Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.09.2018, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 30.09.2018, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30.9. 2018 VIÐTAL Jósep lék um tíma á mörgum böllum á viku og ekki var óalgengt að fullt væri í öllum þremur danshúsum bæjarins, Hótel Höfn, Sjálfstæð- ishúsinu og Alþýðuhúsinu. Og það í miðri viku. „Heldur betur, það runnu allir dagar saman. Síldin spurði ekki hvort það væri laugardagur! Fyrir kom að ræsirinn stóð skyndilega á gólf- inu á miðju balli og galaði: Ræs! Þá hlupu allir niður á plan.“ Svaf bara í messunni Jósep byrjaði ungur að vinna, eins og tíðkaðist. „Fyrstu vinnuna fékk ég níu ára, hjá þeim fræga manni Skapta Stefánssyni á Nöf. Sagt var að hann svæfi bara í messunni á sunnudög- um. Ég var sex sumur hjá síldarverksmiðjunni Rauðku, eitt sumar á Raufarhöfn og tvö sumur hjá atvinnudeild háskólans. Endasentist að sækja prufur af síld og hitti fyrir vikið alla þessa frægu skipstjóra. Þá var ég eitt sumar hjá Símanum og eitt í frystihúsi. Tvítugur fór ég svo sjálfur á sjó á Þórshöfn. Þessi störf voru besti skóli sem ég hef gengið í.“ Ferilskráin er orðin digur og enn bætist við. „Núna í sumar var ég vitavörður í einn dag á Malarrifi. Að vísu er löngu búið að loka vit- anum en ég sat þarna yfir myndlistarsýningu. Ég er mjög stoltur af því að geta bætt þessu við ferilskrána, „vitavörður“. Hver veit nema „læknirinn í eldhúsinu“ fái nú samkeppni frá „vitaverðinum í eldhúsinu“?“ Hann hlær. – Ertu liðtækur í eldhúsinu? „Já, ég hef alltaf haft gaman af því að elda mat og nú hef ég búið einn í sex ár, þannig að ekki dugar að stóla á aðra í þeim efnum. Fyrst reyndi á þetta þegar ég, 26 ára gamall, stóð skyndilega uppi sem einstæður faðir í Kaup- mannahöfn, með tveggja ára dreng. Veskú, ég varð bara að fara að elda fyrir okkur. Móðir mín, Margrét Björnsdóttir, kenndi mér aldrei beint að elda en eflaust hef ég lært mikið af því að fylgjast með henni heima á Siglufirði. Alla vega segja börnin mín að ég sá ágætur kokk- ur.“ Mest eldar hann fisk. „Ég fæ alltaf tíu til fimmtán kíló á mánuði hjá sjómönnunum hérna í Hólminum og borða mest fisk. Hann er langhollastur. Lambakjötið er líka fínt og endrum og sinnum fæ ég mér hrefnu.“ Fékk atvinnusjúkdóm Jósep gerði meira en að elda í Kaupmanna- höfn, þar sem hann nam læknisfræði. Hann lá í skáldsögum, ljóðum og leikritum enda ríkt listalíf í heimsborginni. „Og tónlistin, maður. Þarna sá ég Miles Davis, Oscar Peterson, Dizzy Gillespie og alla þessa karla. Dásam- legur tími.“ Fyrstu árin bjó hann í Rauða hverfinu. „Við yfirtókum íbúð, þar sem vændiskona hafði praktiserað um hríð. Faðir hennar bjó líka í húsinu og þegar ég spurði hvers vegna Lulu hefði flutt tjáði hann mér að hún hefði fengið „atvinnusjúkdóm“. Lekanda, hugsað ég. Nei, það var ekki raunin. Hún varð ólétt.“ Jósep fannst hann aldrei óöruggur í Rauða hverfinu. „Það var aldrei ráðist á mann eða neitt slíkt. Þetta var auðvitað á hippaárunum, einstök sæla. Friður, hass og frjálsar ástir og pabbi borgar, eins og Þórarinn vinur minn Tyrfingsson var vanur að segja. Við byrjuðum saman í læknisfræðinni og vorum drykkju- bræður í gamla daga.