Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 39

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2017, Blaðsíða 39
39LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2017 Öryggisbragur/öryggismenning (e. safety culture) felur í sér sameiginleg gildi og viðhorf, sem ásamt skipulagi og stjórnun stofnunar, leiða til ákveðins vinnulags og hegðunarmynsturs varð- andi öryggismál. Góður öryggisbragur er fyrir hendi þar sem öryggi sjúklinga er sett í öndvegi og áhættustjórnun er samofin öllu því sem gert er. Slíkur öryggisbragur einkennist af opnum samskiptum og gagnkvæmu trausti milli starfsmanna og sjúklinga. Meginþættir öryggisbrags eru: Skuldbinding stofnana og forysta þeirra við að tryggja öryggi sjúklinga, samskipti, samstarf og skráning atvika (Laura Sch. Thorsteinsson, Anna B. Aradóttir, Anna B. Jensdóttir, Elísabet Benedikz, Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Leifur Bárðarson o.fl, 2012). Fæðingarþjónusta – Mænurótardeyfing Árangur heilbrigðisþjónustu við fjölskyldur í barneignarferlinu er góður ef miðað er við samanburð meðal OECD ríkjanna á árunum 2011-2013 á tíðni nýburadauða. En fram kemur að tíðnin er lægst hér á Íslandi þar sem nýburadauði er 1,3 af hverjum 1000 fæddum eftir 22ja vikna meðgöngu. Meðaltalið meðal OECD ríkjanna er hins vegar 3,8 af hverjum 1000 fæddum eins og sjá má á meðfylgjandi töflu (OECD, 2015). (http://dx.doi.org/10.1787/888933280782). Við þurfum að halda vel utan um það sem vel er gert og stöðugt að vera tilbúin til að halda áfram að hlúa að, bæta og þróa þjónustuna eftir fremsta megni til að viðhalda þessum góða árangri. Heilbrigðiskerfið er í stöðugri þróun og á undanförnum þremur áratugum hefur þátttaka sjúklinga í eigin meðferð aukist umtalsvert. Þar eru konur í barneignarferlinu engin undantekning. Sjúklingar, þjónustu- þegar í heilbrigðiskerfinu eiga lagalegan rétt á að fá upplýsingar um ástand sitt og þá þjónustu sem þeim stendur til boða og þannig val um að þiggja eða hafna þjónustunni samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. En þar segir í 1 mgr. 5 gr. „Sjúklingur á rétt á upplýsingum um; heilsufar, ástand og horfur. Áhættu og gagnsemi meðferðar. Önnur hugsanleg úrræði og möguleika á að leita álits annars.“ Mænurótardeyfing er talsvert mikið notuð við barnsfæðingar á Íslandi. Samkvæmt fæðingarskrá sem birt er á vef Landspítala var tíðni mænurótardeyfinga við barnsfæðingar (allra kvenna sem ráðgerðu fæðingu um leggöng) á fæðingadeild Landspítala 45,2% árið 2014 og 44,4% árið 2015. Til samanburðar var tíðni mænurótardeyfinga í Noregi árið 2014, 33,8% allra fæðinga. Til nákvæmari samanburðar má taka saman fæðingar á norskum sjúkrahúsunum í Arendal og Kristiansand sem voru samanlagt með nánast jafnmargar fæðingar árið 2015 (n-2997) og Landspítalinn (n-3037) en meðal tíðni mænu- rótardeyfinga á norsku sjúkrahúsunum var 28.5% á móti 44.4% á Landspítala. (Ragnheiður I. Bjarnadóttir og félagaar, 2014, Ragnheiður I. Bjarnadóttir og félagar, 2017, Norwegian Institute of Pubilc Health 2014 og 2015). Fræðsla og upplýst ákvörðun Það er, eins og áður hefur komið fram, reynsla mín að fæðandi konur eru alla jafna ekki nægilega upplýstar um það í hvaða tilfellum mænu- rótardeyfing getur verið æskilegur eða nauðsynlegur kostur og eins hvenær hún er það ekki og hvenær áhættan getur verið meiri en raun- veruleg þörf. Þær eru ekki upplýstar um mögulegar aukaverkanir og fylgikvilla og þar af leiðandi ekki færar til að taka upplýsta ákvörðun um að þiggja þessa deyfingu. Verklagið á stærsta fæðingarstað okkar, á Fæðingarvakt Landspítala, er að kona getur óskað eftir að fá þessa deyfingu lagða jafnvel þótt heilbrigðisstarfsfólk sjái og telji að ekki séu fyrir hendi neinar klínískar ábendingar fyrir því að deyfing skuli lögð. Í verklagsreglu Landspítala um utanbast-deyfingu (nr. 4.04.01, 2014) kemur fram að skilyrði fyrir lagningu deyfingarinnar sé að: „Beiðni um utanbasts deyfingu kemur frá ljósmóður í samráði eða skv. beiðni konunnar og endanleg ákvörðun er tekin af læknum svæfingadeildar.