóðin lá í bókum Guðrúnar og að kerlingin ætlaði aldrei að hætta að skrifa. Marín Guðrún Hrafnsdóttir, langömmubarn Guðrúnar frá Lundi, skrifar Guðrún langamma Guðrún frá Lundi var afkastamikill rithöfundur enda þótt hún væri orðin 59 ára þegar fyrsta verk hennar kom út. Hún skrifaði alls tæpar 10.000 blaðsíður í 27 bindum skáldverka og sló hvert lestrar- og sölumetið af öðru. Bækur hennar njóta enn vinsælda og kom það vel í ljós í sumar þegar blásið var til málþings um skáldkonuna í félagsheimilinu Ketilási í Fljótum. Mikill áhugi greip um sig og hvar sem maður fór var kvartað undan því að bækurnar væru ófáanlegar og langar pantanir á bókasöfnum, sértaklega átti þetta við um Dalalíf. Það er óneitanlega sérstakt að ríflega 60 ára gömul skáldrit séu í pöntun á bókasöfnum og segir sitt. Stimpillinn sem Sigurður A. Magnússonar setti á skáldkonuna virðist afar sterkur, höfuðskáld kerlingabókmenntanna. Þessu mótmælti að vísu höfuðskáldið Halldór Laxness og sagði Guðrúnu tilheyra svokölluðum ævintýrakellingum sem lengi hefðu fylgt þjóðinni og sagt henni sögur. En stimpillinn var kominn og greyptist einhvern veginn í þjóðarminnið, enn í dag hittir maður fólk sem aldrei hefur lesið staf eftir skáldkonuna en telur sig þó þess umkomið að líta niður á verk hennar. Mér hefur alltaf fundist það stórfurðulegt. Þótt Guðrún yrði fyrir harðri gagnrýni á 7. áratugnum hafði það lítil áhrif á störf hennar og engin á vinsældir skáldsagnanna. Þorsteinn M. Jónsson skrifar í Tímann 1957 og ég held að þá strax hitti hann naglann á höfuð- ið. Þetta með vinsældirnar var og er ekki svo flókið: „mun hinn glöggi skilningur skáldkonunnar á mönnum, er hún hefur kynnst, vera frumorsök þess að bækur hennar eru meira lesnar en flestra annarra rithöfunda hér á landi. ... Ástæðan fyrir því að bækur Guðrúnar frá Lundi eru mikið keyptar og mikið lesnar, er fyrst og fremst sú, að lesendum þykja þær skemmtilegar. Þær eru skrifaðar á léttu og tilgerðarlausu máli. En snilli hennar sem sagnaskálds rís hæst í mannlýsingum hennar. Þar fatast henni sjaldan.„ Hann segir síðan í niðurlagi greinarinnar: „Út á flest mannleg verk má eitthvað telja, og það með rökum. Svo er og um sögur Guðrúnar frá Lundi. En þrátt fyrir það mun meirihluti þjóðarinnar og flestir lesendur bóka hennar skipa henni sess meðal íslenskra stórskálda.“ (Tíminn, 1. nóv. 1957). Peningar Guðrúnar fóru annað Erindi mitt í sumar í Ketilási hét Er Guðrún frá Lundi langamma þín? Og var þannig til komið að í gegnum árin hef ég fengið að heyra þessa spurningu með svo ólíkum hætti, sumir eru upprifnir og segja mér allt um hversu mikið þeir hafa lesið, hvað bækurnar séu stórkostlegar og að það verði nú að fara að gera eitthvað til að minnast þessarar stórkostlegu konu, aðrir eru minna hrifnir. En það merkilega er að nær allir hafa einhverja mynd af Guðrúnu frá Lundi, höfundarnafnið er gríðarlega sterkt í vitund fólks. Það man kannski einhverja umræðu og því fylgja þessari spurningu Er Guðrún frá Lundi langamma þín? afar mismunandi tilfinningar og hugmyndir. Og enn dúkkar hún upp – nú síðast í tengslum við afar undarlega stuttfrétt eftir Reyni Traustason í DV. Þar pirrast Reynir út í Jón Kalmann Stefánsson sem hafði sagt DV stunda tilfinningaklám. Það þolir Reynir illa og segir Jóni til háðungar: „Jón hefur á ferli sínum uppskorið vegleg listamannalaun og margvíslegan heiður fyrir bækur sem sumpart eru tilfinningalegs eðlis. Meðal fjölmargra aðdáenda hans eru einhverjir sem vilja meina að hann haldi hátt á lofti kefli Guðrúnar frá Lundi og sé verðugur arftaki alþýðuskáldsins.“ (DV 12. október 2010). Verulegur broddur í þessu, ekki satt og hér er verið að hæðast að tveimur rithöfundum. Annar notaður sem svipa á hinn. Undarleg vörn hjá DV en eitt er þó víst að Guðrún hlaut aldrei peningalega viðurkenningu á sínum ferli, utan einu sinni er hún fékk úthlutað 100.000 krónum úr rithöfundasjóði, þá orðin háöldruð. Einhverjir tóku eftir því að sitthvað var bogið við þetta og Indriði G. Þorsteinsson skrif- aði fræga grein í Tímann undir heitinu Peningar Guðrúnar frá Lundi (6. október 1968). Þá orti Vilmundur Jónsson, landlæknir ansi hreint skemmti- lega vísu þegar hann sá mynd í Morgunblaðinu árið 1969 af rithöfundunum Hannesi Péturssyni, Guðmundi Hagalín, Þórbergi Þórðarsyni og Thor Vilhjálmssyni þar sem þeir skáluðu í kampavíni eftir að hafa fengið úthlutað styrkjum úr rithöfundasjóði, - en þá komu tekjur sjóðsins af útlánum á bókasöfnum og enginn komst nálægt Guðrúnu í fjölda útlán- aðra eintaka: Vengir, heiðraðir, verðlaunaðir, vígðir á helgum fundi, skálum bræður og bergjum glaðir blóð úr Guðrúnu frá Lundi Það er kominn tími til að því að sýna Guðrúnu Árnadóttur frá Lundi þá virðingu sem henni ber. Það er hugur í mörgum og hefur verið rætt um endurútgáfu á verkum hennar, kvikmyndir, þáttaraðir og minnisvarða. Marín Guðrún Hrafnsdóttir Fjölmennt málþing var haldið í sumar. Guðrún ásamt greinarhöfundi (fyrir miðju) og systur hennar

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.