Morgunblaðið - 01.11.2018, Side 43

Morgunblaðið - 01.11.2018, Side 43
43 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. NÓVEMBER 2018 Kvöldar á Óðni Varðskipið Óðinn þjónaði íslensku þjóðinni í nær hálfa öld og komst meðal annars í hann krappan í þorskastríðinu. Nú er Óðinn kominn á annað tilverustig í Reykjavíkurhöfn. Hari Skyndilega hafa nýjar blikur færst upp á himinhvolf alþjóða- mála. Undanfarið hefur verið lit- ið á loftslagsógnina sem stærsta viðfangsefni mannkyns næstu ár og áratugi, en nú hefur kjarn- orkuógnin bæst við eftir að hafa horfið að mestu úr vitund al- mennings allt frá lokum kalda stríðsins. Þetta gerðist með yfir- lýsingu Trumps, forseta Banda- ríkjanna, 20. október sl. um að segja einhliða upp INF- samningnum við Rússa frá 1987 um meðal- drægar kjarnorkueldflaugar, svonefndum Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty. Ólíkt afstöðunni til loftslagssamningsins er Trump talinn hafa stuðning meirihluta á Bandaríkjaþingi fyrir slíkri uppsögn. Með þessu stíga Bandaríkin sem forysturíki NATO fram á völlinn og boða einhliða nýtt og stór- hættulegt vopnakapphlaup sem ógna myndi gjörvöllum mannheimi. Tillögu Rússa á vett- vangi Sameinuðu þjóðanna í síðustu viku um að framlengja INF-samninginn uns reynt hefði á samkomulag um endurskoðaðan samn- ing hafnaði USA umsvifalaust. INF-samning- urinn var á sínum tíma framhaldsuppskera af Reykjavíkurfundi Reagans og Gorbatsjovs og ætti að vera mörgum hérlendis í fersku minni. Með honum var eytt hátt í 3.000 kjarnorku- flugskeytum, og lögðu Sovétríkin tvöfalt meira í það púkk en Bandaríkin. Ekkert réttlætir kúvendingu USA Bandaríkjaforseti heldur áfram að koma mönnum óþægilega á óvart, samherjum jafnt sem andstæðingum. Eftir fall Sovétríkjanna verður ekki borið við hugmyndafræðilegum ágrein- ingi heldur ráða nakin valda- pólitísk sjónarmið í taflinu milli helstu risavelda eins og Banda- ríkjanna og Rússlands og nú einnig Kína. Fróðlegt er að lesa ummæli evrópskra stórblaða um þetta síðasta skref forsetans. Þýska vikuritið Die Zeit segir þannig á forsíðu 25. október sl.: „Geri Trump alvöru úr tilkynn- ingu sinni, opnar hann gáttir fyrir nýtt kjarnorkuvopnakapphlaup. Kjarnorku- hættan var reyndar aldrei horfin. Að vísu eru vopnabúrin minni en áður. En öll hafa kjarn- orkuveldin byrjað að þróa frekar atómvopn sín. Flaugarnar og sprengjurnar eru orðnar minni, nákvæmari og markvissari. Freistingin að beita þeim einhvern tíma hefur þar af leið- andi vaxið.“ Og þann 26. október skrifaði The Economist um afleiðingarnar af ákvörðun Bandaríkjanna m.a.: „Í fyrsta lagi gætu Rúss- ar fljótlega komið sér upp meðaldrægum flaugum sem beindust að Evrópu. Þar á meðal væru ekki aðeins 9M729-flaugar, heldur líka RS-26 „Rubezh“, sem er langdræg flaug sem hefur verið prófuð á vegalengdum sem jaðra við efri mörk INF-samningsins. Í öðru lagi myndu Bandaríkin keppast við að ná sömu færni. Embættismenn játa að rannsóknir séu „skammt á veg komnar“, ár líði uns slíkt skeyti sé fullbúið. Í þriðja lagi þurfi afburða- samningalipurð til að koma slíkum skeytum fyrir. Evrópskir leiðtogar myndu forðast að taka við