Morgunblaðið - 01.11.2018, Page 34
34 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. NÓVEMBER 2018
BAKSVIÐ
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Ein af mestu hátíðisstundum Borg-
firðinga á fyrri hluta 20. aldar var
fyrir sléttum 90 árum þegar Hvítár-
brúin við Ferjukot var formlega tek-
in í notkun. Fjöldi fólks lét ekki
sunnanrok og stórrigningu eyði-
leggja fyrir sér þessi langþráðu
tímamót og hlýddi á ræður forsætis-
ráðherra og sýslumanns og lestur
vígsluljóðsins og tók þátt í söng og
dansi til að ná úr sér hrollinum.
Hvítá var mikill farartálmi og
skipti Borgarfjarðarhéraði í raun í
tvo hluta. Brú sem byggð var við
Kljáfoss undir lok nítjándu aldar
bætti nokkuð úr en íbúar neðri
sveita héraðsins notuðu lögferj-
urnar. Ferjan hjá Ferjukoti var
mest notuð enda var hún á einni fjöl-
förnustu leið landsins. Sem dæmi má
nefna að eftir að byrjað var að slátra
í Borgarnesi þurftu bændur úr
Andakíl, Lundarreykjadal, Skorra-
dal og hluta Flókadals að láta ferja
fé sitt og nautgripi yfir ána. Það var
undir duttlungum árinnar komið
hvernig ferðin gekk. Hvítárbrúin
breytti því heilmiklu í atvinnulífi og
félagslífi íbúa Borgarfjarðarhéraðs.
Hún opnaði dyr innan héraðs, jók
héraðsvitund og átti sinn þátt í því
að gera héraðið að einni heild.
Ferjustaðir um aldir
Þegar ferjan hjá Ferjukoti lagðist
af með opnun Hvítárbrúarinnar árið
1928 hafði þar verið lögferja í 62 ár.
Eins og nöfn bæjanna Ferjubakka
og Ferjukots benda til er saga ferju-
flutninga á þessum stað mun lengri.
Almenningsferja var í Ferjukoti eft-
ir að það var stofnað sem sjálfstætt
býli undir lok 17. aldar en máldagi
sælubús á Ferjubakka, eitt elsta
skjal um sögu Borgarfjarðar og
landsins alls, bendir til að þar hafi
verið ferja snemma á miðöldum.
Jón Þorláksson, þá landsverk-
fræðingur en síðar forsætisráð-
herra, gerði fyrstu mælingar á
brúarstæði á milli Hvítárvalla og
Ferjukots á árinu 1910. Brúarstæðið
þurfti að vera neðan ármóta Norður-
ár til þess að ekki þyrfti að brúa
hana líka. Eðlilegt er að litið hafi
verið til ferjustaðarins enda er þar
styst yfir ána.
Niðurstaðan varð að brúa ána 200
metrum ofan við ferjustaðinn. Þar
eru traustar undirstöður í klettum
beggja vegna ár.
Borgfirðingar og Mýramenn
höfðu lengi barist fyrir brú. Safnað
var í vega- og brúarsjóð og stóðu
sýslurnar fyrir lagningu vegar hjá
Eskiholti. Þjóðvegurinn var færður
frá Kljáfossi að Ferjukoti á árinu
1924 og eftir það komst brúargerð
fyrir alvöru á dagskrá stjórnvalda.
Steinsteypt bogabrú ódýrust
Til þess að hægt væri að byggja
brú á þessum stað þurfti að sprengja
fyrir vegi í Ferjukotsklettum, að
brúarendunum. Það var gert sumar-
ið 1927 og brúin var byggð sumarið
eftir. Miklar athuganir voru gerðar
á því hvaða gerð af brú væri heppi-
legust. Verkfræðingar töldu í upp-
hafi hengibrú úr járni tiltækilegasta
vegna þess að þá þyrfti ekki að gera
stöpul úti í ánni. Járngrindarbrú
með steyptu gólfi kom einnig til
greina en þegar gerðar voru athug-
anir á steinsteyptri bogabrú kom í
ljós að góðir möguleikar voru á því
að grafa niður á trygga undirstöðu
og steypa stöpul og reyndist sú gerð
ódýrasti kosturinn. Þess vegna varð
bogabrú í tveimur höfum fyrir val-
inu, brúin sem enn stendur.