“ Konan þarf ekki að gefa skriflegt samþykki fyrir lagningu deyfingar- innar, líkt og tíðkast í mörgum öðrum löndum og ekki þarf að sýna fram á að konunni hafi verið veitt fræðsla í byrjun fæðingar eða, það sem betra væri, á meðgöngutímanum sem gerir henni kleift að taka upplýsta ákvörðun um deyfinguna. Þetta vinnulag stangast á við 5. grein laga um réttindi sjúklinga nr.74/1997 þar sem í 1 mgr. segir „Sjúklingur á rétt á upplýsingum um; heilsufar, ástand og horfur. Áhættu og gagn- semi meðferðar. Önnur hugsanleg úrræði og möguleika á að leita álits annars.“ Landlæknisembættið hefur gefið út klínískar leiðbeiningar um „Meðgönguvernd heilbrigðra kvenna í eðlilegri meðgöngu“ sem taka mið af bestu þekkingu á hverjum tíma og eru til stuðnings heilbrigðis- starfsfólki til að veita megi sem besta meðferð með sem minnstri áhættu og án óhóflegs kostnaðar. Þær eiga meðal annars að stuðla að því að auðveldara verði fyrir barnshafandi konur að taka upplýsta ákvörðun um meðferð sem byggð er á gagnreyndum upplýsingum. Eftir þessum leiðbeiningum er unnið eða þær hafðar til hliðsjónar á flestum ef ekki öllum stöðum þar sem meðgönguverndin er veitt (Hildur Kristjándóttir og félagar, 2010). Í fyrsta kafla þessara klínísku leiðbeininga kemur fram að: „Mikilvægt er að hverri konu sé gert kleift að taka upplýsta ákvörðun um þá þjónustu sem hún þiggur á meðgöngunni. Það er á ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna sem annast konuna að útskýra hvaða valkosti hún hefur og veita skýrar og óhlutdrægar upplýs- ingar. Virða ber þá ákvörðun sem konan tekur. Þetta er í samræmi við lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Í meðgönguvernd leitast ljósmæður við að sinna heilbrigðiseftirliti og veita fræðslu innan fyrir fram ákveðins tímaramma. Fræðsla er víðast hvar veitt bæði munnlega og með tilvísun í rafrænar upplýsingar á internetinu, en útprentun hvers kyns fræðslubæklinga hefur að mestu verið lögð niður. Almennt er það álit ljósmæðra að ekki reynist alltaf nægilegur tími til að fara eins ítarlega í fræðslu og þörf væri á og hafa ljósmæður rætt það sín á milli að oft þurfi þær að forgangsraða þeirri fræðslu sem þær telja mesta þörf á að kona fái. Fyrir þessu geta verið ýmsar og breytilegar ástæður svo sem ef notast þarf við túlkaþjónustu við fræðsluna, ef frávik koma fram varðandi heilbrigði konunnar eða fóstursins sem kalla á ítarlegri og tímafrekari skoðanir en ella eða ef kona er að mæta stopult í bókaða meðgönguverndartíma. Því þurfum við alltaf að vera að endurmeta og forgangsraða fræðslu og gæta að skipulagi og góðu vinnuhagræði. Það er almenn vitneskja meðal heilbrigðisstarfsfólks að öllum inngripum fylgir áhætta, þar er mænurótardeyfing ekki undanskilin. Mænurótardeyfing getur haft margvíslegar aukaverkanir bæði á fram- gang og útkomu fæðingarinnar, heilsu og öryggi móðurinnar og eins barnsins. Þegar deyfing er lögð kallar það inngrip undantekningarlítið á annað inngrip sem enn eykur á áhættuna á fleiri fylgikvillum. Í verk- lagsreglum Landspítalans er að finna verklagsreglu um tvo fylgikvilla sem geta fylgt mænurótardeyfingu en það eru „Post spinal höfuð- verkur og Há spinaldeyfing“ (Landspítalinn verklagsregla nr.4.04.01 og nr.4.04.02, 2014). Þar segir: Post spinal höfuðverkur. Við gat á mænuhimnu verður leki á mænuvökva. Þrýstingsfall í mænuvökvanum getur valdið slæmum höfuðverk. Höfuðverkurinn getur komið fljótlega eftir ástungu og allt að 48 klst. seinna. Hann getur einnig komið aftur þó hann hafi lagast. Þetta er höfuðverkur sem versnar mjög við að setjast upp en skánar í liggjandi stöðu. Meðferð er í fyrsta lagi rúmlega og lyfjagjöf. Ríkuleg vökvagjöf er ekki nauðsynleg. Ef ástand batnar ekki á 1-2 sólarhringum er ráðlagt að leggja blóðbót. Alltaf skal hafa samband við lækna svæfingadeildar ef grunur vaknar um þessa tegund af höfuðverk. Há spinal deyfing. Hætta er á hárri mænudeyfingu ef leggur fer inn fyrir mænuhimnu og deyfingu er sprautað þar. Einkenni ráðast af hæð deyfingar: 1. Alvarlegt blóðþrýstingsfall. 2. Vöðvalömun – Öndunarstöðvalömun. 3. Meðvitundarleysi. Meðferð við háa mænudeyfingu með öndunarbilun þarf að koma fyrir barkarennu og aðstoða við öndun. Hafa ber í huga að konan getur verið með fulla meðvitund og því þarf að útskýra ástandið og svæfa hana, gera bráðakeisara og bíða með að vekja hana þar til deyfing fer úr. Konan er látin vakna á gjörgæslu og barkarenna tekin þar.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.