þeim …“ – Þessu til viðbótar er rétt að hafa í huga að New Start-samningurinn frá 2010 um langdrægar kjarnaflaugar rennur út í ársbyrjun 2021, en samkvæmt honum má hvor aðili hafa yfir að ráða 1.550 langdrægum atóm- sprengjum sem ná heimsálfa milli. Verði þessi samningur ekki framlengdur telja margir að voðinn sé vís. Græningjar í stórsókn í Þýskalandi Í Vestur-Þýskalandi spruttu á áttunda ára- tugnum upp öflugar friðarhreyfingar sem beittu sér af krafti gegn fyrirætlunum NATO um að staðsetja meðaldrægar kjarnorku- eldflaugar í Mið-Evrópu. Flokkur þýskra Græningja sem stofnaður var 1980 tók pólit- íska forystu fyrir þessum málstað, náði inn í Bundestag 1983 og hafði brátt veruleg áhrif. Forystumaður flokksins um skeið, Joschka Fischer, var utanríkisráðherra Þýskalands 1998-2005 í samstjórn með sósíaldemókrötum. Undanfarið hafa Græningjar styrkt verulega stöðu sína á kostnað flokka kristilegra og sósíaldemókrata. Í nýafstöðnum fylkiskosn- ingum í Hessen fékk flokkur Græningja um fimmtung atkvæða og var að mati stórs hóps kjósenda sá flokkur sem hefði best svör við framtíðaráskorunum. Fullvíst er að boðskapur Bandaríkjaforseta um uppsögn INF- samningsins mun falla í afar grýtta jörð meðal Þjóðverja og þá einnig kröfurnar um stór- aukið fjárframlag til NATO. Utanríkis- ráðherrann Heiko Maas telur að ákvörðun Trumps geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir öryggi Evrópu. Norðurlönd sameinist gegn vopnakapphlaupinu Árið 1981, þegar Bandaríkin voru að undir- búa staðsetningu meðaldrægra eldflauga í Vestur-Evrópu, kynnti Anker Jörgensen, þá- verandi forsætisráðherra Danmerkur, hug- mynd danskra sósíaldemókrata um Norður- lönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. (Rasmus Mariager. Historisk Tidsskrift 2005, s. 553- 583). Sá sem þetta ritar átti sæti í norrænum hópi undir forystu Ankers sem ræddi hug- myndina á nokkrum fundum. Því er þetta rifjað upp hér að sú staða sem skapast hefur með út- spili Bandaríkjanna um endurnýjaða kjarn- orkuvígvæðingu hlýtur að kalla á andsvör og endurmat á afstöðu Norðurlanda til hernaðar- bandalags undir þeirra forystu. Sérstaða Norðurlanda felst m.a. í því að eftir lokun her- stöðvarinnar í Keflavík er þar hvergi varanlegt herlið á vegum Bandaríkjanna eða NATO. Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland segir líka m.a.: „Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóð- legra skuldbindinga, í því augnamiði að stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.“ Varnar- málaráðherrar Norðurlanda ásamt utanríkis- ráðherra Íslands gáfu út það sameiginlega stöðumat í liðinni viku að engin hernaðarógn steðji nú að Norðurlöndum. Saman hafa Norðurlönd einstaka stöðu til að leggjast á árar um afvopnun og gegn framleiðslu og dreifingu kjarnavopna. Norðurlandaráð og Norður- skautsráðið eru ásamt Sameinuðu þjóðunum vettvangur til að fylgja slíkri stefnu eftir. Eftir Hjörleif Guttormsson » Saman hafa Norðurlönd einstaka stöðu til að leggj- ast á árar um afvopnun og gegn framleiðslu og dreifingu kjarnavopna. Hjörleifur Guttormsson Höfundur er náttúrufræðingur. Norðurlönd sameinist gegn