Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.01.2018, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.01.2018, Blaðsíða 17
meinsfélag og biðja um sérskoðun. En ég fékk neitun af því að ég var svo ung,“ segir Edda Björk og útskýrir að hún hafi viljað fá brjósta- skoðun vegna verkja. „Ég var alltaf með verki í brjóstinu. Ég átti stelpuna mína þegar ég var 28 ára og eftir það var ég með verki. Svo hafði ég verið með sár á geirvörtunni í tæpt ár sem greri en kom svo aftur. Og það vætlaði úr því. Það endaði með því að mamma hringdi í þau og sagði að sér væri alveg sama hvað þetta kost- aði, hún mundi borga þetta. Þannig að ég fór í skoðun 18. júní, 2014 og ég labbaði út með greiningu. Viku seinna hitti ég brjóstaskurð- lækni og var komin í brjóstnám 15. júlí. Svo beint í lyfjameðferð. Ég var rúmt ár í lyfja- meðferð, þar til haustið 2015. Það var rosalega langur tími en svo var ég útskrifuð úr því,“ segir Edda Björk. Breiddist út til heilans Því miður var hennar þrautagöngu ekki lokið því í október 2016 fann Edda Björk að eitlarnir í hálsinum virtust bólgnir. „Ég talaði við hjúkrunarfræðing og hún sagði mér að láta kíkja á þetta. Ég gerði það og var send beint í myndatökur og þá kom í ljós að ég var komin með meinvörp í lungu, lifur, hrygginn og eitl- ana. Það hafði breiðst út á mjög skömmum tíma,“ segir Edda Björk sem fór í lyfjameðferð á ný. Veturinn leið og meinin minnkuðu og Edda Björk dreif sig norður til Akureyrar um sum- arið þar sem hún fór á fjallahjól í Hlíðarfjalli, en hún hefur aldrei gefið áhugamálin upp á bátinn þrátt fyrir veikindi. „Þá dett ég af hjól- inu og er send með sjúkrabíl upp á spítala því þeir þorðu ekki að taka áhættu vegna hryggj- arins. Þar er ég sett í sneiðmyndatöku og ég segi í gríni, hafið ekki áhyggjur ef þið sjáið eitthvað á myndinni, ég er með krabbamein þarna, þarna og þarna. Svo kemur hjúkrunar- fræðingurinn til mín og spyr: fyrirgefðu, hvar varstu aftur með meinin? Og ég taldi það upp, í hryggnum, í lungum, lifur og eitlum. Hún spurði mig: ekkert í höfðinu? Nei, svaraði ég. Hún sagði mér að myndirnar gætu verið óskýrar en að ég þyrfti að tala við lækni. Og þá kom í ljós að ég var komin með heilamein í við- bót. Sem hafði komið á tveimur mánuðum, því ekkert hafði sést í síðustu rannsóknum,“ segir Edda Björk. „Það var kannski lán í óláni að hafa dottið þarna því annars hefði þetta ekki greinst svona snemma. Ég hefði átt að koma í rannsókn tveimur mánuðum eftir þessa byltu og það veit enginn hvernig staðan hefði verið orðin þá.“ Edda Björk ræðir um veikindin á yfirveg- aðan hátt og það er ekki að heyra á henni vor- kunnsemi né uppgjöf. Hún talar um þessar staðreyndir sem ekki verða umflúnar og segir hlutina umbúðalaust. „Þetta er baráttan í dag, þau eru enn að stækka. Ég var hjá lækninum í morgun og það verður skipt um lyf eftir hálfan mánuð. Hin meinin, eins og í lungunum, eru nánast horfin en það á eftir að rannsaka lifrina aðeins betur. En það lítur mjög vel, við erum að reyna að setja beisli á heilameinin og halda þeim í skefj- um,“ segir hún en meinin í höfðinu eru fimm talsins. „Það er ansi mikið á þig lagt,“ verður blaða- manni á orði. „Þetta er svolítið mikið. Svo ligg ég inni núna af því að ég fékk svæsna lungnabólgu of- an í þetta allt saman.