Morgunblaðið - 21.09.2018, Blaðsíða 30
30 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. SEPTEMBER 2018
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Leikritið Dúkkuheimili, annar hluti,
eftir bandaríska leikskáldið Lucas
Hnath, verður frumsýnt á Nýja sviði
Borgarleikhússins í kvöld. Er það
sjálfstætt framhald á hinu þekkta
verki Henriks Ibsens, Dúkkuheimili,
frá árinu 1879 sem sýnt var í Borg-
arleikhúsinu leikárið 2014-15. Verk
Hnaths var frumsýnt í Bandaríkj-
unum í fyrra og hlaut það átta til-
nefningar til Tony-leikhúsverð-
launanna.
Hnath tekur upp þráðinn 15 árum
eftir að verki Ibsens lýkur en í því
segir af hjónunum Þorvaldi og Nóru
sem eiga þrjú börn. Þorvaldur fer
með valdið á heimilinu og þarf Nóra
að hlýða honum í
einu og öllu.
Ákveðinn atburð-
ur leiðir til upp-
gjörs hjónanna og
Nóra brýst á end-
anum undan valdi
eiginmannsins og
yfirgefur hann.
Unnur Ösp
Stefánsdóttir og
Hilmir Snær
Guðnason fóru
með hlutverk Nóru og Þorvalds í
verki Ibsens og snúa þau nú aftur í
hinu sjálfstæða framhaldi Hnaths.
Leikstjóri sýningarinnar er Una
Þorleifsdóttir og segir hún ekki
nauðsynlegt að hafa séð verk Ibsens
eða þekkja til þess til að fá notið
framhaldsins. „Það eru vísanir í
verkinu sem fólk skilur á dýpri hátt
ef það þekkir verk Ibsens en verkið
er sjálfstætt framhald og snýst
meira um nútíðina en fortíðina,“ seg-
ir hún.
Tekst vel upp
– Hnath ræðst ekki á garðinn þar
sem hann er lægstur, að skrifa fram-
hald á leikriti eftir sjálfan Ibsen.
„Þetta er djörf hugmynd en ekki í
fyrsta sinn sem þetta er gert, ég man
í svipan eftir tveimur öðrum verkum
sem gerast eftir að Nóra fer,“ segir
Una. Henni þyki Hnath takast mjög
vel upp. „Hann nær að taka þá þræði
sem Ibsen er að fjalla um þegar hann
skrifar verkið, um stofnunina hjóna-
band og stöðu kynjanna innan þess,
og setja í samtímasamhengi og varpa
fram öðrum spurningum í rauninni,
um hugmyndir okkar um ástina,
stöðu karla og kvenna og hvað það
þýðir að vera skuldbundinn ein-
hverjum. Mér finnst hann gera það
mjög vel.“
– Staða kynjanna á tímum Ibsens
og í samtímanum er auðvitað gjör-
ólík.
„Já, hún er gjörólík en svo má
spyrja hversu mikið hugmyndir okk-
ar um hjónabandið, þessa stofnun, og
hugmyndir um hlutverk kynjanna
innan þess hafi breyst og hvernig og
hvaða merkingu við leggjum í þessi
hugtök, t.d. skuldbindingu. Hvað það
þýðir að vera skuldbundinn ein-
hverjum að eilífu.“
– Að því leyti hefur ekkert breyst
á þessum 138 árum sem liðu milli
þessara tveggja leikrita …
„Nei, í sjálfu sér ekki, það eru bara
aðrar forsendur. Við tölum kannski
meira um ást í dag í staðinn fyrir
skyldur.“
Róttækar hugmyndir
– Heldurðu að gift fólk og fráskilið
muni kannast við margt í þessu
verki?
„Já, mjög margt. Það koma fram
mjög ólík viðhorf og hugmyndir
tengdar hjónabandinu, skyldum og
stöðu kynjanna í því samhengi sem
flestir ættu að geta speglað sig í.“
Una segir líka áhugavert að Hnath
varpi fram róttækum hugmyndum
úr samtímanum, hugmyndum sem
séu á jaðrinum og þá til dæmis um
opið samband eða hjónaband, hvort
raunhæft sé að vera með einni mann-
eskju alla ævi. „Þetta er einn póllinn
og hinn er hvort ekki sé betra að
vera með einni manneskju og láta
það samband ganga þótt það sé erf-
itt. Í leikritinu er allur skalinn af
þessum viðhorfum, í rauninni.“
Hvað gerist næst?
Una segir Hnath spyrja spurninga
frekar en svara þeim í verkinu. Það
muni því vekja leikhúsgesti til um-
hugsunar. „Rómantískar gaman-
myndir, ástarsögur sem við þekkjum
úr menningu okkar, enda alltaf á því
að fólk giftir sig eða fer að búa sam-
an. Við tölum aldrei um það sem ger-
ist næst,“ segir Una, „hverju maður
er að fórna og hvort maður gerir sér
grein fyrir því hvað maður er að
ganga inn í eða ekki, hvað það þýðir í
rauninni.“
– Það er ekki til Öskubuska 2 sem
segir af hjónabandi hennar og prins-
ins og vandamálunum sem þau þurfa
að glíma við …
„Nei, það væri einmitt mjög
áhugavert,“ svarar Una kímin. „Það
eru til alls konar hugmyndir, um
bjargvættinn, fyrirvinnuna og hlut-
verk kvenna í hjónaböndum. Er það
ekki ennþá þannig í dag að konur
gera meira af þessari ósýnilegu
vinnu á heimilinu sem enginn fær
borgað fyrir? Þetta er náttúrlega
bara arfleifð frá viðhorfum sem voru
ríkjandi fyrir hundrað árum; hver á
að ala upp börnin og hugsa um þrifin.