kapphlaupi stórveldanna um kjarnorkuvopn Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg siglt í gegnum fordæmalaust tekjugóðæri. Tekjur borgarsjóðs hafa hækkað langt umfram verðlags- breytingar og íbúaþróun. Samhliða hefur grunnþjón- usta hvergi batnað. Ekki er ljóst hvert fjármagnið fór. Ekki fór það í samgöngu- lausnir eða leikskóla. Ekki fór það í lausnir við hús- næðisvanda borgarbúa. Ekki leiddi það til bættra lífskjara. Borgarbúar greiða sífellt hærra gjald fyrir grunnþjónustu sem ekki er veitt. Við borgum nú meira en fáum minna. Málið er einfalt. Vinnandi fólk vill fá eitthvað fyrir peninginn. Gefist þess ekki kostur, er bæði réttlátt og eðlilegt að íhuga skattalækkanir. Innlegg í komandi kjaraviðræður Útsvar í Reykjavík er í lögleyfðu há- marki. Fasteignamat hefur hækkað veru- lega og krónutala fasteignagjalda fer sí- fellt hækkandi. Svigrúm í rekstri Orku- veitunnar hefur ekki verið nýtt til gjaldskrárlækkana. Borgarbúar skatt- píndir á öllum vígstöðvum. Nágrannasveitarfélög innheimta lægra útsvar. Þau bjóða betri grunnþjónustu. Höfuðborgin er ekki eingöngu í sam- keppni við erlendar borgir um fólk og at- gervi, hún er í samkeppni við önnur inn- lend sveitarfélög. Fólk flyst þangað sem lífskjör mælast betri. Lækkun útsvars er hagsmunamál fyrir alla þjóðfélagshópa. Skattastefna sveitar- félaga hefur meiri áhrif á launafólk en álagning ríkisins á tekjuskatti. Útsvars- prósentan skiptir láglaunafólk miklu máli. Einstaklingur með lágmarkslaun greiðir um helmingi hærri fjárhæð í út- svar til sveitarfélags, en í tekjuskatt til ríkisins. Lækkun útsvars er mikilvægt innlegg í komandi kjara- viðræður. Lækkaðar álögur skipta borgarbúa máli. Lækkum útsvar í Reykjavík Í dag starfa 12% vinnandi borgarbúa hjá Reykjavíkur- borg. Það er 20% hærra hlutfall en hjá Kópavogsbæ. Báknið er uppblásið og yfir- byggingin stór. Stærðar- hagkvæmni engin. Af- greiðsla erinda flókin og boðleiðir langar. Borgar- kerfið flækist fyrir sjálfu sér. Við þurfum minni yfirbyggingu og forgangsröðun verkefna. Við þurfum ábyrga fjármála- stjórn. Þannig má hagræða og spara um- talsvert skattfé. Þessu aukna fjárhags- lega svigrúmi mætti skila beint aftur til borgarbúa í formi skattalækkana. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvar í Reykjavík niður fyrir 14%. Það mætti gera í fjórum þrepum fyrir lok þessa kjörtímabils. Núverandi meirihluti í borgarstjórn telur stjórnmálafólk best til þess fallið að verja fjármunum annarra. Við aðhyllumst ekki sama stef. Við teljum engum betur treystandi fyrir fjármunum en einmitt þeim sem afla þeirra. Borgar- búum. Það er ekki lögmál að skattar og gjöld geti eingöngu hækkað en aldrei lækkað. Við viljum lækka álögur. Við vilj- um lækka skatta. Vinnandi fólk vill fá eitthvað fyrir peninginn Eftir Hildi Björnsdóttur Hildur Björnsdóttir » Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka útsvar í Reykjavík niður fyrir 14%. Það mætti gera í fjórum þrepum fyrir lok þessa kjörtímabils. Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Sjálf- stæðisflokkinn í Reykjavík. hildurb@reykjavik.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.