“ Björgunarsveitarstarf er lífsstíll Edda Björk hefur unnið síðustu ár hjá Slysa- varnafélaginu Landsbjörg. „Ég hef verið í björgunarsveit í átján ár, í gegnum þetta allt saman. Ég er í raun alin upp við þetta en for- eldrar mínir voru starfandi í björgunarsveit og eru enn með puttana í þessu. Bróðir minn líka. Þetta er lífsstíll og ég er enn að starfa eftir minni getu. Ég þekki mín takmörk ágætlega. Það er fullur skilningur í sveitinni fyrir því,“ segir Edda Björk sem starfar með Hjálpar- sveit skáta í Garðabæ þar sem hún býr. Edda Björk segir starfið í björgunarsveit gefa sér mikið. Henni finnst gaman að hjálpa öðrum og eins sé vinskapurinn sem þar mynd- ast ómetanlegur. „Minn vinahópur er í þessu þannig þetta er líka félagslega lífið mitt. Árið 2015 réð ég mig í Björgunarskólann sem starfsmaður og er þar enn. Ég hef nú minnkað vinnuna niður í 60%,“ segir hún en henni finnst nauðsynlegt að vera úti á vinnumarkaðinum. „Ég er búin að prófa það að sitja heima og gera ekki neitt. Og ég hef prófað að vera á vinnu- markaðinum, og þetta er bara svart og hvítt. Vinnuveitendur standa 140% við bakið á mér,“ segir hún. Markmiðið að njóta „Ég hef verið með það markmið að gera allt sem ég er vön að gera en það tekur kannski að- eins lengri tíma. Hvaða máli skiptir hvort mað- ur er 45 mínútur að ganga upp fjall eða einn og hálfan tíma? Þú kemst þangað upp. Það tekur kannski aðeins meiri toll, en ég kemst þetta samt,“ segir hún. Þegar blaðamaður spyr hvort hún sé í alvöru að stunda fjallgöngur, svarar hún hógvær: „Fjallgöngur og ekki fjallgöngur, ég labba al- veg á Helgafell og Úlfarsfell og upp í Esjuna. Það er misjafnt eftir dögum hvað ég get mikið, en þegar ég er best get ég það. Ég hleyp ekki upp á Esjuna á klukkutíma eins og ég gerði. Ég á mjög sterkan vinahóp og við erum á fjallaskíðum og fjallahjólum. Þegar ég fer með erum við öll að njóta en ekki þjóta. Og það er markmiðið,“ segir Edda Björk. „Ég tók þátt í WOW cyclothon í fyrra og það gekk vel. Við vorum tuttugu manna hópur sem tengdumst öll krabbameini á einn eða annan hátt. Liðið okkar hét Fuck Cancer. Við fórum þetta á gleðinni. Við ákváðum strax að við vær- um ekki í keppni. Við stoppuðum bara í jarð- böðunum á Mývatni og fórum oft í sund, og héldum svo áfram. Þegar brjálaða veðrið kom á Austurlandi settum við hjólin upp á bíl og keyrðum. Við vissum að það var búið að dæma okkur úr leik en markmiðið var bara að klára,“ segir Edda Björk og brosir að minningunni. Ætla ekki að stoppa Vitanlega taka svona veikindi á andlega og Edda Björk hefur ekki farið varhluta af því. „Ég er með rosalega góðan sálfræðing sem hjálpar mér. Við höfum farið í gegnum allan til- finningaskalann. Það koma upp stundir þegar þetta er mjög erfitt en ég segi alltaf að við fáum ákveðin spil á hendi í lífinu en það er okkar að spila úr þeim. Ég hef ákveðið að spila úr þeim þannig