Gripla - 20.12.2018, Síða 169
169
litið á elstu heimildir frá Englandi og meginlandi Evrópu, heimildir frá
samtíma Aðalsteins eða því sem næst, en síðan verður litið á yngri heim-
ildir frá Englandi. Að því loknu verður litið á vitnisburð norrænna forsagna
um Aðalstein og heimildargildi þeirra metið með hliðsjón af því sem áður
hefur komið fram.
Í Egils sögu segir að Egill Skallagrímsson hafi ort drápu um aðalstein,
en stefið í henni var þetta: „nú liggr hæst und hraustum / hreinbraut
Aðalsteini.“3 Ekkert annað er vitað um þessa drápu sem ætlað var að halda
nafni Englandskonungs á lofti. En hvað hafði sögualdarkappi eins og Egill
að sækja til aðalsteins? Hér á eftir er ætlunin að benda á nokkrar skýr-
ingar á því hvers vegna Aðalsteinn varð að menningarlegu kennileiti sem
sagnaritarar frá ýmsum löndum og ýmsum tímum gátu vísað til.
Aðalsteinn í enskum heimildum frá 10. öld
Skipta má enskum heimildum um aðalstein frá 10. öld í þrjá flokka.
Í fyrsta lagi finnast ýmsar leifar sem rekja má til hans tíma: Máldagar,
mynt og áritanir í bókum. Í öðru lagi er til kveðskapur á fornensku (engil-
saxnesku) og latínu og ber þar hæst kvæðið um orustuna við Brunanburh
árið 937 sem varðveist hefur í Engilsaxaannálum. í þriðja lagi eru frásagnar-
heimildir og má þar helst telja sex annála frá 10. og 11. öld, sem saman eru
iðulega nefndir Engilsaxaannálar (Anglo-Saxon Chronicle) og byggja að
stofni til á sameiginlegu forriti.4
Um 70 máldagar eru til sem eignaðir eru Aðalsteini í fornum heim-
ildum. Þar af er töluverður fjöldi falsana en 39 sem í raun virðast vera
gefnir út af honum. Af þessum 39 eru fjórir til í handritum frá fyrri hluta
10. aldar.5 Þeir máldagar sem eigna má Aðalsteini með nokkurri vissu
spanna árin 925–939 og má ýmislegt fræðast af þeim um þá ímynd sem
3 Egils saga Skalla-Grímssonar, útg. Sigurður Nordal, íslenzk fornrit II (reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 1933), 147. Orðið hreinbraut merkir hér braut hreindýranna, þ.e. fjall-
lendi, og virðist vísunin vera til yfirráða Aðalsteins yfir hálendum norðurhéruðum Englands
og Skotlands.
4 Handrit annálanna og þar með mismunandi gerðir eru auðkennd með bókstöfunum a–I.
Þær hafa afar misjafnt gildi sem heimildir um 10. öld.
5 Simon Keynes, „register of the Charters of King Æthelstan,“ toller Lecture 2001 (ópr.),
1–4. Sjá nánar angela Marion Smith, „King Æthelstan in the English, Continental and
Scandinavian traditions of the tenth to the thirteenth Centuries,“ (Doktorsritgerð,
university of Leeds, 2014): 46–51.
KEnnILEItI SJÁLfSMYnDar