Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 42
42 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017
„Edvard segir að það séu pabbinn og mamman
sem koma með gjafirnar frá jólasveininum. Eruð
það þið mamma sem setjið gjafir frá jólasvein-
inum í skóinn?“ Stelpan mín sem er sjö ára er að
tala við mig um jólasveininn. Hún treystir mér
fyrir því að hún hafi verið sú eina í myndlistar-
skólanum þá um daginn sem hafi rétt upp hönd
þegar Arthur spurði hver tryði á jólasveininn.
Halli bróðir hennar hefði ekki rétt upp hönd, en
hún vissi samt að hann tryði á jólasveininn.
Ég veit satt að segja ekki hverju ég á að svara.
Ég hef sjálf kviðið þessari stundu lengi, að fá
þessa spurningu og hef hummað það fram af mér
að finna hið rétta svar. Trúi ég kannski bara sjálf
á jólasveininn?
Ég tek á mig rögg þegar ég ligg þarna með
dóttur minni sjö ára og undirbý hana fyrir svefn-
inn og eina svarið sem kemur eðlilega fram á
varir mínar er „ég veit það ekki – ég veit ekki
hvort ég trúi á jólasveininn.“ Ég læt það liggja á
milli hluta hver það er sem gefur í skóinn.
Ég reyni að beina umræðunni í aðra átt og segi við dóttur mína að
kannski sé þetta svolítið eins og með Guð, hvort hún trúi á Guð? Þessi
viðsnúningur í umræðunni er vissulega til að auka á óöryggi mitt, því ég
átta mig fljótt á því að ég hef kannski ekki staðið mig neitt sérstaklega
vel í hinu trúarlega uppeldi. En jú, Sveindís veit vissulega hver Guð er.
Hann skapaði jörðina. En Halli bróðir hennar er hins vegar búinn að
segja henni að það hafi ekki verið Guð sem skapaði jörðina heldur hafi
þetta allt byrjað með tveimur pöddum. Hvort það sé rétt?
Ég sé að mér hefur tekist að beina athyglinni frá jólasveininum. Ég
stend hins vegar frammi fyrir því að svara flóknum tilvistarspurningum
um einfaldar og flóknari lífverur sem allar tengjast þó saman í vistkerf-
inu. Og svo gefst mér færi á að rifja upp bænastundir með ömmu minni
þegar ég var á svipuðum aldri og Sveindís, en amma þakkaði Guði á
hverju kvöldi fyrir góðvild hans og hlýju. Amma mín kunni nefnilega
svo sannarlega að fara með bænir. Þetta var persónulegt samtal sem hún
átti við Guð og ég hlakkaði til að fá að vera áheyrandi af því samtali.
Guð verndaði stóra og smáa, landið okkar góða, börnin í Afríku. Allir
erfiðleikar líðandi stundar voru líka settir í hendur Guðs. Máttur bænar-
innar var einlægur í höndum ömmu minnar og staðföst trú hennar
sömuleiðis.
Dóttir mín virðist vera nokkuð sátt og ánægð með hvert þessi umræða
hefur leitt okkur. Hún segir mér að hún trúi bæði á Guð og líka á pödd-
urnar. Og svo trúi hún líka á jólasveininn. En ekki alla jólasveina.
Þegar ég kem fram segi ég Lilju, konunni minni frá þessu samtali.
Að ég hafi svarað spurningunni um það hvort jólasveinninn væri til og
hvort við gæfum í skóinn með því að segja „ég veit það ekki“. Hún
horfir frekar óörugg á mig sjálf, en nær þó að stynja upp „hvurs lags
svar er þetta Steina, „ég veit það ekki“. Af hverju svaraðir þú ekki bara
skýrt og sagðir henni að það væru ekki við. Þetta er hvort sem er lygi
frá upphafi“.
Ég finn að ég ætla að standa með sjálfri mér í þessu samtali. Svar
mitt var nefnilega einlægt. Kannski trúi ég sjálf svolítið á jólasveininn.
Magga systir mín minnir mig til dæmis oft á hve lengi ég hélt í þessa trú
– skrifaði jólasveininum bréf og trúði því einlæglega að hann kæmi til
okkar og umbunaði fyrir góða hegðun á aðventunni. Þótt ég innst inni
hafi kannski líka þurft að eiga við óvissuna.
Og þar kemur tengingin við ljósmóðurstarfið. Kannski er þetta svar
„ég veit það ekki“, ekki svo galið þegar öllu er á botninn hvolft. Ég
þreytist nefnilega ekki á að hugsa um ljósmóðurstarfið sem lífið sjálft.
Mér finnst ég oft þurfa að svara spurningum
verðandi foreldra með óvissusvarinu „ég veit
það ekki“. Og í því er fólgin ákveðin fegurð.
Ferðin að fæðingunni og móður- (foreldra)hlut-
verkinu er vörðuð mörgum óvissuþáttum. Og í
stað þess að fyllast óöryggi í þeirri óvissu, er sú
óvissa hluti af starfinu. Og það er vissulega hægt
að styðja konur og verðandi foreldra með þá
vissu – að lífið sjálft er uppfullt af óvissuþáttum.
Í Strasbourg, þar sem við fjölskyldan búum
nú um stundir, er stærsti og elsti jólamarkur
Evrópu. Í ár er Ísland þar heiðursgestur. Í
íslenska jólaþorpinu er nú meðal annars boðið
upp á Bæjarins bestu pylsur, Lýsi er þar kynnt
á einum básnum og í litlum rauðum skandína-
vískum timburkofa skreyta 13 íslenskir jóla-
sveinar gluggana, ásamt Grýlu og Leppalúða.
Þetta gefur litlum íslenskum börnum í útlöndum
ákveðið forskot á jólasæluna. Jólasælan felst í
þessum jólasveinum sem gera sér sérferð hingað
til Frakklands til að umbuna þeim íslensku
börnum sem trúa, með öllum þeim spurningum, efasemdum, eftir-
væntingu jafnt sem óvissu sem í því felst
Það var líka sérstök upplifun fyrir þessi sömu börn og mæður þeirra
að hlusta á nokkur íslensk jólalög í hinni einstöku Vorrar frúar kirkju
hér í Strasbourg, sem er sérstök fyrir það að hafa einungis einn turn
á kirkju sinni (undirstöðurnar þoldu ekki þungann af hinum turninum)
í tengslum við jólamarkaðinn og tenginguna við Ísland. Mín börn litu
stolt á mæður sínar þegar söngkonan flutti lag sem þau bæði þekkja
afar vel, Jólin alls staðar. Barnabarn þeirra heiðurshjóna, Jóns „Bassa“
Sigurðarsonar og Jóhönnu G. Erlingsson, sem sömdu lag og texta er
nefnilega ein okkar besta vinkona og bjó hér í borginni þegar við
fluttum hingað.
Jólin, jólin alls staðar
með jólagleði og gjafirnar.
Börnin stóreyg standa hjá
og stara jólaljósin á.
Jólaklukka boðskap ber
um bjarta framtíð handa þér
og brátt á himni hækkar sól,
við höldum heilög jól.
Gleðileg jól til allra lesenda og ljósmæðra nær og fjær. Megi nýtt ár
færa ykkur dýrmætar gjafir hinnar eftirvæntingarfullu óvissuferðar sem
lífið – og fæðingarreynslan – sannarlega er.
Steinunn H. Blöndal,
ljósmóðir
TRÚIR ÞÚ Á JÓLASVEININN?
J Ó L A H U G L E I Ð I N G L J Ó S M Ó Ð U R