Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 28
28 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
Í ævintýrinu um Pétur Pan og Kaptein Krók er ekki
að undra að Kapteinn Krókur fyllist taugaveiklun í
hvert skipti sem hann heyrir tikk-takk í klukku (sjá
myndband). Pétur Pan heggur af honum hendina og
fleygir fyrir krókódíl, en krókódílinn gleypir síðan
klukku sem heldur áfram að ganga inni í maganum
á honum. Eftir þetta atvik er nóg fyrir Kaptein Krók
að heyra tikk-takk hljóð og þá umturnast hann af
hræðslu vegna þess að krókódíllinn heldur áfram að
ásækja hann.
Aðrir gætu tengt betur við Harry Potter sem
horfði á Voldemort myrða foreldra sína. Hann
endurupplifir þann hræðilega atburð í vöku og
draumi og reynir að komast hjá aðstæðum og deyfa
allt sem minnir á atvikið. Hann finnur fyrir tilfinn-
ingalegum dofa og minnisleysi. Þjáist af svefntrufl-
unum. Á erfitt með að einbeita sér. Fær reiðiköst og/
eða hrekkur í kút af minnsta tilefni…
Allt eru þetta einkenni áfallastreituröskunar en
rannsóknir sýna að þeir sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi eru
í mikilli hættu á að þróa með sér áfallastreituröskun. Því alvarlegra sem
ofbeldið var, því meiri líkur en allt að 60% þolenda kynferðisofbeldis
þróa með sér áfallastreituröskun.
Gleymt og grafið?
Margar konur hafa nýlega stigið fram og deilt reynslu sinni af kynferð-
isofbeldi og kynferðislegri áreitni. Oft reynist erfitt og sársaukafullt að
rifja upp minningar tengdar ofbeldi sem veldur því að konur sjá lítinn
ávinning í því að segja frá. Ef ávinningurinn að segja frá ofbeldinu virðist
lítill eða enginn er hætt við því að konur sjái ekki tilganginn með því að
ýfa upp sárin og segja frá. Í staðin þegja þær og telja sér jafnvel trú um að
vandamálið sé minniháttar og að þær séu búnar að vinna í því með því að
leggja það til hliðar.
Mörgum árum síðar, þegar allt virðist gleymt og grafið, getur slík
reynsla þó haft sorglegar afleiðingar á þeim tíma sem flestir álíta hinn
gleðilegasta. Þegar von er á barni. Meðganga og fæðing er nefni-
lega álagstími, bæði andlega og líkamlega. Miklar breytingar verða á
líkama kvenna og þær fara í gegnum þroskandi ferli á meðgöngunni. Í
raun er ekki aðeins barn að þroskast og fæðast, heldur heil fjölskylda.
Í fæðingunni sjálfri getur þó ýmislegt minnt á ofbeldið vegna þess hve
berskjölduð konan er í aðstæðunum. Ókunnug manneskja, oftast ljós-
móðir, þarf til dæmis oft að koma við kynfæri konunnar, sem getur valdið
því að konan endurupplifi ofbeldið sem hún varð fyrir.
Áhrif á meðgöngu og fæðingu
Nýlega varði Agnes Gísladóttir doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum
við Háskóla Íslands en rannsókn hennar gekk út á að kanna hvort
kynferðisofbeldi á unglings- eða fullorðinsárum hefði áhrif á meðgöngu
og fæðingu síðar á lífsleiðinni. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til
kynna að konur sem höfðu leitað til Neyðarmóttöku vegna kynferðisof-
beldis og að meðaltali sex árum síðar fætt barn voru í aukinni hættu á
að fá greiningarnar „örþreytt móðir“ og „lengt fyrsta stig fæðingar“, auk
þess sem að áhaldafæðingar og bráðakeisaraskurðir voru algengari hjá
þessum konum. Nýburar þeirra voru léttari að meðaltali, í aukinni áhættu
á að fæðast fyrir tímann og vera fluttir á vökudeild. Konurnar reyktu
frekar á meðgöngu og voru í aukinni áhættu á lengri útvíkkunartíma,
inngripum í fæðingu og fyrirburafæðingu. Flestar fæðingarnar gengu vel
en niðurstöður rannsóknar hennar undirstrika mikilvægi góðrar þjónustu
við brotaþola og þess að efla forvarnir gegn kynferðisofbeldi.
Hvaða konur?
Konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun
finna oftar fyrir ýmsum meðgöngukvillum, svo sem
brjóstsviða, bakflæði, bakverkjum, svima, yfirliði
og fyrirvaraverkjum en aðrar konur. Þær virðast
almennt nota heilbrigðiskerfið meira en konur sem
hafa ekki orðið fyrir misnotkun, og á það einnig við
á meðgöngu. Þegar konur mæta oftar í mæðraskoðun
en aðrar konur vegna minniháttar kvilla ætti það því
að kveikja á viðvörunarbjöllum hjá ljósmæðrum í
mæðravernd.
Einnig eru konur sem hafa orðið fyrir kynferðisof-
beldi oftar einhleypar, ungar, með lítinn félagslegan
stuðning, atvinnulausar, reykja frekar og eru í ofþyngd
í upphafi meðgöngu. Þær eiga oftar að baki fóstur-
eyðingar og fósturlát en aðrar konur. Kynsjúkdómar
og þvagfærasýkingar eru einnig algengari, auk svefn-
vandamála og andlegrar vanlíðunar.
Ef kona er með marga af þeim áhættuþáttum sem
voru taldir upp hér að framan ætti ljósmóðir að vera vakandi fyrir því að hún
gæti einhvern tímann hafa orðið fyrir ofbeldi. Rannsóknir sýna að konur
sem hafa verið beittar ofbeldi vilja gjarnan að heilbrigðisstarfsfólk spyrji út
í ofbeldi og þeim þykir vænt um að vera spurðar, þó þær séu ekki tilbúnar að
segja frá ofbeldinu strax. Oft þarf að spyrja þær nokkrum sinnum áður en þær
þora að segja frá. En afhverju ætti að spyrja konur út í kynferðislegt ofbeldi/
misnotkun og hvaða ávinning hafa konurnar af því að segja frá því?
Segið frá... og hvetjið vinkonur ykkar til að segja frá
Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að konur með sögu um kynferðislega misnotkun
eru líklegri til að upplifa hugrof í fæðingu en aðrar konur, en þá verða þær
fyrir truflun á skynjun eða upplifun af umhverfinu. Svo virðist sem líkaminn
grípi til þess bjargráðs að aftengja þær aðstæðum til að hlífa þeim, en þá geta
þær upplifað óraunveruleikatilfinningu, misst tengsl við líkama sinn, misst
tímaskyn og jafnvel upplifað tímabundið minnisleysi. Í slíkum aðstæðum
hafa konur litla stjórn á því sem fer fram en ein helsta ástæða þess að konur
upplifa fæðingu á slæman hátt er þegar þær missa stjórn á aðstæðum. Því
er mikilvægt að stuðla að samráði við konur í fæðingu svo þær upplifi að
þær séu við stjórn. Þar skiptir höfuðmáli að traust skapist á milli konunnar og
ljósmóðurinnar.
Því getur verið betra fyrir konur með sögu um kynferðisofbeldi að segja
ljósmóður sinni frá því svo hún geti lagt sig fram við að nálgast hana sérstak-
lega varlega. Gott væri fyrir þær konur að gera fæðingaráætlun eða „óska-
lista“ á meðgöngunni til að undirbúa sig fyrir fæðinguna. Á listanum geta
þær t.d. óskað eftir því að innri skoðunum (þegar útvíkkun er athuguð) verði
haldið í lágmarki og mikið sé lagt upp úr verkjastillingu snemma í ferlinu,
svo þær finni minna til og að færri atburðir (líkt og innri skoðanir) minni þær
á ofbeldið sem þær urðu fyrir.
Ljósmæður og fæðingarlæknar sem vita af konum með sögu um misnotkun
ættu því alltaf að biðja um leyfi áður hjá konunni fyrir því að snerta hana,
halda innri skoðunum, þvagleggsuppsetningum og notkun innri fóstursírita
(elektróðu) í lágmarki eins og mögulegt er, sem og notkun sogklukku eða
annarra áhalda. Áhersla á nærgætni og svona vinnubrögð á að sjálfsögðu við
um umönnun allra kvenna í fæðingu, en þessi atriði eru sérstaklega mikilvæg
í umönnun kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Ef konur kvíða fæðingu er strax hægt að byrja að vinna í því á
meðgöngunni með því að æfa aðlögunarleiðir og bjargráð til að nota
í fæðingunni. Ef vel tekst til og traust skapast getur fæðingarreynslan
nefnilega verið virkilega valdeflandi fyrir konur, sem eru svo sannarlega
kyngimagnaðar skepnur.
EKKI ÞEGJA
Inga María Hlíðar Thorsteinson,
2. árs nemi í ljósmóðurfræði
Ú R Þ J Ó Ð F É L A G S U M R Æ Ð U N N I