“ Báðir hafa þeir nú sett tappann í flöskuna. „Ég hef verið edrú í 24 ár. Tók loksins á mín- um málum og fór í meðferð. Það er mesta gæfuspor sem ég hef stigið í þessu lífi. Sakna áfengisins ekki neitt og þaðan af síður lyfjanna. Ég var mest í pillum undir það síð- asta og tókst að fela það vel fyrir fólki. Þannig trúði ritarinn minn, sem vann náið með mér alla daga, ekki að ég væri farinn í meðferð. „Það hlýtur að vera einhver annar?““ Sú eina sem reif kjaft Jósep er þrígiftur og börnin eru fimm. Elst er Ída Margrét sem býr og starfar í Lundúnum. „Hún fór upphaflega út sem persónulegur að- stoðarmaður Sigurðar Einarssonar í Kaup- þingi. Hún er bókasafns- og upplýsingafræð- ingur að mennt og sá til að byrja með um bóka- og listaverkakost bankans. Ég hef fyrir satt að Sigurður hafi ráðið hana sem aðstoðarmann sinn vegna þess að hún var sú eina í fyrirtæk- inu sem þorði að rífa kjaft við hann. Ída vinnur núna hjá JP Morgan og býr með breskum manni.“ Björn Ingimar er kontrabassaleikari í Kaupmannahöfn. „Hann er sá eini sem kallar sig Blöndal,“ segir Jósep og ber nafnið listi- lega vel fram á dönsku. „Já, já, nafnið hljómar ágætlega á dönsku, svo muna margir Danir eftir Erling Blöndal Bengtssyni. Björn á tvo syni sem eru nánast uppkomnir.“ Hinn sonurinn, Smári, er gítarleikari. „Hann byrjaði raunar sem trommari í svona metalbandi en er líklega frægastur fyrir að hafa spilað á gítar með Quarashi. Smári tarfur kallaður. Síðar gerðist hann kjöltugítarleikari og sat við Seljalandsfoss. Spilaði þar af sér handlegginn en er aðeins byrjaður að spila aft- ur. Smári er hérna í Hólminum núna.“ Guðbjörg María vinnur á leikskóla í Reykja- vík. „Hún er einstæð móðir og tíu ára dóttir hennar, Erla Vala, hefur verið sólargeislinn í mínu lífi eftir að ég varð einn. Faðir hennar er Dani, búsettur ytra, og fyrir vikið bauðst ég til að taka að mér hlutverk pabbans. Stelpan er mikið hjá mér og reynir að leggja afa sínum lífsreglurnar. Hefur til dæmis reynt að fá mig til að hætta að blóta með því að leggja á mig blótskatt,“ segir Jósep og sækir þar til gerða bæklinga. „Asskotinn kostar 4 krónur og fuck you 25 krónur en það segi ég auðvitað aldrei. Þetta fer með mér í kistuna,“ segir hann og leggur bæklingana brosandi frá sér. „Guð- björg er einstök mamma.“ Yngsta barn Jóseps, Sigurbjörg María, býr í Hólminum. „Hún er gríðarlegt músíktalent, goþari, eins og það er kallað og leikur á kontrabassa, eins og Björn. Hún er í hljóm- sveitinni 3 sem hefur gefið út plötu. Það er sjóari sem spilar á gítar og semur og svo eru þau með flottan kventrommuleikara. Þrælfínt band. Sigurbjörg er líka orðin bóndi, ásamt kunningja sínum, komin með sex kindur og tíu landnámshænur. Svo ætla þau að fá sér geit- ur.