Vinna við brúargerðina hófst 12.
apríl og stóð til loka nóvembermán-
aðar. Verkið tók því um sjö og hálfan
mánuð þótt mesta vinnan hafi verið
um sumarið þegar miðstöpullinn var
byggður. Það þótti vel af sér vikið og
þætti einnig gott í dag, miðað við
þann hægagang sem oft er á opin-
berum framkvæmdum. Geir G.
Zoëga vegamálastjóri, Árni Pálsson
verkfræðingur, sem hannaði brúna
og hafði eftirlit með smíðinni, Sig-
urður Björnsson, brúarsmiður og
verkstjóri við brúarsmíðina, og
brúarmenn allir unnu gott starf, eins
og brúin sjálf ber best vitni um.
Það sem meira er og margir sem
standa í framkvæmdum í dag mættu
læra af, þá stóðust áætlanir um
kostnað. Brúin kostaði nálægt 165
þúsund krónum og vegurinn utan í
hamrinum 23 þúsund til viðbótar.
Hvítárbrúin var með mestu
brúarmannvirkjum. Þegar hún var
byggð var hún fjórða lengsta brú
landsins og sú steinsteypta brú sem
mest var lagt í. Sem dæmi um um-
fangið má nefna að kostnaður við
Hvítárbrúna eina var jafnmikill og
samtals við 22 aðrar brýr sem lokið
var við á þessu sama ári og nam um
fimmtungi allra útgjalda ríkisins til
vegamála þetta ár.
Kom til handalögmála
Frá upphafi var litið til þess að
Hvítárbrúin væri mikilvægur liður í
því að koma á bílvegasambandi á
milli Reykjavíkur og Norðurlands.
Vegurinn þokaðist úr Reykjavík og
upp á Kjalarnes og að lokum var
ákveðið, eftir nokkrar vangaveltur,
að hann yrði lagður um láglendi fyr-
ir Hvalfjörð og vestur fyrir Hafnar-
fjall. Eftir að brúin kom tók það í
raun skamman tíma að gera slark-
færan veg fyrir Hvalfjörð og varð sú
leið fljótt tiltölulega fjölfarin þótt
enn um sinn væru flóabátarnir tals-
vert notaðir.
Þótt brúin væri hugsuð fyrir bíla
var hún lítið breiðari en gömlu
brýrnar sem gerðar höfðu verið með
þarfir gangandi fólks og ríðandi og
vagna í huga. Þegar fram í sótti fóru
um brúna margfalt þyngri bílar en
hönnun hennar var miðuð við og um-
ferðin jókst stórkostlega.
Þegar umferðin var sem mest,
áður en Borgarfjarðarbrúin tók við
meginhlutverki Hvítárbrúarinnar
árið 1980, gerðist það oft að bíl-
stjórar lentu í því að vera hraktir til
baka þegar bíll úr gagnstæðri átt
var kominn lengra inn á brúna. Oft
var illmögulegt að sjá þetta fyrir
vegna bogans og blindrar aðkeyrslu
inn á brúna. Þótt sá ætti réttinn sem
fyrr komst inn á brúna var fólk mis-
jafnlega hæft til að bakka og þá var
oftast reynt að leysa úr málum með
friðsamlegum hætti. Stundum kom
þó til snarpra orðaskipta og jafnvel
handalögmála. Ekki hefur komið til
þess á Borgarfjarðarbrúnni, svo vit-
að sé.
Hvítárbrúin er enn á sínum stað.
Hefur hún hlutverki að gegna í sam-
göngum innan héraðs og er að-
dráttarafl fyrir ferðafólk sem gjarn-
an staldrar þar við.