að vera ekki að kveinka mér eða gráta. Ég auðvitað græt stundum, en ég á mjög erfitt með þetta: aumingja þú. Ég þoli það mjög illa. Það eru rosa margir sem kalla mig hetju, og jú kannski er ég hetja í þeirra augum, en fyrir mér er þetta ekkert val. Ef ég ætla að gefast upp, þá er ég bara farin. Þannig að hvort sem þetta er hetjuskapur eða bara það að halda áfram, þá veit ég að ef ég stoppa er þetta búið. Og ég ætla ekkert að stoppa,“ segir hún. „Ég hef aldrei orðið reið. Ég hef orðið sár og döpur, en ekki reið. Það er svo mikil orka sem fer í reiðina og ég vil frekar nýta þá orku til gera eitthvað uppbyggilegt fyrir sjálfa mig. Ég er komin á þann stað að mig langar að njóta en ekki þjóta og ég tek hverjum degi eins og hann er.“ Gengur þér vel að halda í jákvæðina? „Alveg ótrúlega. Mínir nánustu, fjölskylda mín og þrír, fjórir góðir vinir fá allan pakkann. Restin fær að sjá yfirborðið. Mér finnst það fínt. Ég skrifa reglulega færslur á Facebook til að upplýsa fólk og þá um leið minnkar áreitið á fjölskylduna. Ég er með mjög svartan húmor og oft er það svo að fólk hristir bara höfuðið. Stundum kem ég með smá kaldhæðinn húmor inn í þetta, þannig að fólk bæði hlær og græt- ur. Ég held að það hafi hjálpað mikið. Ég set oft hlutina fram með myndlíkingum. Nú er ég að ganga á fjall og það hafa fallið tvö snjóflóð og það hægir á ferðinni á toppinn.“ Dýrmætar gæðastundir mikilvægar Edda Björk á sterkt bakland í foreldrum sínum, þeim Láru Björnsdóttur og Gunnari Sæmunds- syni og bróður sínum, Birni Jóhanni Gunnars- syni. Edda Björk á eina stúlku, Fanneyju Ósk Eiríksdóttur, sem verður sjö ára í mars. Hún og barnsfaðirinn eru skilin en halda góðum vinskap og búa í sama hverfi. Hún segist meta allar gæðastundir með fjölskyldu og vinum mun bet- ur en áður. Dóttirin er að sjálfsögðu í fyrsta sæti og stundirnir með henni dýrmætar. „Eins og það að sitja uppi í spítalarúmi með dóttur minni að spila, það er gæðastund að mínu mati. Eða að eiga kósíkvöld með henni, en við erum ekki endilega að horfa á sjón- varpið, stundum liggjum við á gólfinu að spila eða teikna. Við erum að njóta þess að vera saman. Og vonandi skilur það líka eitthvað eft- ir fyrir hana, ég vil ekki að hún muni eftir mömmu sinni veikri í sófanum. Frekar að hún hugsi, mamma var veik en við gerðum samt margt skemmtilegt!“ Edda Björk segir að þau foreldrarnir hafi ekki haldið Fanneyju Ósk utan við veikindin. „Við tókum þá ákvörðun að hafa hana upplýsta en auðvitað veit hún ekki allt. Þegar ég greind- ist með meinin í höfðinu settumst við niður með henni og sögðum henni frá því. Og sögðum að læknarnir ætluðu að gera sitt allra besta til þess að ná þeim í burtu. Ég sagði henni að ég myndi missa hárið og það var í marga mánuði sem hún vildi að ég myndi ganga með klút á höfðinu. Og þá gerði ég það bara. En hún tekur þessu ótrúlega vel en veltir hlutunum mikið fyr- ir sér. Hún er mjög þroskað barn miðað við ald- ur en við erum ekki að halda þessu að henni. Við svörum ef hún spyr. Eitt svarið sem ég gef henni er að við munum öll deyja, við vitum ekki hvenær. Hvort það verði í dag eða á morgun. En í dag er ég lifandi og ætla að halda því áfram á morgun,“ segir Edda Björk. Hugsar þú mikið um dauðann? „Nei. Hann er þarna. Við munum öll deyja. Ég hræðist hann ekki.