Gripla - 20.12.2018, Page 184
GRIPLA184
um bardagann og hann vill fylgja henni. Þar gefur hann í skyn að ólafur
hafi einn lifað af bardagann (de tot modo milibus unus) af andstæðingum
Aðalsteins og virðist þar styðjast við frásögn Ulsterannála þar sem þó
segir ekki annað en að Ólafur hafi komist af ásamt fáum (sed rex cum
pauci euasit, .i.. Amlaiph).56 í frásögn Ulsterannála er hins vegar ekki getið
um aðild Skotakonungs að bardaganum. Fullyrðing Vilhjálms um fall
Constantinusar í bardaganum, sem finna má í fyrsta hluta verksins, er því í
samræmi við lýsingu hans á bardaganum í öðrum hluta verksins, en byggir
ekki á heimildum hans í fyrsta hlutanum.
Vilhjálmur frá Malmesbury er iðulega notaður sem heimild um ævi
Aðalsteins í sagnfræðiritum nútímans en varhugavert er að treysta honum
frekar en öðrum sagnariturum frá 12. öld. Eina kunna heimild hans fyrir
öðrum hluta verksins, þar sem flestar viðbætur er að finna, er ekki fornrit
heldur ljóð sem líklega er frá hans eigin samtíma. Að öðru leyti styðst
hann, líkt og flestir samtímamenn hans, við munnlegar heimildir og brota-
kenndan sagnaarf og endurspegla áherslur hans að mörgu leyti áhugamál
munkanna í Malmesbury, hagnað þeirra af jörðum sem þeir töldu sig
hafa fengið frá Aðalsteini, og rækt þeirra við minningu hins guðhrædda
konungs. Hér verður að taka undir niðurstöðu sagnfræðingsins David N.
Dumville sem telur Vilhjálm varhugavert vitni, „we must ... recognise that
his attitude to evidence is medieval and not ours.“57 Það vekur ekki heldur
traust á Vilhjálmi sem sagnaritara að um þá fáu hluti þar sem hægt er að
bera texta hans saman við eldri heimildir þá reynist hann iðulega fara rangt
með staðreyndir.
Nokkur breyting varð á ímynd Aðalsteins í meðförum Vilhjálms frá
Malmesbury og samtíðarmanna hans. Enda þótt ýmsar staðreyndir hafi
brenglast í meðförum þeirra skerptust megindrættirnir í mynd þeirra
og urðu hluti af opinberri ímynd aðalsteins í Englandi undir stjórn
Normanna. Flestir sagnaritararnir leggja áherslu á hernaðarafrek Aðalsteins
og sigurinn við Brunanburh. Orðstír Aðalsteins sem kristins konungs og
fyrirmyndar að því leyti virðist einnig hafa farið vaxandi og kepptust
munkar víða um England við að tengja Aðalstein við sitt klaustur eða
kirkjustofnun. Minna fer fyrir áhuga á samskiptum aðalsteins við kon-
unga á meginlandinu eða fóstur hans á evrópskum ríkisörfum. Sú ímynd
56 William of Malmesbury, Gesta regum Anglorum, 222. Sjá The Annals of Ulster, 384.
57 Dumville, Wessex and England, 146.