Morgunblaðið - 01.11.2018, Page 24

Morgunblaðið - 01.11.2018, Page 24
VIÐTAL Guðrún Hálfdánardóttir guna@mbl.is Jöfn tækifæri er leiðarstefið í starfi TUFF Ís- land-samtakanna. TUFF vinnur fyrir öll börn, en lögð er sérstök áhersla á að hjálpa börnum sem hafa sökum félagslegra eða efnahagslegra aðstæðna ekki tækifæri til þess að taka þátt í íþróttum eða tómstundum. Einnig hefur verið horft til þess að jafna hlut barna sem eru af er- lendum uppruna þegar kemur að ástundun íþrótta. Eins hefur verið lögð áhersla á verkefni sem miða að því að koma í veg fyrir eða upp- ræta öfgahyggju. Verkefnið byrjaði sem tilraunaverkefni í Breiðholti og er nú komið inn í allt íþróttastarf í Kópavogi og er Tuff að hefja verkefni í öðrum hlutum Reykjavíkur og stefnt er að því að næsti viðkomustaður verði Akureyri. TUFF-samtökin (The Unity of Faiths Foundation) voru stofnuð í Bretlandi árið 2011 en Hrund Hafsteinsdóttir, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu, heyrði fyrst af verkefn- inu í fyrirlestri dr. Shamender Talwar félags- sálfræðings í London og fékk hann til liðs við sig til að kynna Íslendingum verkefnið. Auk þeirra er Friðjón Friðjónsson, framkvæmdastjóri KOM ráðgjafar, í stjórn TUFF Ísland. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Frans páfi eru verndarar TUFF. Barack Obama, fyrrver- andi forseti Bandaríkjanna, lýsti einnig form- lega yfir stuðningi við samtökin. Ætlað að koma í veg fyrir félagslega einangrun Hrund segir að TUFF eigi að koma í veg fyr- ir félagslega einangrun barna og fjölskyldna þeirra og stuðla að þátttöku þeirra í samfélag- inu. Shamender Talwar segir að þegar Hrund sýndi áhuga á að kynna Íslendingum verkefnið hafi hann strax séð mörg tækifæri hér. Ísland væri lítið land, með álíka marga íbúa og hverfi í London, innflytjendum væri að fjölga og á stefnuskrá stjórnvalda að taka á móti hópum flóttafólks. Staðan hér minnti hann mjög á London á átt- unda áratugnum. Á þeim tíma hafi innflytj- endum fjölgað í Bretlandi og margir Bretar hafi óttast áhrifa þess á breskt samfélag. Hann segir að Ísland geti lært af reynslu annarra þjóða og komist hjá því að gera sömu misstök og Bret- land og önnur nágrannaríki hafi gert en um leið tekið upp það sem hefur reynst vel í öðrum löndum. Hrund segir að þau hafi ákveðið að kanna áhuga Reykjavíkurborgar á þátttöku í verkefn- inu með Breiðholt í huga vegna fjölbreyttrar samsetningar íbúa hverfisins. Hugmyndin kom fyrst fram hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utan- ríkisráðherra, sem hefur sýnt verkefninu mik- inn áhuga líkt og Guðni Bergsson hjá KSÍ, Michael Nevin, sendiherra Breta á Íslandi, og fleiri hafa gert. 40% taka ekki þátt í tómstunda- og íþróttastarfi Hún segir að 40% barna af erlendum upp- runa sem búsett eru í hverfinu taki ekki þátt í tómstunda- og íþróttastarfi, einkum stúlkur, oft vegna þess að fjölskyldur þeirra hafa litlar upp- lýsingar um starfsemi íþróttafélaganna og eða gera sér ekki grein fyrir því góða starfi sem þar er unnið. Samkomulagið við Reykjavíkurborg var til þriggja mánaða og eru þau Hrund, Shamender og Friðjón sammála um að það sé of stuttur tími. Verkefni sem þetta þurfi að vera til nokk- urra ára. Lagt var af stað með að bjóða börnum upp á að æfa án endurgjalds hjá tveimur íþrótta- félögum í Breiðholti, ÍR og Leikni, í þrjá mán- uði. Jafnframt voru foreldrum kynntir kostir frístundakortsins en það er minna nýtt af fjöl- skyldum í Breiðholti en í öðrum hverfum borg- arinnar. Shamender segir að verkefnið njóti góðs stuðnings frá yfirvöldum í