Gripla - 20.12.2018, Side 10
GRIPLA10
eru tvinn, um 16,5 × 14 cm, og er sama rithönd á þeim báðum. Í skrá sinni
yfir íslensk handrit í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi getur Vilhelm
Gödel sér þess til að þau séu frá um 1550 og virðist það nærri lagi eins
og nánari rök verða leidd að hér á eftir. Blöðin voru áður hlífðarkápa um
annað handrit í sama safni, Papp 8vo nr. 1, sem er handrit með rímum og
kvæðum skrifað um 1660. Það var eitt fjölmargra handrita sem Guðmundur
Ólafsson fornritafræðingur fékk til Svíþjóðar að undirlagi Johans Hadorph
fornfræðings, en Guðmundur var einn af nokkrum íslendingum í þjónustu
Sænska fornfræðaráðsins (Collegium antiqvitatum) undir lok 17. aldar.9
Til Stokkhólms kom hann árið 1681 og er sagður hafa haft 50 íslensk
handrit í farteskinu, auk þess sem Helgi bróðir hans starfaði um skeið sem
aðstoðarmaður hans og lagði safninu til allmörg handrit sem hann safnaði
hér á landi árið 1683.10 Ytri blöð brotsins nr. 10 eru allsködduð og ekki
læsileg nema að hluta. Þá eru blöðin skert að ofan og vantar efsta nótna-
streng að hluta; alls hafa verið átta nótnastrengir á 1r og 2r/v en sex á 1v.
Ekki verður beinlínis ráðið hvort efnið á 2r fylgir beint á eftir 1v eða hvort
önnur tvinn hafa legið á milli þeirra, eitt eða fleiri. Hið fyrrnefnda virðist
þó sennilegt.
Síðara brotið ber safnmarkið S. 252a og er tvö pappírsblöð, laus hvort
frá öðru og 19,7 × 16 cm að stærð. um tilurð og feril blaðanna er allt á
huldu, en þau hafa eitt sinn tilheyrt söngbók sem að öllum líkindum var
rituð á síðari hluta 16. aldar.11 Enn mótar fyrir uppábroti á köntum og má
leiða líkur að því að blöðin hafi verið fjarlægð úr bókbandi. Á þeim standa
þrír söngvar sem tengjast aðventu og jólum og niðurlag eins til viðbótar.
9 Vilhelm Gödel, Katalog öfver Kongl. Bibliotekets fornisländska och fornnorska handskrifter
(Stokkhólmur: 1897–1900), 115 og 356. Sjá einnig Bjarni Þorsteinsson, Íslenzk þjóðlög, 183.
10 Páll Eggert ólason, Íslenzkar æviskrár, 2. bindi (reykjavík: Hið íslenzka bókmennta-
félag, 1949), 173; Hannes Þorsteinsson, „Ævir lærðra manna (Helgi Ólafsson)“; Henrik
Schück, Kgl. vitterhets historie och antikvitets akademien, dess förhistoria och historia, 2. bindi
(Stokkhólmur: 1933), 92–94, sjá einnig 3. bindi, 116–118.
11 Jón Samsonarson segir að blöðin S. 252a „gætu sennilega verið frá síðara hluta 16. aldar, eða
þá frá fyrri hluta 17. aldar“ og verða hér færð rök fyrir því að þau séu frá 16. öld og eldri en
fyrsta útgáfa grallarans; sjá „Drög að handritaskrá um íslenzk handrit og handrit sem varða
íslenzk efni í söfnum í Stokkhólmi og uppsölum“ (óútgefið handrit, 1969), 59. Ekki er vitað
hvernig blöðin komust í Konungsbókhlöðuna í Stokkhólmi. Þau hafa verið lögð í umslag
sem merkt er „Isländsk kyrkomusik“ og þar stendur einnig ártalið 1880; hugsanlega hafa
þau verið fjarlægð úr bandi það ár. Ekki er þó getið um blöðin í skrá Gödels yfir íslensk
handrit í safninu (útg. 1897–1900). Höfundur þakkar Einari G. Péturssyni fyrir að hafa
bent sér á tilvist handritsbrotsins S. 252a.