Gripla - 20.12.2018, Page 28
GRIPLA28
söngva Lúthers.46 Segja má að efnið styðji tilgátu Arngríms Jónssonar
í doktorsriti sínu, en hann gat sér þess til að messubækur úr rómversk-
kaþólskri skipan hefðu verið notaðar á fyrsta skeiði siðbreytingarinnar þar
eð ekki var öðrum bókum til að dreifa, og að messuliðir hafi „sennilega
verið þýddir á móðurmál af þeim, sem færir voru til þýðinga, einkum á
biskupsstólunum“.47
Ekki kemur á óvart að forskrift sú sem hér hefur verið fjallað um
hafi ekki hlotið náð fyrir augum þess einlæga Lúthersmanns, Guðbrands
Þorlákssonar. Hin íslensk-gregorska útfærsla helgihaldsins var bundin við
forgengileg skinn- og pappírshandrit og komst aldrei á prent. Grallarinn
sem prentaður var á Hólum 1594 festi í sessi tiltekna útfærslu messunnar,
til dæmis hvað snerti val söngva á tilteknum dögum, svo og það hvað syngja
ætti á íslensku og hvað á latínu. Sú bók, sem prentuð var með samþykki
biskupanna beggja, ruddi úr vegi þess konar skipan messu- og tíðasöngs
sem greina má í Stokkhólmsbrotunum. Þar með voru örlög þeirra ráðin –
þau gleymdust í kirkju- og tónlistarsögu íslands í rúmar fjórar aldir. Nú
þegar efni þeirra hefur verið kannað má telja enn ljósara en áður að prent-
aðar söngbækur frá Hólum og Skálholti segja síður en svo alla söguna þegar
kemur að kirkjusöng á 16. og 17. öld.
46 Stærstur hluti þessa efnis hefur væntanlega farið forgörðum með þeim blöðum sem glatast
hafa. Þó er ekki með öllu útilokað að einhverjir latneskir kirkjusöngvar við íslenska texta,
úr þessari sömu litúrgíu eða söngvaforða, hafi lifað lengur og varðveist í yngri handritum. í
þessu samhengi má nefna sekvensinn Stóð álengdar staðlaus að gá í handritinu AM 102 8vo
sem ritað er á síðasta fjórðungi 17. aldar, en hann er íslensk þýðing á latneskum sekvens,
Stans a longe, sem tilheyrði 10. sunnudegi eftir þrenningarhátíð í kaþólskum sið. Sjá Erik
Eggen, The Sequences of the Archbishopric of Nidarós, 1. bindi, lv, lxii, 125; um handritið sjá
Árni Heimir Ingólfsson, „aM 102 8vo: Kvæða- og tvísöngsbók frá Vestfjörðum,“ Góssið
hans Árna, minningar heimsins í íslenskum handritum, ritstj. Jóhanna Katrín Friðriksdóttir
(reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2014), 36–49.
47 Arngrímur Jónsson, Fyrstu handbækur presta á Íslandi eftir siðbót, 461.