Létu óveður ekki spilla gleðinni
90 ár eru liðin frá því að Hvítárbrúin við Ferjukot var tekin í notkun Kostaði jafn mikið
og 22 aðrar brýr samtals Leysti af hólmi fjölfarna ferju og opnaði dyr innan héraðs
Ljósmynd/Ólafur Jón Jónsson
Stöpull Lögun miðstöpulsins, sem er mikill steypuklumpur, sést vel á mynd sem tekin er lóðbeint ofan á brúna. Hann hefur staðist öll flóð og ísrek í 90 ár.
Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrstu bílarnir Brúarmenn óku sjálfir bílum sínum yfir Hvítárbrú, áður en smíði lauk og fögnuðu vel áfanganum.
Frú Anna Guð-
rún Klemens-
dóttir, eigin-
kona Tryggva
Þórhallssonar
forsætisráð-
herra, opnaði
Hvítárbrúna
fyrir umferð
með því að
klippa á silki-
borða sem
strengdur hafði verið yfir brúna. Tók vegamálastjóri fram að skærin
skyldi hún geyma til minja um atburðinn. Það gerði Anna Guðrún og gaf
síðar sonardóttur sinni og nöfnu, Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sem nú
varðveitir skærin.
Skærin eru úr silfri, smíðuð af Jónatan Jónssyni frá Stóra-Kálfalæk,
gullsmið í Reykjavík. Skærin góðu eru einn af sýningargripum á sýningu
um Hvítárbrúna.
Áður en skærin voru munduð hélt Tryggvi forsætisráðherra ræðu úr
ræðustóli vestan ár. Talaði ráðherra hátt og snjallt og mæltist vel, eins og
Kristleifur Þorsteinsson, fræðaþulur á Stóra-Kroppi, skrifaði í fréttabréf
til Vestur-Íslendinga sem Lögberg birti.
Þegar mannfjöldinn hafði gengið suður yfir brúna steig Guðmundur
Björnsson sýslumaður í ræðustólinn. Þá flutti Halldór skáld og bóndi
Helgason á Ásbjarnarstöðum vígslukvæði sitt. Meðan á ræðuhöldunum
stóð rigndi látlaust svo að tæpast gátu ræðumenn haldið minnisblöðum
sínum óskemmdum.
Silfurskæri notuð á borðann
ANNA GUÐRÚN KLEMENSDÓTTIR OPNAÐI FYRIR UMFERÐ
Silfurskæri Forsætisráðherra-
frúin notaði þessi fallegu skæri
til að klippa á borðann.
Anna Guðrún
Klemensdóttir
Sýning Safnahúss Borgar-
fjarðar í Borgarnesi um bygg-
ingu Hvítárbrúarinnar árið
1928, mikilvægi framkvæmdar-
innar og áhrif er einn dag-
skrárliða á Evrópsku ári menn-
ingararfs. Hún er sett upp í
minningu Þorkels Fjeldsted,
bónda í Ferjukoti, sem var mikill
áhugamaður um sögu brúar-
innar.
Sýningin verður opnuð í kvöld
klukkan 19.30, á 90 ára vígslu-
afmæli brúarinnar, með sam-
komu á neðri hæð Safnahúss.
Sýningin sjálf er í Hallsteinssal
og verður opin á afgreiðslutíma
safnanna, klukkan 13 til 18 virka
daga, til 12. mars næstkomandi.
Safnahúsið hafði samstarf
við Vegagerðina um undirbún-
ing sýningarinnar. Helgi Bjarna-
son blaðamaður er sýningar-
stjóri, en hann er höfundur
greinarinnar um sögu Hvítárbrú
sem hér birtist. Heiður Hörn
Hjartardóttir hannaði sýn-
inguna.
Sýning í
Safnahúsi
Borgarfjarðar
VÍGSLUAFMÆLI
FATNAÐUR Á ALLA
FJÖLSKYLDUNA
Borgartún 3, sími 847 1660, www.bambus.is, bambus@bambus.is
bambus.is bambus.is • Opið mánudaga og fimmtudaga frá kl. 10-14
úr lífrænni ull og silki
Kíktu á
netverslun okkar
bambus.is