Feykir


Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 31

Feykir - 25.11.2010, Blaðsíða 31
2010 3 1 Sígildur jólamatur Rjúpan Rjúpa sem jólamatur er eins og svo margir rammíslenskir siðir ekki kominn frá íslenskum óðalsbændum eða þýskum eða dönskum aðalsmönnum heldur beint frá sótsvörtum íslenskum almúganum sem hafði ekki efni á að slátra jólalambinu og sendi því afa upp í fjall að skjóta nokkrar rjúpur í staðinn. Í dag getur ekki hver sem er komist yfir rjúpu sem nú þykir fínn jólamatur. Jólarjúpan Rjúpa lámark 1 á mann Beikon a.m.k. 3-4 lengjur fyrir hvern fugl. Þurrkaðar sveskjur og þurrkuð epli eftir smekk, frekar meira en minna, og sláturgarn til að binda rjúpuna saman. Rjúpan, sem er fryst í hamnum, er látin þiðna í sólarhring og hamflett daginn fyrir eldun. Sett í kalt vatn ásamt hjarta og fóarni (sem er efri hluti magans), það er skorið í sundur og hreinsað úr því lyng og lauf. Þetta er látið liggja í vatninu til næsta dags, þá er hún tekin, skoluð og hreinsuð vel að innan. Passa að ná öllu gumsinu sem er við hrygginn, síðan er hún þerruð. Inn í hana er sett þurrkuð epli, sveskjur, hjarta og fóarnið.(Fylla alveg í skipið). Ein beikonlengja er skorin í tvennt, skornar raufir í bringuna sitt hvoru megin við bringubeinið og sinn hvorum helmingnum af beikon- sneiðinni stungið í rifurnar. Síðan er rjúpan brotin saman þannig að lærunum er stungið inn í skipið þá lokast hún alveg og er þá eins og kúla. Þrjár lengjur af beikoni eru lagðar yfir skipið og alltsaman bundið saman með því að vefja sláturgarni utanum kúluna. Rjúpunum er raðað í svartan steikarpott, vatn sett í pottinn (ca. 2cm) og inn í 200° heitan ofn, hitinn síðan lækkaður í 180°og látin vera í ca. 2 tíma. Soðið úr pottinum er síað frá og notað í sósu sem er bragðbætt með rjóma og jafnvel rifsberjasultu. Rjúpa er tekin úr pottinum, spott- arnir klippir sundur og teknir af rjúpnabögglinum og raðað á fat. Borið fram með brúnuðum kar- töflum og góðu salati (t.d Waldorf salat). Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu. En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar. En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum. Þetta hefur ekki úr skorðum skeikað né heldur hitt að fálkinn ofsæki hana, drepi og éti, og kennir hann þess ekki fyrr en hann kemur að hjartanu í rjúpunni að hún er systir hans enda setur þá að honum svo mikla sorg í hvert sinn er hann hefur drepið rjúpu og étið hana til hjartans að hann vælir ámátlega lengi eftir. (Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands) Þjóðsagan um rjúpuna

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.