“ Lífið er áskorun Talið víkur að herferðinni sem Edda Björk tekur nú þátt í. Hún nær í plakat af uppistand- aranum og sjónvarpsmanninum Sóla Hólm og sýnir blaðamanni. „Við vorum fengin 22 til að taka þátt í þessari herferð. Þetta kemur öllum við. Hvert og eitt okkar átti að koma með slagorð sem væri tákn- rænt fyrir okkar eigin baráttu,“ útskýrir hún og bendir á plakatið þar sem Sóli heldur á skilti sem á stendur skrifað: Aldrei horfa á krabba- meinssjúkling eins og hann sé að deyja. „Ég er svo hjartanlega sammála honum, þetta er það versta sem hægt er að gera. Mín setning er: Lífið er áskorun, njóttu þess,“ segir hún. „Það er verið að safna fyrir Kraft. Í fyrra voru perluð appelsínugul armbönd en ár eru þau svört. Fjórða febrúar lýkur átakinu í Hörpu þar sem fólk getur komið saman og perlað arm- bönd,“ segir Edda Björk og bætir við að hægt sé að kaupa armbönd og fá send heim á kraftur.org. Það er ýmislegt á döfinni hjá Eddu Björk, þessari jákvæðu og kraftmiklu konu. Og þótt hún telji sig ekki hetju, er alveg ljóst að hún er góð fyrirmynd, jafnt fyrir veika sem fríska. „Við ætlum ekki að hjóla aftur með WOW í ár en munum standa fyrir fjallahjólamóti á Akureyri í vor. Allir ágóði af mótinu mun renna til Krafts.“ Verð ekki öldruð kona Hvernig líður þér í dag? „Í dag líður mér ágætlega, það er lungnabólg- an sem er að plaga mig núna,“ segir Edda Björk. „Ég var að fá fínar fréttir, að meinin í lung- unum væru nánast farin og væntanlega eins með lifrina líka. Við viljum ná að hefta þessi mein sem eru í höfðinu en þau eru enn að stækka. En læknirinn bindur miklar vonir við nýju lyfin, og þá geri ég það líka. Það er alveg vitað að ég er með ólæknandi krabbamein. Ég mun aldrei læknast af því en þetta er spurning um að læra að lifa með því og leyfa sér að lifa með því. Það er það sem ég sé framundan, ef við getum haldið þessu í „status quo“ þannig að þetta sé ekki að versna, þá er ég bara mjög sátt. Ég geri mér al- veg grein fyrir því að ég verð ekki háöldruð kona. En ef ég get fengið að sjá dóttur mína út- skrifast úr menntaskóla verð ég ánægð.“ Edda Björk á fjölmörg áhugamál sem tengjast hreyfingu og útivist, en hún fer gjarnan á fjallahjól, fjallaskíði og í fjallgöngur. Hér má sjá plakat- ið af Eddu Björk í herferð Krafts. Fjölskyldan stendur þétt við bakið á Eddu Björk. Fyrir aftan hana eru foreldrarnir, Gunnar Sæmundsson og Lára Björnsdóttir, og bróðirinn, Björn Jóhann Gunnarsson. Fyrir framan er dóttir hennar, Fanney Ósk Eiríksdóttir, og bróðurdótt- irin, Anna Lára Bridde Björnsdóttir. ’ Ég auðvitað græt stundum, en ég ámjög erfitt með þetta: aumingja þú.Ég þoli það mjög illa. Það eru rosamargir sem kalla mig hetju, og jú kannski er ég hetja í þeirra augum, en fyrir mér er þetta ekkert val. Ef ég ætla að gefast upp, þá er ég bara farin. 28.1. 2018 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.