Bara kostir
– Nú ertu með sömu leikara í aðal-
hlutverkum, það hlýtur að hafa bæði
kosti og galla, eða hvað?
„Mér finnst það bara hafa kosti.
Bæði er það áhugavert fyrir áhorf-
endur sem sáu fyrri sýninguna að
koma að henni aftur og sjá þau með
hina sýninguna í farteskinu og svo er
það líka áhugavert fyrir leikarana að
fá að leika sömu hlutverkin áfram í
öðru samhengi. Þú ert búinn að
vinna ákveðna vinnu og svo geturðu
sett hana í annað samhengi og unnið
ofan á hana,“ svarar Una.
– Hafa Þorvaldur og Nóra breyst
mikið á þessum 15 árum?
„Já, ég myndi segja að Nóra hefði
tekið stakkaskiptum,“ segir Una.
Leikrit Ibsens heiti Dúkkuheimili
því Nóra sé eins og dúkka á heimili
þeirra Þorvalds. „En hún er það ekki
lengur, hefur átt sitt eigið líf og náð
ákveðnum frama í því sem hún hefur
tekið sér fyrir hendur.“
– Þetta hefur verið ansi djarft
verk hjá Ibsen á sínum tíma …
„Mjög djarft,“ segir Una, „af því
Nóra fer frá manni og börnum, sem
var svo til óþekkt á þessum tíma.
Hann skrifar þetta 1879 og konur
fengu ekki kosningarétt fyrr en eftir
1900 í flestum löndum Evrópu. Hún
er að taka sér vald og taka ákvarð-
anir yfir eigin lífi sem var nánast
óþekkt að konur gerðu á þessum
tíma. Og ef ég man rétt var endirinn
ritskoðaður í einhverjum leikhúsum í
Evrópu á sínum tíma, hún fór ekki
frá eiginmanninum því það mátti
ekki sýna þann endi, þótti stór-
hættulegt.“
Þrjár kynslóðir á sviði
Auk Unnar leika tvær aðrar leik-
konur í verkinu, Ebba Katrín Finns-
dóttir, sem er nýútskrifuð, og Mar-
grét Helga Jóhannsdóttir. Una
þekkir Ebbu ágætlega, hefur bæði
kennt henni og leikstýrt í leik-
list ar námi við Listaháskóla Íslands
og ber henni vel söguna. Margrét
Helga er landsþekkt leikkona og
langt um liðið frá því hún sást síðast
á sviði, nær tíu ár að því er Una telur.
„Það er gaman að vera með þrjár
kynslóðir kvenna á sviðinu, ekki oft
sem maður er með svona breiðan
aldur á sviði og mér finnst það
áhugavert, að fólk sé að leika hlut-
verk í samræmi við aldur.“
– Til hvaða aldurshóps höfðar leik-
ritið, þarf maður að vera orðinn dá-
lítið fullorðinn til að kunna að meta
það?
„Þetta er verk fyrir fólk sem
kannski skilgreinir sig miðaldra,
hvenær svo sem maður gerir það,“
segir Una kímin og tekur undir með
blaðamanni að það sé orðið býsna
teygjanlegt hugtak. „Ég myndi nú
halda að það höfðaði til allra sem
hafa áhuga á mennskunni og sam-
skiptum, til þeirra sem eru í sam-
böndum, hafa verið í samböndum eða
langar bara ekkert í samband,“ svar-
ar Una. „Við gerum okkur kannski
alltof seint grein fyrir því í lífinu
hvað okkur finnst um þetta. Við
göngum bara þennan veg sem er ætl-
ast til að við göngum, við hittum ein-
hvern, förum að búa, giftum okkur
hugsanlega og eignumst börn án
þess að velta því fyrir okkur hvort
þetta sé raunverulega það sem við
viljum.“
Ljósmynd/Grímur Bjarnason
15 ár Hilmir Snær Guðnason og Unnur Ösp Stefánsdóttir snúa aftur í hlutverkum Þorvalds og Nóru í Dúkkuheimili, öðrum hluta, eftir Lucas Hnath.
Ekki lengur dúkka
Dúkkuheimili, annar hluti, frumsýnt í Borgarleikhúsinu Hilmir og Unnur endurtaka hlutverk
sín úr Dúkkuheimili Ibsens Nóra hefur tekið stakkaskiptum, að sögn leikstjóra sýningarinnar
Una
Þorleifsdóttir
www.gilbert.is
VELDU ÚR MEÐ SÁL
FRISLAND 1941