Reykjavík og Kópa- vogi og stefnt sé á að fara af stað með TUFF á Akureyri fyrir árslok. Hann segir að þrátt fyrir náið samstarf með íþróttafélögum sé hlutur skólanna ekki minni og eins félagsmálayfirvalda og félagsmiðstöðva. TUFF tryggi samþættingu þessara þriggja kerfa þar sem hagur barna og unglinga er hafður að leiðarljósi. „Við fáum krakkana til að taka þátt í verkefn- inu í gegnum íþróttir og tómstundir líkt og við höfum gert annars staðar, svo sem í Bretlandi. Við leggjum áherslu á að verkefnið standi öllum börnum til boða en höfum reynt að ná sér- staklega til barna af erlendum uppruna þar sem mesta hættan er á félagslegri einangrun hjá þeim,“ segir Shamender. Hann segir að á Íslandi séu kennarar, þjálf- arar og starfsmenn frístunda- og félagsmið- stöðva í daglegum samskiptum við börn en sam- skipti þeirra á milli, það er þeirra sem vinna með börnunum, af skornum skammti. „Við reynum að tengja þessa aðila saman og tryggja að ef eitthvað bjátar á hjá barni þá sé auðvelt fyrir þá að hafa samband sín á milli. TUFF er brúin sem tengir þá saman. Við reyn- um að kenna börnum samfélagsleg gildi og að þau geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir ólíkan menningarlegan bakgrunn þá eigi þau það sam- eiginlegt að búa á Íslandi. Að þau eigi að vera stolt af bæði uppruna og Íslandi,“ segir Sha- mender. Shamender segir að TUFF sé hér til þess að auka við það frábæra starf sem þegar sé unnið hérlendis, skerpa fókus á nokkur atriði og efla samþættingu. Upplifa sig ekki sem hluta af íslensku samfélagi Að þeirra sögn hafa börn sem eru af pólskum uppruna en eru fædd á Íslandi og hafa aldrei búið annars staðar upplifað sem þau séu ekki hluti af íslensku samfélagi. Þessu vilji þau breyta í gegnum TUFF, með aðkomu allra þeirra sem koma að lífi barnanna, hvort heldur í skóla, á heimili eða í félagsstarfi. Þau segja að þátttakan í TUFF-verkefninu hér á landi hafi verið mjög góð þessa fyrstu mánuði sem það hefur verið starfrækt en búið sé að kynna það í öllum skólum Kópavogs og í Breiðholti. Vegna þess hve gott orðspor TUFF sé fái þau að koma inn í grunnskólana á skóla- tíma og kynna nemendum það eftir að búið er að kynna skólastjórnendum og kennurum TUFF. Félögin sem eru þátttakendur í TUFF Ísland í dag eru: Valur, HK, ÍR, Gerpla, KR, Breiða- blik, Tennisfélag Kópavogs, Dansíþróttafélag Kópavogs, Dansfélagið Hvönn, Hestamanna- félagið Sprettur og GKG golfklúbbur. Í byrjun var einkum horft á aldurshópinn 6- 15 ára en með samstarfi við Samfés, samtök fé- lagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi á landsvísu er einnig horft á 15 ára og eldri. Sá hópur er oft að hætta í formlegu íþróttastarfi en hefur kannski áhuga á að stunda íþróttir einu sinni til tvisvar í viku án þess að keppa eða koma að starfi TUFF á annan hátt en í gegnum íþróttir. TUFF er að undirbúa tilraunaverkefni um umhverfismál sem gæti einmitt höfðað til þessa aldurshóps. Kynnast foreldrum vinanna Hrund og Friðjón segja að forsvarsmenn íþróttafélaga sjái einnig að með TUFF er hægt að auka samskipti meðal foreldra barna sem æfa íþróttir. Til að mynda er lögð áhersla á þetta í starfi Vals – að tengja foreldrana saman. Því það skiptir miklu máli fyrir fólk sem er af erlendum uppruna að kynnast foreldrum vina barnanna. Oft er ekki auðvelt að koma inn á full- orðinsárum í samfélag eins og það íslenska þar sem fólk þekkist jafnvel allt frá því á leikskóla- aldri. Oft er auðveldara að tengjast í stór- borgum á fullorðinsárum en á minni svæðum eins og Íslandi þar sem fjölskylduböndin eru