“ Fjölbreytt samfélag Jósep líður vel í húsi sínu í Hólminum, þar sem hann hefur búið frá árinu 1990. „Eftir að ég hætti á spítalanum í fyrra er ekkert sem held- ur í mig hér, þannig lagað. Nema húsið mitt,“ segir hann og horfir út á Breiðafjörðinn. „Staðsetningin er frábær, ein sú besta í bæn- um enda var ég ekki lengi að velja; mér bauðst líka hús beint á móti spítalanum. Hér hefur mér liðið vel og sé enga ástæðu til að fara. Samfélagið er gott og fjölbreytilegt og mikið músíklíf. Hér eru Pólverjar, fólk frá Eystra- saltslöndunum og Rússar og allt hefur þetta fólk fallið vel inn í hópinn. Konan sem kennir mér á saxófón er til dæmis Rússi, Anastasia.“ – Bíddu nú við, saxófón? Þú ert sumsé ennþá að læra á hljóðfæri? „Já, mikil ósköp. Meðan ég var í námi í Kaupmannahöfn hætti ég að mestu að spila, nema þá helst í partíum, en eignaðist þar hins vegar þetta prýðilega Hammondorgel hérna í stofunni. Þegar ég flutti heim, 1984, tók mús- íkin við sér aftur og á Patreksfirði, þar sem ég var í sex ár, eignaðist ég mitt fyrsta píanó. Al- gengt var að hljómsveitir kæmust ekki að sunnan vegna veðurs og fyrir vikið bjuggum við nokkrir til neyðarhljómsveit til að bjarga böllunum. Það var þónokkuð að gera hjá okk- ur. Hljómsveitarnöfn voru yfirleitt stutt og laggóð á þessum tíma, þannig að við kölluðum okkur að sjálfsögðu Dans- og skemmti- hljómsveit Vestur-Barðastrandarsýslu og ná- grennis.“ Hann brosir. Kann varla nótur Þegar Jósep kom í Hólminn, 1990, fór að örla á löngun til að fást við klassíska tónlist. „Vanda- málið er að ég kann varla nótur; læri öll tón- verk utan að. Upp úr aldamótum vildi Hólm- geir Þórsteinsson píanókennari hins vegar endilega að ég tæki próf og skellti mér beint í sjötta stig. Prófdómari var enginn annar er Ja- cek Tosik-Warszawiak, píanóleikari á heims- mælikvarða í Borgarnesi. Og heldurðu að hel- vítis maðurinn hafi ekki gefið mér 9 með þeim orðum að mér þætti greinilega vænt um hljóð- færið. Að hugsa sér. Þaðan lá leiðin beint í lokapróf árið 2006, þar sem Nína Margrét Grímsdóttir var prófdómari. Þannig að ég er útlærður píanisti.“ Jósep er duglegur að æfa ný og ný tónverk og hefur staðið fyrir mörgum tónleikum í Hólminum. Oft spilar hann djass í félagi við Jón Svan víbrafónleikara og fleiri. „Einu sinni fengum við sjálfan Guðmund Steingrímsson, Papa Jazz, til liðs við okkur og hann hafði gam- an af. Ótrúlegur maður, Guðmundur.“ Svo er það rokkhljómsveitin Stormar sem stofnuð var á Siglufirði 1963 og starfar enn eft- ir að hafa verið endurvakin í tengslum við há- tíðina Síldarævintýrið á Siglufirði 1990. „Stormar eru alvöru stuðhljómsveit sem kann að halda fólki í húsinu. Við hittumst alltaf ann- að slagið.“ Fór í læknisfræði Þrátt fyrir brennandi áhuga átti það hvorki fyrir Jósep að liggja að vinna í sjávarútvegi né við tónlist. Hann varð læknir. Stundaði nám við læknadeild HÍ og Hafnarháskóla og lauk embættisprófi um áramótin 1976/77. Fór síðan í sérnám og starfaði í almennum skurðlækn- ingum í Svíþjóð frá 1977 til 1984, en greip í heimilislækningar, geðlækningar og með- Jósep innan um bækur og plötur í stofunni heima í Stykkishólmi. Hann er ástríðufullur safnari. Morgunblaðið/OPO Jósep ungur að árum með gítarinn á lofti á Siglufirði. Hann lék á ófáum dans- leikjunum.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.