sterk. Eins og áður sagði er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verndari TUFF Ísland og segir Friðjón að Guðni hafi strax áttað sig á þessum mikilvægu skilaboðum sem TUFF er með – að tengja börn úr ólíku umhverfi saman í gegnum í íþróttir. Að koma í veg fyrir mismunun og skila- boðin eru skýr – að tækifæri allra barna séu þau sömu. Mjög mikilvægt sé að finna áhuga forseta landsins á málefnum barna því þetta er málefni sem eigi erindi við alla, ekki bara einstaka ráð- herra heldur íslensk stjórnvöld sem heild. Að tryggja jöfn tækifæri barna. Auk þess að kynna TUFF í grunnskólum þá hafa þau kynnt það í Pólska skólanum og þeim spænska. Mikill áhugi er meðal pólskra nem- enda en alls sækja 340-350 börn Pólska skólann á laugardögum. Spurð hvers vegna íþróttir og tómstundir urðu fyrir valinu til að laða að börn og ungmenni segja þau að þar sé hægt að kenna börnum við- urkenndar reglur samfélagsins með því að tengja þær við og yfirfæra reglur íþróttanna. Þannig séu margar reglur sem eigi við bæði inn- an og utan vallar. Í knattspyrnu er t.d. gula eða rauða spjaldið, en í samfélaginu er sekt eða al- varlegri afleiðingar. Eða eins og segir í kynningarbæklingi TUFF Ísland í Breiðholtinu: Auðveldara er fyrir börn að tileinka sér skilaboðin í gegnum leikinn. Áhersla er lögð á að kenna gagnkvæma virð- ingu, umburðarlyndi og samkennd, óháð upp- runa, þjóðerni, stétt, tungumáli, litarhætti, trúarbrögðum, lífs- og stjórnmálaskoðunum, kyn- og kynhneigð og annarri stöðu. Áhersla á kynjajafnrétti Sérstök áhersla var lögð á kynjajafnrétti og eflingu stúlkna í gegnum íþróttir og segja þau Hrund og Shamender að þar hafi mátt bæta verulega úr, því mjög fáar stúlkur af erlendum uppruna æfðu íþróttir í Breiðholtinu. „Þetta er eitthvað sem við viljum breyta með TUFF,“ segir Hrund en alls konar mýtur séu í gangi um aðgengi að íþróttum. Þau segja einnig að mikilvægt sé að hafa í huga að þátttaka í íþróttum geri ekki kröfu um að viðkomandi sé framúrskarandi heldur hafi gaman af og njóti þess að vera samvistum við aðra krakka á sama reki. Til þess að tryggja að þeim líði vel eru þjálf- ararnir meðvitaðir um að fylgjast með þeim, að þau eigi búnað sem þarf til og hafi möguleika á að taka þátt í æfinga- og keppnisferðum þrátt fyrir að þau búi við minni efni. Aðstandendur TUFF á Íslandi segja íþrótta- og tómstundafélögin gegna mikilvægu sam- félagslegu hlutverki og með því að tengja saman fleiri hópa verði vonandi hægt að draga úr brottfalli framhaldsskólanema af erlendum uppruna. Síðast en ekki síst – að koma í veg fyrir að hér verði lagskipt samfélag eftir 10-20 ár. „TUFF Ísland er án efa mikilvægasta mennt- unar- og samfélagsverkefni sem framkvæmt er hérlendis. Við vitum hvað það er mikilvægt að börn og unglingar, burtséð frá bakgrunni eða uppruna, upplifi sig sem hluta af heild. Það styrkir sjálfsmynd þeirra, tryggir betri árangur í námi og gefur þeim góðan grunn fyrir lífið. Í raun erum við að tala um sameiginlega hags- muni þjóðfélagsins í heild til framtíðar,“ segja þau. Morgunblaðið/Eggert Stjórn Hrund Hafsteinsdóttir, Shamender Talwar og Friðjón Friðjónsson eru í stjórn TUFF. Bessastaðir Guðni Th. Jóhanneson forseti brá sér í boltaleik við nokkra krakka á lóðinni fyrir framan forsetasetrið, þegar verkefnið var kynnt. Jöfn tækifæri fyrir öll börn  TUFF-samtökin sporna við fordómum og brúa menningarlegt bil milli barna af fjöl- breyttum uppruna 24 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. NÓVEMBER 2018

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.